Ódýrt að koma í veg fyrir heimsfaraldra

Kostnaðurinn við að koma í veg fyrir nýja heimsfaraldra er aðeins örlítið brot af kostnaðinum sem fylgir slíkum faraldri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IPBES (Milliríkjanefndar um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa). Samkvæmt skýrslunni eru að öllum líkindum til meira en 500.000 veirutegundir í dýrum sem gætu valdið sjúkdómum í mönnum. Ef ekkert verði að gert muni heimsfaraldrar af völdum slíkra veira verða tíðari í náinni framtíð, dreifast hraðar, valda meira tjóni og orsaka fleiri dauðsföll en Covid-19. Ráðast þurfi að rót vandans með því að hætta að eyða skógum til að rýma fyrir framleiðslu á kjöti, pálmaolíu, málmum og öðru slíku fyrir ríkustu þjóðir heims. Þetta kalli á alþjóðlegt eftirlit, skattlagningu og endalok ríkisstuðnings við framkvæmdir sem skerða villta náttúru.
(Sjá frétt The Guardian 29. október).

Græn útileiksvæði styrkja ónæmiskerfið

Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).

Fáheyrður fugladauði í Bandaríkjunum

Þúsundir farfugla hafa fallið dauðir af himnum ofan í suðvesturríkjum Bandaríkjanna síðustu daga. Líklegt þykir að þetta tengist afbrigðilegu tíðarfari vegna loftslagsbreytinga, m.a. langvarandi þurrkum á mikilvægum viðkomustöðum fuglanna á leið sinni norðan frá Kanada og Alaska til suðlægari slóða. Þar hefur því e.t.v. ekki verið hægt að ná í þá fæðu sem fuglarnir þurfa til að ljúka flugferðinni. Þá kunna gróðureldar í Kaliforníu að hafa neytt þá til að breyta flugleiðinni, auk þess sem breyttar aðstæður vegna loftslagsbreytinga í sumarhögunum gætu hafa leitt til þess að ekki náðist að safna nægum forða fyrir flugið. Skammvinnt kuldakast þar norður frá gæti einnig hafa orðið til þess að fuglarnir lögðu fyrr af stað en ella, án þess að vera nægjanlega undir ferðalagið búnir. Flest þykir sem sagt benda til að fuglarnir hafi drepist úr hungri á fluginu, en reykur frá gróðureldum kann einnig að hafa haft áhrif. Fugladauði af þessu tagi er ekki alveg óþekktur, en umfangið virðist með allra mesta móti.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Ónæmiskerfið þróast hægar en loftslagið

Vísindamenn við Háskólann í Lundi hafa fyrstir manna sýnt fram á tengsl milli ónæmiskerfis í fuglum og loftslagsins sem þeir lifa í. Fuglar sem ala allan sinn aldur í hitabeltislöndum með mikla úrkomu hafa fleiri ónæmiserfðavísa en fuglar á norðlægari og þurrari slóðum og ráða þess vegna við fleiri sjúdóma. Farfuglar líkjast evrópskum staðfuglum hvað þetta varðar og hafa tiltölulega fáa ónæmiserfðavísa, enda geta þeir í raun flúið sjúkdóma. Ónæmiserfðavísar allra hryggdýra eru sambærilegir og því draga vísindamennirnar þá ályktun af rannsókninni að þegar hitastig hækkar og úrkoma eykst vegna loftslagsbreytinga, komist ýmis dýr í tæri við sjúkdóma sem þau ráða ekki við. Ónæmiskerfið hafi þróast á milljónum ára og breytingar á því gangi miklu hægar fyrir sig en loftslagsbreytingarnar.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Hrun í fiskistofnum vegna skordýraeiturs

Fiskistofnar í japönskum vötnum hrundu á mjög skömmum tíma eftir að bændur í nágrenninu fóru að nota skordýraeitur sem innihélt neónikótínoíð. Þetta kemur fram í grein í tímaritinu Science, þar sem skoðuð voru gögn frá Shinji-vatninu í Japan fyrir og eftir upphaf neónikótínoíðnotkunar á svæðinu. Veiði á vatnaloðnu minnkaði um 90% á nokkrum árum eftir að eiturnotkunin hófst, en hafði áður verið stöðug áratugum saman. Á sama tíma minnkaði álaveiði um 74%. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem neónikótínoíð er tengt við fiskidauða, en fyrri rannsóknir hafa bent til tengsla eitursins við dauða ferskvatnsskordýra, snigla og fugla sem lifa á skordýrum í landbúnaðarhéruðum. Einnig hefur verið sýnt fram á neikvæð áhrif eitursins á ratvísi farfugla. Áhrif á fiska koma þó ekki á óvart þar sem ýmsir ferskvatnsfiskar lifa á smádýrum sem eitrið drepur. Reyndar spáði Rachel Carson fyrir um þessi tengsl í bók sinni Silent Spring árið 1962.
(Sjá frétt The Guardian 31. október).

