Hópur vísindamanna í Kanada hefur sýnt fram á að tepokar úr gerviefnum gefa frá sér gríðarmikið af örplasti þegar þeir eru settir í sjóðheitt vatn. Talning með rafeindasmásjá leiddi í ljós að frá einum slíkum poka bárust u.þ.b. 14,7 milljarðar örplastagna, þar af um 3,1 milljarður nanóplastagna (minni en 100 nanómetrar (nm) í þvermál. (Til samanburðar er þvermál mannshárs um 75.000 nm)). Þessar tölur er mörgþúsund sinnum hærri en áður hefur sést í matvælum. Í tengslum við þetta voru könnuð áhrif mismunandi styrks þessara sömu plastagna á vatnaflær af tegundinni Daphnia magna. Flærnar lifðu tilraunina af en sýndu tiltekin líffærafræðileg og hegðunarleg frávik. Að sögn vísindamannanna þarf meiri rannsóknir til að draga ályktanir um áhrif þessara plastagna á heilsu manna.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 25. september).
Greinasafn fyrir merki: míkróplast
Örplast heftir vöxt ánamaðka
Örplast í jarðvegi heftir vöxt ánamaðka og leiðir þannig líklega til minni framleiðni viðkomandi vistkerfis. Þetta kemur fram í rannsókn breskra vísindamanna sem birt verður í tímaritinu Environmental Science & Technology. Í rannsókninni var borinn saman vaxtarhraði ánamaðka sem lifðu í mold sem innihélt örplast (HDPE-agnir) og orma sem lifðu í mold án plastagna. Þar sem örplastið var til staðar léttust maðkarnir að meðaltali um 3,1% á 30 daga tímabili, en hinir maðkarnir þyngdust að meðaltali um 5,1% á sama tíma. Ekki er fullljóst hvernig örplastið hefur þessi áhrif en höfundar rannsóknarinnar telja líklegt að plastið trufli upptöku næringarefna í meltingarvegi og leiði þannig til þyngdartaps. Leiða má að því getum að þetta hafi keðjuverkandi áhrif í vistkerfinu, þar sem maðkarnir gegna mikilvægu hlutverki í niðurbroti lífrænna efna og í loftun jarðvegs.
(Sjá frétt Science Daily 11. september).
Örplast safnast upp í sandi á strandsvæðum
Örplast virðist safnast upp á sandströndum, ekki bara á yfirborðinu heldur líka á nokkru dýpi. Þetta kom fram í rannsóknum vísindamanna frá Háskólanum í Exeter á magni örplasts á tiltölulega afskekktum sandströndum á Kýpur. Þar fundust um 130.000 örplastagnir í hverjum rúmmetra sands á yfirborðinu og um 5.300 agnir í hverjum rúmmetra á 60 cm dýpi. Hærri talan er sú næsthæsta sem mælst hefur á strandsvæði. Örplastið getur breytt eðlisfræðilegum eiginleikum sandsins, þ.á.m. hitastigi, sem aftur getur truflað klak skjaldbökueggja sem mikið er af á þessu svæði. M.a. getur þetta hugsanlega skekkt kynhlutfall unganna, en þekkt er að hlutfallslega fleiri kvendýr koma úr eggjum þar sem sandurinn er heitari. Talið er að mest af örplastinu á ströndum Kýpur hafi komið frá fastalandinu við austanvert Miðjarðarhaf.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Exeter 26. september).
Nýtt kurl minnkar mengun frá gervigrasi
Sænska fyrirtækið Unisport hefur hafið framleiðslu á kurli úr úrgangi frá vinnslu á sykurreyr. Nýja kurlinu er ætlað að koma í stað dekkjakurls á gervigrasvöllum. Kurlið brotnar niður í náttúrunni og ætti því ekki að leiða til örplastmengunar líkt og þekkt er með dekkjakurlið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 19. september).
Örplast dreifist með moskítóflugum
Örplast sem moskítólirfur innbyrða í vatni er að einhverju marki enn til staðar eftir að lirfan hefur umbreyst í fullvaxna flugu. Dýr sem nærast á lirfum og flugum fá því örplastið í sig og þannig getur það borist upp fæðukeðjuna. Þetta kom fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Biology Letters. Örplast finnst í miklu magni í sjó og vötnum en ekki hefur áður verið sýnt fram á að það geti dreifst loftleiðis með skordýrum.
