Vilja banna glimmer

Breskir vísindamenn hafa kallað eftir banni við sölu á glimmer, þar sem það sé oftar en ekki gert úr plasti og hafi því sömu neikvæðu áhrif á umhverfið og annað örplast. Talið er að nú þegar fljóti allt að 51 þúsund milljarðar örplastagna um heimshöfin. Áhrif þessarar mengunar á lífríkið og þar með á heilsu manna eru ekki fullljós, en þau kunna að verða víðtæk og alvarleg þegar fram í sækir. Frá og með næsta ári verður bannað að bæta örplasti í snyrtivörur sem framleiddar eru í Bretlandi en ekki hafa verið settar sérstakar skorður hvað glimmer varðar. Glimmer er reyndar ekki allt framleitt úr plasti, heldur einnig úr áli. Sömuleiðis er hægt að framleiða glimmer úr umhverfisvænni efnum sem brotna auðveldlega niður í náttúrunni.
(Sjá frétt Independent 16. nóvember).

Sjö flíkur í ruslið frá hverjum Breta

Hver einasti íbúi Bretlands mun senda 7 flíkur í urðun í vor í framhaldi af árlegri tiltekt í þarlendum fataskápum, að því er fram kemur í könnun sem gerð var með stuðningi Sainsbury’s verslunarkeðjunnar. Samtals munu 680 milljón stykki yfirgefa breska fataskápa þetta vorið, þ.e. 19 stykki á mann, og þar af fara væntanlega 235 milljón stykki í ruslatunnuna og þaðan í urðun. Öll þessi föt væri hægt að endurnota eða endurvinna en helsta ástæða þess að þeim er hent engu að síður er að fólk gerir sér ekki grein fyrir að jafnvel ónýt föt nýtist hjálparstofnunum til fjáröflunar. Þegar fólk var spurt um ástæður þess að það hendi fötum í ruslið í stað þess að gefa þau til hjálparsamtaka, svöruðu 49% að þau vissu ekki að ónýt föt kæmu þessum samtökum að gagni, 16% sögðust ekki hafa tíma til að fara með fötin á þar til gerða móttökustaði og 6% vissu ekki að hægt væri að endurvinna textílvörur.
(Sjá frétt The Guardian 6. apríl).

Lasermerki í stað límmiða á ávexti og grænmeti

3072-160Sænska matvörukeðjan ICA setti nýverið í gang tilraun til að merkja staka ávexti og grænmeti í verslunum sínum með lasertækni í stað límmiða. Tæknin virkar þannig að lasergeisli eyðir litarefni í hýði ávaxtarins eða grænmetisins og þannig verður til varanleg merking án þess að það hafi önnur áhrif á vöruna. Hægt er að spara mikið af umbúðum með því að selja ávexti og grænmeti í lausu, en þá þarf að merkja hvern ávöxt um sig til að uppfylla kröfur, m.a. um rekjanleika lífrænnar vöru. Límmiðarnir sem þessi nýja tækni getur leyst af hólmi eru ekki stórir en með þessari aðferð sparast engu að síður mikið af plasti, lími og bleki þegar á heildina er litið. Að sögn talsmanns ICA sparast t.d. 200 km af 30 cm breiðri plastræmu á ári við það eitt að merkja öll lífrænt vottuð avókadó í verslunum keðjunnar á þennan hátt. Aðilar á matvörumarkaði í Hollandi og Bretlandi eru einnig að þreifa sig áfram með þessa notkun lasertækninnar, sem nefnd hefur verið „natural branding“.
(Sjá frétt The Guardian 16. janúar).

