15% stækkun lífræns landbúnaðarlands milli ára

Í árslok 2016 voru 57,8 milljónir hektara landbúnaðarlands í heiminum komnar með vottun til lífrænnar framleiðslu, en þetta samsvarar 15% aukningu milli ára. Á sama tíma fjölgaði bændum í lífrænni framleiðslu úr tæplega 2,4 milljónum í 2,7 milljónir, eða um 12,8%. Lífrænn landbúnaður var stundaður í 178 löndum á þessum tíma og heildarsala lífrænna landbúnaðarafurða á heimsvísu árið 2016 nam 89,7 milljörðum Bandaríkjadala (rúmlega 9.000 milljörðum ísl. kr.). Á flestum stærri markaðssvæðum heimsins var veltuaukningin milli ára yfir 10% og í Frakklandi var hún 22%. Markaðshlutdeild lífrænt vottaðrar matvöru var hæst í Danmörku, 9,7%. Í 15 löndum var hlutfall landbúnaðarlands með lífræna vottun komið yfir 10%. Þessar tölur og margar fleiri koma fram í skýrslunni The World of Organic Agriculture sem kom út í tengslum við vörusýninguna BioFach sem haldin var í Nürnberg á dögunum.
(Sjá frétt á heimasíðu IFOAM 14. febrúar).