(Sjá frétt Science-X í dag).
Nýr leiðarvísir um örplast frá gervigrasvöllum
Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).
Örplast verði hreinsað úr frárennsli þvottahúsa
Umhverfis- og matvælaráðuneyti Danmerkur (Miljø- og Fødevareministeriet) hefur veitt styrk úr svonefndri MUDP-áætlun til að þróa aðferð til að hreinsa örplast úr frárennsli þvottahúsa. Verkefnið verður unnið í samvinnu við mottuþvottahúsið Berendsen Textil Service í Karup, en þar eru á hverjum degi þvegin um 50 tonn af gólfmottum úr stofnunum og fyrirtækjum. Samkvæmt skýrslu frá Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) koma um 2% af því örplasti sem fyrirfinnst í dönsku fráveituvatni frá þvottahúsum og í hvert skipti sem mottur eru þvegnar skolast út drjúgir skammtar af örplasti úr ryki, skósólum og úr mottunum sjálfum. Styrkurinn frá MUDP nemur tæplega milljón danskra króna (um 15 millj. ísl. kr.) og standa vonir til að verkefnið leiði af sér aðferð sem dugar til að ná 80% af plastögnunum sem annars myndu skolast út.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. febrúar).
Hægt að minnka plastmengun hafsins um 77% fyrir árið 2025
Með því að fjárfesta í úrbótum í úrgangsmálum fátækari landa væri hægt að minnka verulega það magn af plastúrgangi sem berst í hafið árlega. Árið 2025 gæti magnið verið komið niður í 2,4-6,4 milljónir tonna, sem samsvarar um 77% samdrætti frá því sem nú er. Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nextek sem kynnt var í vikunni. Þar er bent á að enn séu ekki til neinar árangursríkar aðferðir til að hreinsa plast úr hafinu og að því verði að leggja megináherslu á að fyrirbyggja að plastið berist þangað. Skref í þessa átt væri að nota eingöngu endurnýjanlegar umbúðir, enda hafi menn enga afsökun fyrir því að gera það ekki. Þá þurfi ríkari lönd að veita verulegu fé til úrbóta í úrgangsmeðhöndlun í fátækari löndum, en ástandið er einna verst í Kína, Indónesíu, Filippseyjum og Sri Lanka. Þegar skýrslan var kynnt kom fram að plastmengun í hafi væri orðin svo alvarleg að hún þyrfti að vera á dagskrá allra alþjóðlegra funda á borð við fundi G20-ríkjanna, Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
(Sjá frétt Waste Management World í dag).
Örplast mengar jafnvel ystu afkima úthafanna
Örplast finnst jafnvel á afskekktustu svæðum úthafanna. Þetta kom fram þegar sýni voru tekin á 45,5°S í Suður-Indlandshafi á svæði sem er nánast ókannað og ósnortið af athöfnum manna. Þarna reyndust vera 42 örplastagnir í hverjum rúmmetra sjávar, sem er mun meira en gert hafði verið ráð fyrir. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem örplastmælingar eru gerðar á svo afskekktu hafsvæði. Magn örplasts er þó mun meira á fjölfarnari svæðum. Sem dæmi má nefna að 180-307 örplastagnir mælast í hverjum rúmmetra sjávar nálægt ströndum í Norður-Atlantshafi og í Miðjarðarhafi. Talið er að samtals lendi meira en 8 milljón tonn af plasti í hafinu á hverju ári og í raun vita menn lítið um afdrif þess.
(Sjá frétt The Guardian 12. febrúar).
Mikil glimmernotkun á kjötkveðjuhátíðum veldur áhyggjum
Gríðarlegt magn af glimmer er notað í skraut og líkamsmálningu í tengslum við kjötkveðjuhátíðir á borð við þær sem fram fara þessa dagana í Ríó og víðar. Glimmer er að mestu leyti gert úr plastefnum og því stuðlar þessi mikla notkun að vaxandi örplastmengun í hafinu. Sumir skipuleggjendur hafa leitast við að draga úr glimmernotkuninni en aðrir frábiðja sér afskipti af þessari ríku hefð. Hægt er að fá glimmer úr efnum sem brotna niður í náttúrunni, svo sem úr sellulósa úr tröllatré (e. Eucalyptus), vaxi og náttúrulegum olíum. Glimmer af þessu tagi er hins vegar margfalt dýrara en örplastglimmer.
(Sjá frétt The Guardian 11. febrúar).