Í síðustu viku samþykkti franska þingið einróma að skylda allar matvöruverslarnir í Frakklandi (stærri en 400 fermetrar) að gefa góðgerðarsamtökum þann mat sem verður afgangs í verslununum. Lög um þetta taka gildi í júlí 2016, en með þeim vill þingið sporna gegn matarsóun og draga úr fátækt í landinu. Ruslurum hefur fjölgað mjög í Frakklandi síðustu ár og hafa verslanir brugðist við með því að hella klóri í ruslagáma eða geyma gámana í læstum skemmum. Mikið af matarúrgangi fellur til í verslunum vegna „best-fyrir“ merkinga og því er ferskum matvælum iðulega hent í umbúðunum. Verslunum sem ekki ganga frá samningum við góðgerðarfélög fyrir gildistöku laganna verður refsað með sektum og fangelsisdómum. Frjáls félagasamtök hafa gagnrýnt löggjöfina þar sem þar sé lögð áhersla á úrgangsmeðhöndlun í stað þess að vekja athygli á offramleiðslu í matvælaiðnaðinum. Samtök verslunarmanna benda hins vegar á að aðeins um 11% af matarsóun í Frakklandi megi rekja til verslana en allt að 67% til neytenda og því ættu stjórnvöld að einblína á matarsóun á heimilum.
(Sjá frétt the Guardian 22. maí).
Greinasafn fyrir merki: fátækt
Síðasta kynslóðin sem getur spornað gegn loftslagsbreytingunum
„Kynslóðin okkar er sú fyrsta sem getur útrýmt fátækt og sú síðasta sem getur tekið skref til að komast hjá verstu afleiðingum loftslagsbreytinga“.
(Ban Ki-moon í grein í the Guardian 12. janúar).
Fyrsta „samfélagsbúðin“ opnuð í London
Í vikunni var fyrsta „samfélagsbúðin“ opnuð í London, en þar er um að ræða verslun sem selur afgangsmat frá verslunum og heildsölum með 70% afslætti til fólks sem ekki á til hnífs og skeiðar og er háð fjárhagsaðstoð. Verkefnið hefur verið nefnt Community Shop en að því standa nokkrar matvælakeðjur, m.a. með stuðningi Boris Johnson, borgarstjóra í London. Tilgangurinn er að draga úr matarsóun í birgjakeðjunni og aðstoða fólk sem býr við fátæktarmörk. Einstaklingar sem uppfylla tiltekin skilyrði geta skráð sig í verkefnið og öðlast þannig rétt til að kaupa í matinn í verslunum þess. Verkefnið er sérstaklega ætlað fólki í atvinnuleit á meðan það kemur undir sig fótunum og er stefnt að því að opna 20 slíkar verslanir á Bretlandi á næstu árum. Talið er að um 3,5 milljónum tonna af mat sé hent árlega í Bretlandi áður en hann kemst í innkaupakörfur neytenda. Ástæður þessa má oftast rekja til rangra merkinga eða skemmdra umbúða.
(Sjá frétt EDIE 16. desember).