Um 80 veitingahús í París hafa tekið höndum saman um að vinna metan og jarðvegsbæti úr tilfallandi matarleifum. Metanið verður brennt til raforkuframleiðslu og til upphitunar, en bændur í nágrenninu njóta góðs af jarðvegsbætinum. Með þessu eru veitingahúsin m.a. að bregðast við stigvaxandi lagakröfum um endurvinnslu lífræns úrgangs. Frá og með þessu ári nær endurvinnsluskyldan til fyrirtækja þar sem meira en 40 tonn af lífrænum úrgangi falla til á ári, en árið 2016 lækka þessi mörk niður í 10 tonn. Þar með munu lögin ná til veitingahúsa sem selja um og yfir 150 skammta á dag, en í þann flokk fellur um fimmtungur af öllum matsölustöðum Frakklands. Þeir sem ekki hlýða lögunum geta átt von á sektum allt að 75.000 evrum (hátt í 12 milljónir ísl. kr).
(Sjá frétt PlanetArk 13. febrúar).