Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: akstur
Vinnubílaáskorunin hafin!
Í síðustu viku var svonefndri „vinnubílaáskorun“ hleypt af stokkunum í Vänersborg í Svíþjóð. Fyrirtæki, sveitarfélög og samtök sem taka áskoruninni skuldbinda sig til að hafa eingöngu rafbíla, tengiltvinnbíla eða metanbíla til ráðstöfunar fyrir starfsmenn sína og huga jafnframt að því að nýta aðrar samgönguleiðir, svo sem reiðhjól, almenningssamgöngur eða deilibíla. Áskorunin er hluti af átakinu Fossilfritt Sverige, sem hófst í aðdraganda Parísarráðstefnunnar 2015. Fyrirtæki og stofnanir kaupa um helming allra nýrra bíla sem seldir eru í Svíþjóð og því skiptir miklu máli hvers konar bílar verða fyrir valinu. Ástæða þess að áskorunin var kynnt í Vänersborg er sú að sveitarfélögin á því svæði, beggja vegna sænsku/norsku landamæranna, hafa sett sér það takmark að hætta að nota jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2030. Yfirskrift þess verkefnis er Hela Gröna Vägen eða „Alla græna leið“.
(Sjá frétt Gröna bilister 5. október).
Eftirlit með bílaflotanum minnkar losun um 22%
Breski byggingarverktakinn J.Murphy & Sons hefur dregið úr losun fyrirtækisins um 22% með því að koma fyrir tækjabúnaði í bílaflotanum til að fylgjast með aksturshegðun ökumanna fyrirtækisins. Um 1.900 mælum var komið við í bílaflota fyrirtækisins og skráði búnaðurinn hraða, lausagang og ferðaleiðir. Eftir að mælingartímanum lauk voru niðurstöðurnar teknar saman og kynntar bílstjórum og þeim sýndar leiðir til hagkvæmari og öruggari aksturs. Aukin vitund bílstjóranna um áhrif akstursmynsturs á losun gróðurhúsalofttegunda, bensíneyðslu og öryggi hafði í för með sér þessa stórbættu nýtingu.
(Sjá frétt Planning & Building Control Today 15. febrúar).