Matarsóun fer heldur vaxandi

6048-160x96Á árinu 2015 var 4,4 milljónum tonna af ætilegum matvörum hent á breskum heimilum samkvæmt nýjum tölum frá WRAP (Waste and Resources Action Programme). Árið 2012 var þessi tala 4,2 milljónir tonna, sem þýðir að lítið hefur áunnist á allra síðustu árum þrátt fyrir margs konar viðleitni til að bæta úr. Á árunum 2007-2012 minnkaði þessi sóun hins vegar um 21%. Matarsóunin 2015 jafngildir því að hvert breskt heimili hafi hent ætilegum mat fyrir 470 sterlingspund (rúmlega 65 þús. ísl. kr.). Þegar horft er á allan lífsferill matvörunnar sluppu samtals um 19 milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið vegna þessarar sóunar, en það jafngildir um fjórðungi allrar losunar frá bílaumferð í Bretlandi. Athygli vekur að árangur í viðleitninni til að draga úr matarsóun er svæðisbundinn. Þannig hefur dregið töluvert úr matarsóun í Wales á sama tíma og stöðnun hefur orðið á öðrum landssvæðum. Þarna kann að skipta máli hvaða aðferðum er beitt.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

RBS dregur verulega úr „svörtum fjárfestingum“

3500Á síðasta ári dró Royal Bank of Scotland úr fjárfestingum í olíu- og gasvinnslufyrirtækjum um 70% og tvöfaldaði á sama tíma lán til uppbyggingar í endurnýjanlegri orku. Bankinn hefur hingað til verið ein helsta uppspretta fjármagns til leitar og vinnslu jarðefnaeldsneytis en félagasamtök sem berjast gegn loftslagsbreytingum hafa beitt miklum þrýstingi til að knýja fram breyttar áherslur. Þessi stefnubreyting bankans hefur einkum áhrif á fyrirtæki í Norður-Ameríku og Asíu en bankinn mun m.a. hætta öllum viðskiptum við fyrirtæki í Kanada sem vinna olíu úr olíusandi. Sú þróun að bankar og aðrar stofnanir dragi úr svörtum fjárfestingum tengist vissulega einnig lækkandi olíuverði og þ.a.l. verri stöðu fyrirtækja í olíu- og gasvinnslu. Óvíst er hvernig þessir aðilar munu bregðist við ef markaðurinn styrkist á næstu misserum.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).

Meira en 1.000 mengunarsíulausir díselbílar í Bretlandi

2464Frá því á árinu 2014 hafa bifreiðaskoðunarstöðvar í Bretlandi fundið meira en 1.000 díselbíla sem ekki eru með lögbundnar mengunarsíur. Síðan 2009 hafa mengunarsíur verið lögbundnar í nýjum díselbílum til að draga úr svifryksmengun í útblæstri. Síurnar eiga það hins vegar til að stíflast með tilheyrandi vandræðum og því hafa margir bíleigendur brugðið á það ráð að borga verkstæðum fyrir að fjarlægja síurnar. Sum verkstæði bjóða einnig upp á þá þjónustu að fjarlægja hluta af síunni þannig hún verði óvirk og stíflist ekki. Þessi breyting sést ekki við hefðbundna bifreiðaskoðun og telur Samgöngustofa Bretlands líklegt að tugir eða hundruð þúsunda bíla aki nú um með gagnslausar síur. Samkvæmt breskri löggjöf er ekki ólöglegt að fjarlægja síur en akstur síulausra bíla er ólöglegur. Áætlað er að árlega deyi um 29.000 manns í Bretlandi fyrir aldur fram úr sjúkdómum sem rekja má til svifryksmengunar. Þarlend yfirvöld hafa því miklar áhyggjur af áhrifum ólöghlýðni bíleigenda á lýðheilsu.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).

