Plasthreinsun við strendur dugar best

5200Leggja ætti áherslu á að hreinsa plastrusl úr sjónum við strendur nálægt þéttbýli í stað þess að reyna að veiða plastið upp úr plastflákunum á úthöfunum. Þetta er niðurstaða rannsókna á vegum Imperial College, en samkvæmt þeim væri hægt að minnka magn míkróplasts í hafinu um 31% með því að hreinsa strandsvæði. Árangurinn yrði hins vegar aðeins 17% ef hreinsunin beindist að plasteyjunni í Kyrrahafinu, sem nú er talin vera um tvöfalt stærri en Bretland. Mest af míkróplastinu sem mengar hafið berst af landi og því skilar hreinsun næst landi mestum árangri. Þá er um leið komið í veg fyrir að umrætt plast skaði lífríkið á leið sinni út á höfin, en lífríkið er einmitt mun fjölskrúðugra nær landi. Áætlað er að árlega berist um 5-13 milljónir tonna af plasti í hafið og að ef ekkert verði að gert verði þessi tala komin í 28 milljónir tonna árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

PCB mengun kemur háhyrningsstofni Breta fyrir kattarnef

hvalurAðeins 8 dýr eru eftir í síðustu háhyrningahjörð Breta og er aðeins tímaspursmál hvenær hjörðin líður undir lok, enda hafa engin afkvæmi fæðst undanfarin 19 ár. Ástæðan er talin vera langvarandi PCB-mengun í höfum Vestur-Evrópu, en þrátt fyrir bann við efninu á áttunda áratugnum hefur það fundist í um 1.000 lífsýnum úr höfrungum við Bretlandseyjar á síðustu 20 árum. Magn efnisins í sýnunum er langt yfir viðmiðunarmörkum, en efnið skaðar m.a. ónæmiskerfi og frjósemi dýra. Þar sem PCB er þrávirkt efni og sjávarspendýr oft langlíf getur ótrúlegt magn safnast upp í dýrum sem eru efst í fæðukeðjunni. Þrátt fyrir að PCB hafi lengi verið á bannlista er styrkur efnisins í sjónum vestur af meginlandi Evrópu sá hæsti sem þekkist. Efnið brotnar mjög hægt niður og því er erfitt að losna við það. Auk þess mun eitthvað af efninu leka frá urðunarstöðum.
(Sjá frétt the Guardian 14. janúar).

Endurnýjanleg orka úr 15.000 tonnum af jólamat

Biogen-Xmas-food-waste (160x80)Meira en 15.000 tonn af matarafgöngum frá nýafstöðnum jólum voru nýtt af fyrirtækinu Biogen í Bretlandi til að framleiða hátíðlega endurnýjanlega orku, en magnið samsvarar þyngd 45 Boeing 747 flugvéla. Þar sem um 30% meira af matarúrgangi fellur til yfir hátíðarnar en á öðrum tímum ákvað fyrirtækið að haga málum þannig að hægt væri að nýta stærstan hluta úrgangsins til raforkuframleiðslu og framleiðslu á jarðvegsbæti. Þetta var m.a. gert með auknu samstarfi við stóra viðskiptavini á borð við sveitarfélög, smásala og veitingahúsakeðjur, en þar að auki unnu starfsmenn yfir jólin við að meðhöndla þann úrgang sem til féll. Með því að nýta úrganginn var hægt að koma í veg fyrir losun gróðurhúsalofttegunda við urðun, auk þess sem fyrirtækið gat aukið framleiðslu sína og þar með hagnað.
(Sjá frétt Sustainable Review 11. janúar).

