Umhverfismeðvituð aldamótabörn

Svíar sem fæddir eru á fyrsta áratug 21. aldar eru umhverfismeðvitaðri og félagssinnaðri en fólk sem fæddist á 10. áratugnum og leggja meiri áherslu á jafnrétti, umhyggju, velferð og sjálfbærni. Aldamótakynslóðin er almennt þeirrar skoðunar að árið 2040 verði meira borðað af heimaræktuðum mat og grænmetisfæði en nú og að heimili og borgir verði að meira leyti sjálfum sér nóg um fæðu. Þetta kom fram í viðamikilli viðhorfskönnun sem sænska verslunarkeðjan ICA lét gera í vetur og vor.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 10. maí).

Lasermerki í stað límmiða á ávexti og grænmeti

3072-160Sænska matvörukeðjan ICA setti nýverið í gang tilraun til að merkja staka ávexti og grænmeti í verslunum sínum með lasertækni í stað límmiða. Tæknin virkar þannig að lasergeisli eyðir litarefni í hýði ávaxtarins eða grænmetisins og þannig verður til varanleg merking án þess að það hafi önnur áhrif á vöruna. Hægt er að spara mikið af umbúðum með því að selja ávexti og grænmeti í lausu, en þá þarf að merkja hvern ávöxt um sig til að uppfylla kröfur, m.a. um rekjanleika lífrænnar vöru. Límmiðarnir sem þessi nýja tækni getur leyst af hólmi eru ekki stórir en með þessari aðferð sparast engu að síður mikið af plasti, lími og bleki þegar á heildina er litið. Að sögn talsmanns ICA sparast t.d. 200 km af 30 cm breiðri plastræmu á ári við það eitt að merkja öll lífrænt vottuð avókadó í verslunum keðjunnar á þennan hátt. Aðilar á matvörumarkaði í Hollandi og Bretlandi eru einnig að þreifa sig áfram með þessa notkun lasertækninnar, sem nefnd hefur verið „natural branding“.
(Sjá frétt The Guardian 16. janúar).