Gjald á plastpoka hefur margvísleg áhrif

4928Fimm pensa gjald (um 9 ísl. kr.) sem lagt var á plastpoka í breskum verslunum fyrir hálfu ári hefur haft margvísleg áhrif að því er fram kemur í nýrri samantekt The Guardian:
1. Plastpokanotkun í Bretlandi hefur dregist saman um 80% frá því að gjaldið var tekið upp.
2. Góðgerðarfélög í Bretlandi hafa hagnast mikið á gjaldinu.
3. Gjaldið hefur ekki haft áhrif á fjölda þjófnaða í verslunum.
4. Gjaldið hefur í einhverjum tilfellum leitt af sér slæma hegðun viðskiptavina svo sem stuld á kerrum, pokaþjófnað og að viðskiptavinir sniðgangi verslanir sem innheimta gjaldið.
5. Smásalar hafa fundið leiðir til að sleppa við gjaldið (sem er lögbundið), m.a. með því að klippa handföng af pokum þannig að þeir falli ekki undir lögin.
6. Ringulreið sem smásalar vöruðu við að verða myndi í kjölfar gjaldtökunnar hefur ekki gert vart við sig.
Sjá frétt the Guardian 6. apríl).

Ósýnileg, útfjólublá strikamerki til að flokka plastúrgang

nextek-prism-containers-1-copy-1024x768Bresk rannsókn á möguleikum þess að nýta flúrmerki á plastvörur til að einfalda flokkun plastúrgangs fékk nýlega 770.000 punda framhaldsstyrk (um 140 milljónir ísl. kr.) frá breskum stjórnvöldum og fleiri aðilum. Verkefnið miðar að því að þróa flúrefni úr málmoxíði og púðri úr gömlum flúrperum, sem hægt er að nota í eins konar „ósýnileg strikamerki“ sem notuð verða á plastvörur. Ef verkefnið heppnast verður hægt að flokka plastfjölliður á einfaldan, ódýran og fljótlegan hátt í flestum flokkunarstöðvum fyrir úrgang og auka þannig verulega efnisendurvinnslu á plasti. Fyrstu tilraunir með merkin gáfu allt að 97% flokkunarhlutfall sem skilaði um 95% hreinleika. Flokkun plasts er nokkuð flókin þar sem mikið er um samsett efni auk þess sem ógerlegt er að greina milli mismunandi fjölliða á einfaldan hátt. Hin nýja tækni er þróuð þannig að hægt verði að bæta henni við innrauða flokkunartækni sem er nú þegar víða notuð í flokkunarstöðvum. Þar með lækkar stofnkostnaðurinn.
Sjá frétt Recycling International í dag).

Stærsti fljótandi sólarorkugarður Evrópu í bígerð

fljotandiVinna við uppsetningu stærsta fljótandi sólarorkugarðs í Evrópu er hafin á uppistöðulóni Queen Elizabeth II stíflunnar á Thames. Alls verður rúmlega 23.000 sólarsellum með samanlagt uppsett afl upp á 6,3 MW komið fyrir á lóninu og munu þær þekja um 10% af yfirborði þess. Garðurinn er í eigu Thames Water sem er veitufyrirtæki í London sem sér um rekstur veitukerfa fyrir neysluvatn og skólp á svæðinu. Fyrirtækið hefur einsett sér að mæta 33% af orkuþörf sinni fyrir árið 2020 með eigin framleiðslu á endurnýjanlegri orku og er uppsetning sólarorkugarðsins liður í þeirri viðleitni. Um leið vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til að uppfylla Parísarsamninginn og draga úr losun.
(Sjá fréttatilkynningu Thames Water 15. febrúar).

Eftirlit með bílaflotanum minnkar losun um 22%

emission cutBreski byggingarverktakinn J.Murphy & Sons hefur dregið úr losun fyrirtækisins um 22% með því að koma fyrir tækjabúnaði í bílaflotanum til að fylgjast með aksturshegðun ökumanna fyrirtækisins. Um 1.900 mælum var komið við í bílaflota fyrirtækisins og skráði búnaðurinn hraða, lausagang og ferðaleiðir. Eftir að mælingartímanum lauk voru niðurstöðurnar teknar saman og kynntar bílstjórum og þeim sýndar leiðir til hagkvæmari og öruggari aksturs. Aukin vitund bílstjóranna um áhrif akstursmynsturs á losun gróðurhúsalofttegunda, bensíneyðslu og öryggi hafði í för með sér þessa stórbættu nýtingu.
(Sjá frétt Planning & Building Control Today 15. febrúar).