Nýr vettvangur fyrir úthlutun matarafganga

full_29448Í Bretlandi hefur nýr vettvangur fyrir úthlutun matarafganga verið kynntur á samfélagsmiðlum til að auðvelda samskipti góðgerðarsamtaka og verslunarkeðja. Vettvangurinn, sem nefnist Neighbourly Food, gerir góðgerðarsamtökum kleift að skilgreina þarfir sínar varðandi matargjafir og auðveldar þannig leitina að samstarfsaðilum. Verslanir geta að sama skapi fundið góðgerðarsamtök sem hæfa framboði af afgangsmatvöru með tilliti til staðsetningar og „best-fyrir merkinga“. Vettvangurinn gerir þannig aðilum kleift að bregðast hraðar við breytingu á eftirspurn og framboði afganga og draga þannig verulega úr sóun. Bretar hafa lagt mikla áherslu á að minnka matarsóun þrátt fyrir að Framkvæmdastjórn ESB hafi nýlega tekið ákvörðun um að ákvæði um lögbundna minnkun matarsóunar yrði ekki hluti af stefnumótunarpakka ESB um hringrásarhagkerfið (e. Circular Economy Package).
(Sjá frétt EDIE 8. desember).

Auglýsingaskilti í „endurnýjun lífdaga“

full_29379Auglýsingaskilti úr plasti sem sett voru upp við Þúsaldarvöllinn í Cardiff á meðan heimsmeistarakeppnin í ruðningi fór þar fram í haust, hafa nú gengið í „endurnýjun lífdaga“ fyrir tilstilli umbúðafyrirtækisins DS Smith. Sá hluti skiltanna sem framleiddur hafði verið úr pólýprópýlenplasti (PP) var malaður og breytt í hráefni fyrir nýjar PP-vörur. Með þessu móti var unnt að endurvinna 98% af heildarþyngd PP-skiltanna. Þegar til átti að taka kom hins vegar í ljós að stór hluti skiltanna var úr annars konar plasti sem ekki var hægt að endurvinna, svo sem úr PVC eða úr blöndu af fleiri fjölliðum. Þar sem skilti sem þessi eru efnismikil er ljóst að miklu skiptir úr hvers konar plasti þau eru gerð.
(Sjá frétt EDIE 24. nóvember).

Breskir stórmarkaðir minnka matarsóum um 20.000 tonn á einu ári

foodwastepieMatarsóun í breskum stórmörkuðum hefur minnkað um 20.000 tonn á einu ári að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem WRAP tók saman fyrir bresku smásölusamtökin BRC. Þarna er um að ræða 10% samdrátt á einu ári, úr 200.000 tonnum í 180.000 tonn. Dagvöruverslanir bera aðeins ábyrgð á rúmlega 1% af matarsóuninni í Bretlandi en þær eru í lykilaðstöðu til að hafa áhrif á sóun í aðfangakeðjunni, bæði meðal birgja og inni á heimilum. Sem dæmi um aðgerðir sem verslanirnar hafa gripið til má nefna að Tesco breytti verklagi í eigin bakaríum þannig að nú eru brauð bökuð oftar og færri í einu, Asda endurhannaði dagsetningar á matvælum til að sporna gegn misskilningi um endingartíma, Sainsbury’s þróaði aðferð til að nota matarúrgang til orkuframleiðslu og Marks & Spencer kom á kerfi til að dreifa afgöngum frá 150 stærstu verslunum keðjunnar til hjálparsamtaka um land allt.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Endurvinnslustöð fyrir bleyjur og dömubindi rís í London

28992Bandaríska fyrirtækið Knowaste áformar að reisa sjö endurvinnslustöðvar fyrir rakadrægar hreinlætisvörur í Bretlandi á næstu fimm árum og hefur þegar sótt um leyfi fyrir fyrstu stöðinni sem áformað er að hefji rekstur í London snemma árs 2017. Með „rakadrægum hreinlætisvörum“ (e. Absorbent Hygiene Products (AHP)) er átt við vörur á borð við einnota bleyjur, buxnainnlegg og dömubindi. Árlega urða Bretar um milljón tonn af slíkum úrgangi, eða sem samsvarar 4-7% af öllum óflokkuðum heimilisúrgangi. Knowaste beitir nýrri tækni við endurvinnsluna, þar sem úrgangurinn er tættur, sótthreinsaður, þurrkaður og aðskilinn í plast, trefjar og aðskotaefni. Plastið nýtist sem hráefni í framleiðslu á nýjum plastvörum og úr trefjunum má m.a. framleiða undirburð fyrir gæludýr. Stöðin í London á að geta tekið við 36.000 tonnum af úrgangi á ári og er reiknað með að nýtingarhlutfallið verði rúmlega 97%. Stofnkostnaður stöðvarinnar verður um 14 milljónir sterlingspunda (tæplega 2,8 milljarðar ísl. kr.).
(Sjá frétt EDIE í dag).