Örplast heftir vöxt ánamaðka

Örplast í jarðvegi heftir vöxt ánamaðka og leiðir þannig líklega til minni framleiðni viðkomandi vistkerfis. Þetta kemur fram í rannsókn breskra vísindamanna sem birt verður í tímaritinu Environmental Science & Technology. Í rannsókninni var borinn saman vaxtarhraði ánamaðka sem lifðu í mold sem innihélt örplast (HDPE-agnir) og orma sem lifðu í mold án plastagna. Þar sem örplastið var til staðar léttust maðkarnir að meðaltali um 3,1% á 30 daga tímabili, en hinir maðkarnir þyngdust að meðaltali um 5,1% á sama tíma. Ekki er fullljóst hvernig örplastið hefur þessi áhrif en höfundar rannsóknarinnar telja líklegt að plastið trufli upptöku næringarefna í meltingarvegi og leiði þannig til þyngdartaps. Leiða má að því getum að þetta hafi keðjuverkandi áhrif í vistkerfinu, þar sem maðkarnir gegna mikilvægu hlutverki í niðurbroti lífrænna efna og í loftun jarðvegs.
(Sjá frétt Science Daily 11. september).

Örplast safnast upp í sandi á strandsvæðum

Örplast virðist safnast upp á sandströndum, ekki bara á yfirborðinu heldur líka á nokkru dýpi. Þetta kom fram í rannsóknum vísindamanna frá Háskólanum í Exeter á magni örplasts á tiltölulega afskekktum sandströndum á Kýpur. Þar fundust um 130.000 örplastagnir í hverjum rúmmetra sands á yfirborðinu og um 5.300 agnir í hverjum rúmmetra á 60 cm dýpi. Hærri talan er sú næsthæsta sem mælst hefur á strandsvæði. Örplastið getur breytt eðlisfræðilegum eiginleikum sandsins, þ.á.m. hitastigi, sem aftur getur truflað klak skjaldbökueggja sem mikið er af á þessu svæði. M.a. getur þetta hugsanlega skekkt kynhlutfall unganna, en þekkt er að hlutfallslega fleiri kvendýr koma úr eggjum þar sem sandurinn er heitari. Talið er að mest af örplastinu á ströndum Kýpur hafi komið frá fastalandinu við austanvert Miðjarðarhaf.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Exeter 26. september).

Engin kalkvinnsla í Ojnareskógi

Umhverfisyfirréttur Svíþjóðar (Mark- och miljööverdomstolen) hefur úrskurðað að óheimilt sé að opna kalknámu í Ojnareskógi á Gotlandi, þar sem svæðið njóti verndar sem Natura 2000-svæði. Fyrirtækin Nordkalk og SMA Mineral fengu leyfi til kalkvinnslu á svæðinu árið 2014 en leyfisveitingin var kærð til dómstólsins. Natura 2000-svæðið sem um ræðir var stækkað eftir 2014 en samkvæmt úrskurði dómstólsins ber að taka tillit til áhrifa kalkvinnslunnar á hið stækkaða svæði, þó að vinnsluleyfi hafi verið veitt fyrir stækkun, enda hafi stækkunin verið staðfest fyrir dómi. Kalkvinnslan myndi spilla þessu svæði og því skuli hún óheimil. Fyrirtækin sem í hlut eiga geta áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar (Högsta domstolen) en ólíklegt þykir að Hæstiréttur hnekki úrskurðinum, þar sem hann fjallar um flókin vatnafræðileg og náttúruvísindaleg viðfangsefni sem Hæstiréttur mun tæplega taka til skoðunar. Úrskurðurinn þykir mikill sigur fyrir heimamenn og aðra sem lengi hafa barist gegn umræddri kalkvinnslu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).

Carlsberg sparar 1.200 tonn af plasti á ári með límdum dósum

Bjórframleiðandinn Carlsberg hóf í vikunni framleiðslu á nýjum sexum (e. sixpacks) þar sem bjórdósirnar eru límdar saman á hliðunum með sérhönnuðum límpunktum í stað þess að hanga saman í plastbelti. Með þessu móti vonast Carlsberg til að geta dregið úr plastnotkun um 1.200 tonn á ári, auk þess sem lífríkinu stafar ekki hætta af umbúðunum, framleiðslan verður minna háð jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda minnkar. Þessi nýjung, sem nefnist „Snap Pack“ á ensku, er hluti af stóru sjálfbærniverkefni Carlsberg undir yfirskriftinni „Náum núlli saman“ (e. Together Towards Zero). Nýja sexan kemur fyrst á markað í Bretlandi (og í Noregi) en mun síðan breiðast út um önnur markaðssvæði Carlsberg.
(Sjá frétt Packaging Europe í gær).

Landbætur hægja á hlýnun

Hægt er að hægja á hlýnun loftslags af mannavöldum með einföldum og vel þekktum aðferðum til að auka gæði jarðvegs á landi sem nýtt er til landbúnaðar. Þetta kemur fram í nýrri amerískri rannsókn sem sagt er frá í netútgáfu Science Advances. Með sáningu þekjuplantna, aukinni ræktun belgjurta, beitarstýringu, minni plægingum o.fl. mætti þannig sporna gegn hlýnun sem samsvarar um 0,1°C fram til ársins 2100. Þessi tala virðist e.t.v. ekki há en skiptir þó verulegu máli í heildarsamhenginu. Allar þessar aðferðir eru til þess fallnar að hækka kolefnisinnihald jarðvegsins og um leið verður jarðvegurinn vatnsheldnari, síður viðkvæmur fyrir rofi og frjósamari, sem þýðir að uppskera eykst.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Berkely 29. ágúst).