Gerð svifryks skiptir ekki síður máli en magnið

Vitað er að svifryk hefur skaðleg áhrif á heilsu. Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við Paul Scherrer Institute (PSI) í Sviss ráðast þessi áhrif þó að öllum líkindum ekki fyrst og fremst af magni svifryksins, heldur af samsetningu þess, nánar tiltekið af „oxunargetu“ (e. oxidative potential) svifryksagnanna. Með „oxunargetu“ er átt við getu agnanna til að eyða andoxunarefnum í frumum líkamans, sem síðan getur leitt til frumu- og vefjaskemmda. Stór hluti svifryks er svokallað steinefnasvifryk úr jarðvegi, ásamt ólífrænum ögnum sem innihalda m.a. ammóníumnítrat og súlfat. Þetta ryk hefur ekki mikla „oxunargetu“. Öðru máli gegnir um „manngert ryk“ á borð við sótagnir og málmagnir úr bremsuborðum og dekkjasliti. Þetta þýðir að íbúar þéttbýlis búa ekki aðeins við meira svifryk en íbúar dreifbýlis, heldur er þéttbýlissvifrykið einnig skaðlegra heilsunni. Samkvæmt þessu er ekki nóg að setja reglur um magn svifryks, heldur þarf einnig að taka tillit til samsetningar þess.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær)

Vísbendingar um tengsl loftmengunar við Alzheimer, Parkinson og MND

Vísindamenn við Háskólann í Lancaster hafa sýnt fram á tengsl loftmengunar við hrörnunarsjúkdómana Alzheimer, Parkinson og MND. Málmríkar nanóagnir frá umferð og merki um forstig sjúkdómanna fundust í heilum ungmenna frá Mexíkóborg sem búið höfðu við mikla loftmengun, en hvorki agnirnar né sjúkdómsmerkin fundust í heilum ungmenna frá minna menguðum svæðum. Rannsóknin náði til samtals 186 ungmenna á aldrinum 11 mánaða til 27 ára, sem öll höfðu látist af orsökum sem ekki tengdust efni rannsóknarinnar. Merki um forstig sjúkdómanna fundust á öllu aldursbilinu.
(Sjá frétt Science Daily 6. október).

Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030

Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).

Metframleiðsla á sólarorku á tímum Coronaveirunnar

Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).

Svifryksagnir fósturmegin á fylgju

Talsvert magn af ögnum úr menguðu lofti, svo sem frá umferð, er að finna fósturmegin á fylgjum að því er fram kemur í nýrri rannsókn Hasselt háskóla í Belgíu. Fjöldi agnanna er jafnframt meiri eftir því sem hinar verðandi mæður hafa andað að sér meiru af menguðu lofti. Þetta þýðir að fóstur í móðurkviði komast í beina snertingu við agnir af þessu tagi. Áður hefur verið sýnt fram á tengsl loftmengunar við fósturlát, fyrirburafæðingar og lækkaða fæðingarþyngd, en þessar nýju niðurstöður gefa sterkari vísbendingar en áður um að agnirnar sjálfar hafi þessi áhrif frekar en að þau séu afleiðing bólgusvörunar í líkama móðurinnar. Höfundar rannsóknarinnar benda á að það sé á ábyrgð stjórnvalda að draga úr loftmengun, en að verðandi mæður ættu jafnframt að halda sig sem fjærst stórum umferðaræðum og öðrum uppsprettum loftmengunar.
(Sjá frétt Guardian 17. september).

Agnir úr menguðu lofti finnast í fylgjum

Vísindamenn hafa fundið agnir úr menguðu lofti í fylgjum. Áður hafði verið sýnt fram á að loftmengun eykur verulega líkurnar á fyrirburafæðingum og lágri fæðingarþyngd, með tilheyrandi heilsutjóni síðar á ævinni. Einnig hafa rannsóknir sýnt tengsl á milli loftmengunar og skertrar starfsemi heilans. Hins vegar hefur ekki áður verið sýnt fram á að agnir berist með blóði frá lungum í fylgju. Það að agnirnar finnist í fylgjunni þarf ekki endilega að þýða að þær berist í fóstrið, en það telst þó líklegt. Rannsóknin undirstrikar mikilvægi þess að verðandi mæður, og reyndar fólk yfirleitt, forðist stórar umferðargötur og aðra staði þar sem loftmengun er mikil.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Leigubílaöpp geta komið í stað einkabílsins

