Stærsti fljótandi sólarorkugarður Evrópu í bígerð

fljotandiVinna við uppsetningu stærsta fljótandi sólarorkugarðs í Evrópu er hafin á uppistöðulóni Queen Elizabeth II stíflunnar á Thames. Alls verður rúmlega 23.000 sólarsellum með samanlagt uppsett afl upp á 6,3 MW komið fyrir á lóninu og munu þær þekja um 10% af yfirborði þess. Garðurinn er í eigu Thames Water sem er veitufyrirtæki í London sem sér um rekstur veitukerfa fyrir neysluvatn og skólp á svæðinu. Fyrirtækið hefur einsett sér að mæta 33% af orkuþörf sinni fyrir árið 2020 með eigin framleiðslu á endurnýjanlegri orku og er uppsetning sólarorkugarðsins liður í þeirri viðleitni. Um leið vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til að uppfylla Parísarsamninginn og draga úr losun.
(Sjá fréttatilkynningu Thames Water 15. febrúar).