Milljón plastagnir í hverri flösku

150826102034_1_540x360Ýmsar snyrtivörur innihalda gríðarlegt magn plastagna (míkróplasts) sem bætt er í vöruna sem fylliefni eða til að gefa henni skröpunareiginleika. Í rannsókn vísindamanna við háskólann í Plymouth kom í ljós að einn skammtur af snyrtivörum, t.d. skrúbbkremi fyrir andlit, getur innihaldið allt að 100.000 plastagnir. Þessar agnir eiga greiða leið í gegnum fráveitukerfi og út í umhverfið, þar sem þær safnast fyrir og geta valdið lífríkinu verulegum skaða. Talið er að allt að 80 tonn af slíku plasti berist til hafs á ári hverju í Bretlandi einu. Vitað er um 80 tegundir af húðvörum og snyrtivörum á breskum markaði sem innihalda plastagnir, þ.á.m. handsápur, tannkrem, rakkrem, freyðiböð, sólarvörn og sjampó. Með því að nota rafeindasmásjá töldu vísindamennirnir 137.000 til 2,8 milljónir plastagna í 150 ml. skammti af þessum vörum. Nokkrir framleiðendur hafa heitið því að hætta að bæta plastögnum í vörurnar sínar, en hægt virðist miða í því.
(Sjá frétt Science Daily í gær).

Aukin samnýting bíla í London

car_share_160Á dögunum var kynnt ný áætlun um aukna samnýtingu bílaflotans í London, en þar er stefnt að því að milljón borgarbúar verði orðnir aðilar að samnýtingar- eða samakstursfélögum fyrir árið 2025. Í aðgerðaráætluninni, sem gengur undir nafninu Car Club Action Plan, er lögð áhersla á að deilihagkerfið verði haft í huga við þróun samgangna í borginni, en í dag deila um 145.000 Lundúnabúa bíl með öðrum eða notast við deilibíla. Sem dæmi um aðgerðir samkvæmt áætluninni má nefna bætt aðgengi að samnýtingarbílum með upplýsingatækni og aukinni nálægð við bílamiðstöðvar, fjölgun samnýtingarbílastæða og aukna áherslu á rafbíla innan félaganna. Samkvæmt rannsóknum RAC Foundation notar dæmigerður borgarbúi bílinn sinn aðeins um 4,6 klst á viku sem þýðir að bíllinn stendur ónotaður um 97% vikunnar á sama tíma og þrengsli og mengun í stórborgum eykst ört með stækkandi bílaflota. Með samnýtingu má fækka bílum og nýta hvern þeirra betur.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Mikill kolefnissparnaður vegna endurvinnslu plasts og málma

recycling_160Losun gróðurhúsalofttegunda vegna úrgangsmeðhöndlunar sveitarfélaga í Bretlandi minnkaði um 4% á síðasta ári miðað við árið á undan, samkvæmt hinni árlegu skýrslu Recycling Carbon Index Report. Í skýrslunni kemur fram að 64% allra sveitarfélaga í Bretlandi hafi dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda í tengslum við úrgangsmeðhöndlun á síðasta ári þrátt fyrir að endurvinnsluhlutfall hafi ekki hækkað á sama tíma. Árangurinn er talinn stafa af því að tekist hafi að endurvinna meira af plasti og málmum en áður, en söfnun og efnisendurvinnsla þessara flokka hefur í för með sér mikinn kolefnissparnað. Þannig sparast 2,35 tonn af koltvísýringi fyrir hvert tonn af málmum sem safnast og fer í endurvinnslu.
(Sjá frétt EDIE í dag).