Frá því á árinu 2014 hafa bifreiðaskoðunarstöðvar í Bretlandi fundið meira en 1.000 díselbíla sem ekki eru með lögbundnar mengunarsíur. Síðan 2009 hafa mengunarsíur verið lögbundnar í nýjum díselbílum til að draga úr svifryksmengun í útblæstri. Síurnar eiga það hins vegar til að stíflast með tilheyrandi vandræðum og því hafa margir bíleigendur brugðið á það ráð að borga verkstæðum fyrir að fjarlægja síurnar. Sum verkstæði bjóða einnig upp á þá þjónustu að fjarlægja hluta af síunni þannig hún verði óvirk og stíflist ekki. Þessi breyting sést ekki við hefðbundna bifreiðaskoðun og telur Samgöngustofa Bretlands líklegt að tugir eða hundruð þúsunda bíla aki nú um með gagnslausar síur. Samkvæmt breskri löggjöf er ekki ólöglegt að fjarlægja síur en akstur síulausra bíla er ólöglegur. Áætlað er að árlega deyi um 29.000 manns í Bretlandi fyrir aldur fram úr sjúkdómum sem rekja má til svifryksmengunar. Þarlend yfirvöld hafa því miklar áhyggjur af áhrifum ólöghlýðni bíleigenda á lýðheilsu.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).