Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Greinasafn fyrir merki: Ástralía
Suður-Ástralía keyrð á 100% sólarorku í fyrsta sinn
Síðastliðinn sunnudag var öll raforka sem notuð var í Suður-Ástralíu framleidd með sólarorku og hægt var að selja umframorku til Viktoríufylkis. Suður-Ástralía hefur verið leiðandi í nýtingu sólarorku, en þetta er í fyrsta sinn sem framleiðslan dugar til að sjá öllu fylkinu fyrir orku í heilan dag. Suður-Ástralía hefur einnig verið leiðandi í þróun rafgeyma sem taka við orku þegar framboð er meira en eftirspurn og gefa hana frá sér aftur þegar dæmið snýst við.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
5% samdráttur í vínframleiðslu vegna loftslagsbreytinga
Gera má ráð fyrir að vínframleiðsla í heiminum verði 5% minni á þessu ári en hún var í fyrra. Ástæðan eru loftslagsbreytingar sem hafa leikið vínbændur grátt, einkum í Suður-Ameríku. Alþjóðasamtök vínræktenda (OIV) hafa reiknað út að heildarframleiðsla ársins verði 259,5 milljónir hektólítra, sem gerir árið 2016 af einu lakasta vínræktarári síðustu tveggja áratuga. Gert er ráð fyrir 35% samdrætti í Argentínu, 21% í Síle, 19% í Suður-Afríku og 12% í Frakklandi. Hins vegar er gert ráð fyrir 5% aukningu í Ástralíu og 35% aukningu á Nýja-Sjálandi. Ítalía stefnir í að verða mesta vínræktarland ársins.
(Lesið frétt The Guardian í gær).
Eldfim á í Ástralíu!
Svo mikið metangas streymir nú inn í Condamine ána í Queensland í Ástralíu að hægt er að kveikja í ánni. Á þessu svæði er mikið af jarðgasi unnið með bergbroti (e. fracking) en ástralski græningjaflokkurinn hefur beitt sér fyrir því að slík starfsemi verði bönnuð í landinu. Formaður flokksins bar sjálfur eld að ánni til að ganga úr skugga um gasinnihaldið. Eldurinn logaði í klukkutíma samfellt.
(Sjá frétt ENN 23. apríl).
Ný heimasíða sýnir áhrif hækkandi yfirborðs sjávar
Samtökin Coastal Risk Australia hafa búið til heimasíðu með hjálp Google Maps þar sem notast er við reiknilíkön fyrir breytingar á yfirborði sjávar til ársins 2100 til að sýna hvaða hús og hverfi muni fara undir sjó vegna loftslagsbreytinga. Einstaklingar og fyrirtæki í Ástralíu geta slegið inn heimilisfangið sitt og séð hvaða áhrif loftslagsbreytingar muni hafa á húsin þeirra og þannig áætlað breytingar á fasteignaverði og tryggingariðgjöldum. Byggt er á gögnum frá Vísindanefnd SÞ um loftslagsbreytingar (IPCC), en af þeim má ráða að margar frægustu strandir Ástralíu hverfi fyrir næstu aldamót. Einn af aðstandendum síðunnar segir að markmið síðunnar sé ekki að ýta undir móðursýki heldur að reyna að fá fólk til að hætta að stinga höfðinu í sandinn.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Koltvísýringur ruglar fiska í ríminu
Hækkandi styrkur koltvísýrings í heimshöfunum getur ruglað fiska í ríminu og skert ratvísi þeirra. Þetta samhengi hefur verið þekkt um hríð, en nýjar rannsóknir vísindamanna við Háskólann í Nýja Suður-Wales í Ástralíu (UNSW) benda til að þetta geti gerst mun fyrr en áður var talið. Þannig gætu fiskar á tilteknum hafsvæðum, þ.m.t. í Norður-Atlantshafi, verið komnir í annarlegt ástand vegna koltvísýringshækkunar um miðja þessa öld. Um næstu aldamót gæti um helmingur allra dýra í heimshöfunum verið orðinn ringlaður af þessum sökum. Þessar breytingar munu hafa víðtæk áhrif á lífríki og hagkerfi ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
Ástralía stendur sig verst!
