Fjöldamálsóknir vegna Roundup undirbúnar vestra

73776Lögfræðistofur víða um Bandaríkin safna nú liði fyrir fjöldamálsóknir gegn efnavörurisanum Monsanto á þeim forsendum að plöntueitrið Roundup sem fyrirtækið framleiðir hafi valdið krabbameini í sækjendum, þ.á.m. non-Hodgkin eitlafrumukrabba (NHL). Ætlunin er að sýna fram á það fyrir dómi að Monsanto hafi ranglega haldið því fram að virka efnið í Roundup (glýfosat) væri skaðlaust, þó að fyrirtækinu hafi þá þegar verið ljóst að það gæti valdið krabbameini. Málaferlin koma í kjölfar yfirlýsingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í marsmánuði síðastliðnum um að glýfosat væri líklegur krabbameinsvaldur. Roundup er notað um allan heim í landbúnaði og garðrækt og hefur skapað Monsanto tekjur upp á 4,8 milljarða dollara (um 600 milljarða ísl. kr.) á síðustu 12 mánuðum. Um þessar mundir stendur Monsanto einnig frammi fyrir a.m.k. 700 málsóknum vegna ásakana um að PCB sem fyrirtækið framleiddi á sínum tíma hafi valdið non-Hodgkin eitlafrumukrabbameini.
(Sjá frétt PlanetArk 16. október).

Frakkar hafna erfðabreyttri ræktun

73656 (160x107)Frönsk stjórnvöld ætla að nýta sér höfnunarkerfi Evrópusambandsins (ESB) til að viðhalda banni við ræktun á erfðabreyttum plöntum í landinu. Höfnunarkerfið, sem samþykkt var í mars, heimilar einstökum aðildarríkjum ESB að sækja um undanþágu frá öllum samþykktum sem heimila ræktun erfðabreyttra plantna í löndum sambandsins. Erfðabreytta maísafbrigðið MON810 frá Monsanto hefur hingað til verið eina erfðabreytta plantan sem ræktuð er í Evrópu, nánar tiltekið á Spáni og í Portúgal, en umsóknir um leyfi til ræktunar fleiri afbrigða bíða nú afgreiðslu hjá ESB. Þar á meðal er skordýraþolinn maís frá DuPont Pioneer og Dow Chemical, sem gengur undir nafninu 1507. Frakkar eru stærstu framleiðendur og útflytjendur korns í Evrópu, en Þjóðverjar hafa einnig ákveðið að beita höfnunarákvæðinu. Sama gildir m.a. um Letta og Grikki.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Roundup skilgreint sem krabbameinsvaldur

roundup_tv2_160Vinnueftirlit Danmerkur hefur sett hinn vinsæla illgresiseyði Roundup á lista yfir krabbameinsvaldandi efni í framhaldi af útkomu skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) þar sem fram kemur að glýfosat, virka efnið í Roundup, geti valdið eitlakrabbameini. Um leið og efni hefur verið skilgreint sem krabbameinsvaldur aukast varúðarkröfur við notkun þess. Roundup er mest notaði illgresiseyðir í heimi og í Danmörku voru notuð 1.389 tonn af efninu árið 2013 í landbúnaði og við umhirðu garða. Eitlakrabbameinstilfellum hefur fjölgað verulega þarlendis síðustu áratugi og nú greinast rúmlega 1.000 Danir með sjúkdóminn árlega. Notkun Roundup hefur nú þegar verið bönnuð á Sri Lanka og í Kólumbíu og í Argentínu berjast læknar fyrir notkunarbanni. Philippe Grandjean, prófessor í umhverfislyfjafræði við Háskóla Suður-Danmerkur (Syddansk Universitet), segir nauðsynlegt að draga úr notkun efnisins. Jafnframt verði þó að vera á varðbergi gagnvart því að enn hættulegri efni verði ekki tekin í notkun í staðinn.
(Sjá frétt TV2 28. maí).

Mikið glýfosat í brjóstamjólk

UntitledStyrkur illgresiseyðisins glýfosats í brjóstamjólk bandarískra kvenna er allt að 1.000 sinnum hærri en leyfilegur styrkur efnisins í drykkjarvatni innan Evrópusambandsins, að því er fram kemur í rannsókn sem bandarísku samtökin Moms Across America og Sustainable Pulse stóðu nýlega fyrir. Það að svo mikið af glýfosati mælist í mjólkinni bendir til að efnið safnist upp í líkamanum, en hingað til hefur því verið neitað bæði af eftirlitsyfirvöldum og líftæknigeiranum. Illgresiseyðar sem innihalda glýsofat eru þeir mest seldu í Bandaríkjunum, en þar má meðal annars nefna „Roundup“ sem framleitt er af Monsanto. Í rannsókninni voru einnig tekin sýni úr drykkjarvatni sem sýndu mun hærri styrk glýfosats en í Evrópu. Samtökin sem stóðu að rannsókninni vilja að notkun glýfosats á nytjaplöntur verði hætt.
(Sjá frétt ENN í dag).