Sex af hverjum 10 íbúum Stokkhólms geta hugsað sér að hætta að eiga eigin bíl og treysta þess í stað á leigubílasmáforrit til að komast leiðar sinnar, að því er fram kemur í könnun sem fyrirtækið Uber stóð fyrir. Reyndar er þetta hlutfall enn hærra í nokkrum öðrum borgum Evrópu. Um 78% íbúa í Stokkhólmi vilja að bílum á götum borgarinnar fækki. Með því að nota almenningssamgöngur og sameinast um bíla, t.d. með hjálp smáforrita, gætu íbúar stytt biðraðir, bætt loftgæði og dregið úr þörf fyrir bílastæði.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 15. september).

Venjulegur dísilbíll mengar meira en trukkur

5227-160x96Nýir dísildrifnir fólksbílar losa um tífalt meira af köfnunarefnisoxíðum (NOx) út í andrúmsloftið fyrir hvern lítra eldsneytis en nýir flutningabílar og rútur, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðaráðsins um hreina flutninga (International Council on Clean Transportation (ICCT)). Þetta skýrist af því að beitt er mun strangari aðferðum við mælingar á mengun frá stórum ökutækjum en fólksbílum. Mengun frá fólksbílum er mæld í frumgerðum á rannsóknarstofu en við mælingar á trukkum eru notuð færanleg mælitæki við raunverulegar aðstæður. Trukkar sem prófaðir voru í Þýskalandi og Finnlandi reyndust losa um 210 mg af NOx á kílómetra, en losun frá nýjum fólksbílum var um 500 mg/km. Þetta jafngildir tíföldum mun á hvern lítra þegar tekið hefur verið tillit til eldsneytisnotkunar bílanna. Þessar niðurstöður sýna að bílaframleiðendur ráða yfir tækninni sem þarf til að draga úr mengun en hafa látið hjá líða að nota hana. Áform eru uppi um að herða reglur um mengunarmælingar á fólksbílum í framhaldi af „dieselgate“-hneykslinu þar sem Volkswagen var í aðalhlutverki.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Norska ríkið styrkir loftslagsverkefni sveitarfélaga

md-byggplass-160x78Í dag úthlutaði Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet) 98 milljónum norskra króna (rúmlega 1,3 milljörðum ísl. kr.) til samtals 142 loftslagsverkefna í 89 þarlendum sveitarfélögum, en samtals bárust stofnuninni 332 umsóknir um styrki af þessu tagi. Þarna er um að ræða svonefnt „Klimasats-fé“ sem var sérstaklega eyrnamerkt í fjárlögum til að styðja við aðgerðir sveitarfélaga sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vísa veginn til kolefnishlutlausrar framtíðar. Verkefnin sem í hlut eiga eru margvísleg, en sem dæmi má nefna útblásturslaus byggingarsvæði, nýtingu timburs sem byggingarefnis í stað stáls og steinsteypu, hleðslustöðvar fyrir bíla í eigu sveitarfélaga, tilraunir með rafknúnar vinnuvélar, innviði fyrir rafhjól, reiðhjólahótel við lestarstöðvar og skipulagsverkefni með sérstakri áherslu á loftslagsmál. Auk loftslagsáherslunnar eru mörg verkefnanna til þess fallin að bæta loftgæði og þar með heilsu fólks á viðkomandi svæðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljødirektoratet í dag).

Magnetít frá umferð finnst í heilum manna

3100-160Mikið magn af steindinni magnetít (Fe3O4) fannst í heilavef 37 einstaklinga á öllum aldri sem skoðaðir voru í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Magnetít myndast í einhverjum mæli í heilum manna en vísindamennirnir sem stóðu að umræddri rannsókn telja agnirnar sem hér um ræðir upprunnar í menguðu lofti frá umferð og iðnaði. Þær eru stærri og hafa aðra lögun en agnir sem fyrir eru í heilanum og fundust í hundrað sinnum meira magni. Þessar niðurstöður valda áhyggjum, m.a. vegna þess að magnetít gefur frá sér stakeindir (e. free radicals) sem flýta mjög fyrir oxun og geta þannig hugsanlega m.a. átt þátt í þróun Alzheimer sjúkdómsins.
(Sjá frétt The Guardian 5. september).