Ástralía stendur sig verst iðnríkja í að sporna við loftslagsbreytingum samkvæmt nýrri skýrslu sem gefin var út í tengslum við loftslagsráðstefnuna í Lima. Höfundar skýrslunnar segja ástæðuna fyrir slæmri einkunn Ástrala vera að nýja íhaldsstjórnin hafi dregið til baka þær aðgerðir í loftslagsmálum sem samþykktar voru af fyrri ríkisstjórn. Með þessu hefur Ástralía tekið við af Kanada sem það iðnríki sem stendur sig verst, en Ástralía er jafnframt í næstneðsta sæti af öllum ríkjum heims, þar sem Sádi-Arabía vermir botnsætið. Í skýrslunni er Dönum hrósað fyrir gott starf í loftslagsmálum en þeir eru taldir standa sig best allra ríkja. Svíar eru þar í öðru sæti og Bretar í því þriðja.
(Sjá frétt EDIE 9. desember).
Nýtni í sólarsellum komin í 40%
Vísindamenn við Háskólann í Nýja Suður-Wales í Ástralíu hafa hannað sólarsellur með rúmlega 40% nýtni, en hingað til hefur hámarksnýtni í sólarorkuframleiðslu verið um 25-30%. Tæknin byggir á notkun á sérstökum síum sem festar eru á turna í sólarorkuverum, en síurnar fanga ljós af tiltekinni bylgjulengd sem venjulegar sólarsellur ná ekki að nýta. Með þessari nýjung í framleiðslu raforku úr sólarorku er nýtnin orðin tvöföld á við það sem var þegar fyrstu sólarsellurnar voru framleiddar árið 1989.
(Sjá frétt Science Daily 7. desember).
Útprentanlegar sólarrafhlöður vekja athygli
Ástralskir vísindamenn hafa þróað „sólarblek“ sem breytir sólarljósi í raforku. Þeir segja stórfyrirtæki hafa mikinn áhuga á tækninni og telja stutt í að hægt verði að hefja framleiðslu. Sólarblekið er prentað á sveigjanleg efni (t.d. plast) sem hægt er að setja upp hvar sem er til að fanga sólarorkuna. Til dæmis væri hægt að hlaða snjallsíma og spjaldtölvur með því að líma slíka filmu á tækin, en einnig væri hægt að líma filmur á glugga og aðra stóra fleti til að framleiða meiri raforku. Sólarblekið er ódýrt í framleiðslu, en orkunýtnin er enn sem komið er aðeins 1/10 af því sem gerist í hefðbundnum sólarrafhlöðum. Vísindamennirnir telja að í framtíðinni muni nýtnin aukast og notkunarmöguleikar bleksins þar með.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Jarðvegstippur við kóralrifið mikla
Stjórnvöld í Ástralíu hafa leyft að þremur milljónum rúmmetra af aur verði sturtað í hafið innan marka þjóðgarðsins sem umlykur kóralrifið mikla. Þetta er gert til að liðka til fyrir hafnarframkvæmdum við Abbot Point þar sem verið er að byggja stærstu kolaútskipunarhöfn í heimi, en þær framkvæmdir tengjast áformaðri kolavinnslu úr Galilee lægðinni í Queensland. Umhverfisverndarsinnar, vísindamenn og ferðaþjónustuaðilar hafa barist gegn þessari losun jarðefna í hafið, bæði vegna þeirra beinu áhrifa sem losunin kann að hafa á kóralrifin og vegna fyrirsjáanlega aukinnar skipaumferðar um svæðið. Þessir aðilar óttast jafnvel að rifin verði tekin af heimsminjaskrá UNESCO. Stjórnvöld hafa bent á það á móti að meira rask myndi fylgja öðrum hafnarframkvæmdum, að botninn á þessu svæði einkennist hvort sem er af sandi, seti og leir og að losunarstaðurinn sé ekki svo ýkja nálægt kóralrifunum, jafnvel þótt hann sé innan marka verndarsvæðisins.
(Sjá frétt The Telegraph í dag).