Vísindamenn við Háskólann í Lancaster hafa sýnt fram á tengsl loftmengunar við hrörnunarsjúkdómana Alzheimer, Parkinson og MND. Málmríkar nanóagnir frá umferð og merki um forstig sjúkdómanna fundust í heilum ungmenna frá Mexíkóborg sem búið höfðu við mikla loftmengun, en hvorki agnirnar né sjúkdómsmerkin fundust í heilum ungmenna frá minna menguðum svæðum. Rannsóknin náði til samtals 186 ungmenna á aldrinum 11 mánaða til 27 ára, sem öll höfðu látist af orsökum sem ekki tengdust efni rannsóknarinnar. Merki um forstig sjúkdómanna fundust á öllu aldursbilinu.
(Sjá frétt Science Daily 6. október).
Greinasafn fyrir merki: mengun
Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum
Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Carlsberg sparar 1.200 tonn af plasti á ári með límdum dósum
Bjórframleiðandinn Carlsberg hóf í vikunni framleiðslu á nýjum sexum (e. sixpacks) þar sem bjórdósirnar eru límdar saman á hliðunum með sérhönnuðum límpunktum í stað þess að hanga saman í plastbelti. Með þessu móti vonast Carlsberg til að geta dregið úr plastnotkun um 1.200 tonn á ári, auk þess sem lífríkinu stafar ekki hætta af umbúðunum, framleiðslan verður minna háð jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda minnkar. Þessi nýjung, sem nefnist „Snap Pack“ á ensku, er hluti af stóru sjálfbærniverkefni Carlsberg undir yfirskriftinni „Náum núlli saman“ (e. Together Towards Zero). Nýja sexan kemur fyrst á markað í Bretlandi (og í Noregi) en mun síðan breiðast út um önnur markaðssvæði Carlsberg.
(Sjá frétt Packaging Europe í gær).
Nýr leiðarvísir um örplast frá gervigrasvöllum
Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).
Mikil glimmernotkun á kjötkveðjuhátíðum veldur áhyggjum
Gríðarlegt magn af glimmer er notað í skraut og líkamsmálningu í tengslum við kjötkveðjuhátíðir á borð við þær sem fram fara þessa dagana í Ríó og víðar. Glimmer er að mestu leyti gert úr plastefnum og því stuðlar þessi mikla notkun að vaxandi örplastmengun í hafinu. Sumir skipuleggjendur hafa leitast við að draga úr glimmernotkuninni en aðrir frábiðja sér afskipti af þessari ríku hefð. Hægt er að fá glimmer úr efnum sem brotna niður í náttúrunni, svo sem úr sellulósa úr tröllatré (e. Eucalyptus), vaxi og náttúrulegum olíum. Glimmer af þessu tagi er hins vegar margfalt dýrara en örplastglimmer.
(Sjá frétt The Guardian 11. febrúar).
Fosfórmengun ógnar ferskvatni jarðar
Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).
Fiskar í menguðu vatni þurfa að vinna meira
Lyfjaleifar og önnur mengunarefni í vatni neyða fiska til að leggja á sig meira erfiði en ella til að komast af, að því er fram kemur í nýrri vísindagrein eftir sérfræðinga við McMaster-háskólann í Ontaríó í Kanada. Jafnvel fullkomnustu skólphreinsistöðvar ná ekki að klófesta leifar af lyfjum á borð við getnaðarvarnarpillur, þunglyndislyf og beta-blokkera áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þessi efni og önnur mengunarefni í vatni gera það að verkum að fiskar leggja á sig u.þ.b. 30% viðbótarvinnu til að losa sig við efnin. Þetta þýðir að minni orka verður afgangs en ella til annarra verka, svo sem til þess að afla næringar, verjast rándýrum og æxlast. Þar með minnka afkomumöguleikar stofnsins, jafnvel þótt efnin drepi ekki fiskana. Þarna er því í raun um falin eitrunaráhrif að ræða. Einn af höfundum rannsóknarinnar líkir þessum áhrifum við það ef fólk þyrfti að ganga í nokkrar klukkustundir á hverjum degi (án þess að fá meiri mat).
(Sjá frétt Science Daily 16. janúar).
Skotar banna eyrnapinna úr plasti
Skosk stjórnvöld kynntu á dögunum þá ákvörðun sína að banna framleiðslu og sölu á eyrnapinnum úr plasti. Gríðarlegt magn af þessu varningi berst enn til sjávar með fráveituvatni, þrátt fyrir margar upplýsingaherferðir til að kenna fólki að henda ekki eyrnapinnum í salernisskálar að notkun lokinni. Plastið í pinnunum brotnar seint eða aldrei niður í hafinu og pinnarnir geta verið banabiti fiska og annarra sjávardýra sem gleypa þá. Margar stærri verslunarkeðjur eru hættar að selja plasteyrnapinna, enda er nóg til að pinnum úr umhverfisvænni efnum.Talið er að þessi eina aðgerð geti minnkað plastmengun frá Skotlandi um helming.
(Sjá frétt The Guardian 11. janúar).
Þarmabakteríur sem brjóta niður plast
Tilteknar skordýralirfur geta étið og melt plast en hingað til hefur ekki verið ljóst á hverju þessi hæfileiki byggist. Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á að tilteknar bakteríur í þörmum lifranna virðast gera þetta mögulegt. Samanburður á bakteríuflóru í þörmum hnetuglæðu (Plodia interpunctella) á lirfustigi leiddi í ljós að lirfur sem aldar voru á pólýtýlenplasti höfðu allt aðra og fjölbreyttari þarmaflóru en lirfur sem fengu venjulegt fæði. Í þeim síðarnefndu voru bakteríur af ættkvíslinni Turicibacter í meirihluta, en þessar bakteríur eru mjög algengar í þörmum dýra. Plastæturnar voru hins vegar með mikið af Tepidimonas-, Pseudomonas-, Rhizobiales– og Methylobacteriaceae-bakteríum, en sumar þeirra virðast einmitt eiga þátt í að brjóta niður plastagnir í hafinu.
(Sjá frétt Science News 17. nóvember).
Vilja banna glimmer
Breskir vísindamenn hafa kallað eftir banni við sölu á glimmer, þar sem það sé oftar en ekki gert úr plasti og hafi því sömu neikvæðu áhrif á umhverfið og annað örplast. Talið er að nú þegar fljóti allt að 51 þúsund milljarðar örplastagna um heimshöfin. Áhrif þessarar mengunar á lífríkið og þar með á heilsu manna eru ekki fullljós, en þau kunna að verða víðtæk og alvarleg þegar fram í sækir. Frá og með næsta ári verður bannað að bæta örplasti í snyrtivörur sem framleiddar eru í Bretlandi en ekki hafa verið settar sérstakar skorður hvað glimmer varðar. Glimmer er reyndar ekki allt framleitt úr plasti, heldur einnig úr áli. Sömuleiðis er hægt að framleiða glimmer úr umhverfisvænni efnum sem brotna auðveldlega niður í náttúrunni.
(Sjá frétt Independent 16. nóvember).