Þang til að minnka metanlosun frá mjólkurkúm

Danskir vísindamenn eru þessa dagana að hleypa af stokkunum fjögurra ára rannsóknarverkefni undir yfirskriftinni Climate Feed þar sem ætlunin er að þróa fæðubótarefni úr þörungum sem gæti minnkað metanlosun frá mjólkurkúm um 30%. Verkefnið felur í sér þróun aðferða við að rækta þörunga sem hafa þessi áhrif og vinna úr þeim duft eða köggla sem auðvelt er að bæta í fóður nautgripa, án neikvæðra áhrifa á nyt kúnna eða bragð og gæði mjólkurinnar. Þörungar sem ræktaðir verða á dönskum strandsvæðum ættu m.a. að geta nýtt næringarefni sem skolast í sjóinn frá landbúnaði. Hreinni sjór og sjálfbærari landbúnaður gætu því orðið hliðarafurðir verkefnisins, auk þess sem varan ætti að draga úr fóðurþörf með því að draga úr orkutapi vegna metanlosunar. Háskólinn á Árósum sér um val á tegundum og þróun ræktunaraðferða, en verkefnið er styrkt um 11,7 milljónir danskra króna (um 217 millj. ísl. kr.) af danska nýsköpunarsjóðnum. Heildarkostnaður er áætlaður 17 milljónir DKK (um 315 millj. ísl. kr.).
(Sjá frétt vefmiðilsins Økologisk 6. september).

Eldfim á í Ástralíu!

australiaSvo mikið metangas streymir nú inn í Condamine ána í Queensland í Ástralíu að hægt er að kveikja í ánni. Á þessu svæði er mikið af jarðgasi unnið með bergbroti (e. fracking) en ástralski græningjaflokkurinn hefur beitt sér fyrir því að slík starfsemi verði bönnuð í landinu. Formaður flokksins bar sjálfur eld að ánni til að ganga úr skugga um gasinnihaldið. Eldurinn logaði í klukkutíma samfellt.
(Sjá frétt ENN 23. apríl).

67% af almenningssamgöngum í Svíþjóð knúin með endurnýjanlegu eldsneyti

BiodieselhybriderHlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í almenningssamgöngum í Svíþjóð er komið í 67% en árið 2006 var þetta hlutfall aðeins 6%. Á síðasta ári var hlutfallið 58%. Þá var Stokkhólmslén sá landshluti þar sem hlutfallið var hæst, en árið 2014 voru 85,7% af öllum kílómetrum í almenningssamgöngum á því svæði eknir á endurnýjanlegu eldsneyti. Lífdísill er langmest notaða endurnýjanlega eldsneytið, metan af endurnýjanlegum uppruna (lífgas) er víðast hvar í öðru sæti og í Stokkhólmi og víðar er einnig nokkuð notað af etanóli (ED95).
(Sjá frétt í Bussmagasinet í gær).

Veitingahús í París breyta leifum í lífgas

71056Um 80 veitingahús í París hafa tekið höndum saman um að vinna metan og jarðvegsbæti úr tilfallandi matarleifum. Metanið verður brennt til raforkuframleiðslu og til upphitunar, en bændur í nágrenninu njóta góðs af jarðvegsbætinum. Með þessu eru veitingahúsin m.a. að bregðast við stigvaxandi lagakröfum um endurvinnslu lífræns úrgangs. Frá og með þessu ári nær endurvinnsluskyldan til fyrirtækja þar sem meira en 40 tonn af lífrænum  úrgangi falla til á ári, en árið 2016 lækka þessi mörk niður í 10 tonn. Þar með munu lögin ná til veitingahúsa sem selja um og yfir 150 skammta á dag, en í þann flokk fellur um fimmtungur af öllum matsölustöðum Frakklands. Þeir sem ekki hlýða lögunum geta átt von á sektum allt að 75.000 evrum (hátt í 12 milljónir ísl. kr).
(Sjá frétt PlanetArk 13. febrúar).