Á síðasta ári dró Royal Bank of Scotland úr fjárfestingum í olíu- og gasvinnslufyrirtækjum um 70% og tvöfaldaði á sama tíma lán til uppbyggingar í endurnýjanlegri orku. Bankinn hefur hingað til verið ein helsta uppspretta fjármagns til leitar og vinnslu jarðefnaeldsneytis en félagasamtök sem berjast gegn loftslagsbreytingum hafa beitt miklum þrýstingi til að knýja fram breyttar áherslur. Þessi stefnubreyting bankans hefur einkum áhrif á fyrirtæki í Norður-Ameríku og Asíu en bankinn mun m.a. hætta öllum viðskiptum við fyrirtæki í Kanada sem vinna olíu úr olíusandi. Sú þróun að bankar og aðrar stofnanir dragi úr svörtum fjárfestingum tengist vissulega einnig lækkandi olíuverði og þ.a.l. verri stöðu fyrirtækja í olíu- og gasvinnslu. Óvíst er hvernig þessir aðilar munu bregðist við ef markaðurinn styrkist á næstu misserum.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).
Greinasafn fyrir merki: olíusandur
Fuglar drepast á olíusöndum Alberta
Yfir 100 fuglshræ hafa fundist við úrgangstjarnir á vinnslusvæðum olíusands í Albertafylki í Kanada samkvæmt skýrslum sem Orkustofnun Alberta (Alberta’s Energy Regulator) hefur fengið í hendurnar. Fuglarnir drápust vegna snertingar við eitrað úrkast sem geymt er í tjörnunum, en ekki liggur fyrir hvort fuglarnir lentu þarna vegna óvenjulegra veðuraðstæðna eða óviðunandi fælibúnaðar, sem skylt er að koma upp við tjarnir af þessu tagi. Eitt af fyrirtækjunum sem er ábyrgt fyrir tjörnunum, Canadian Oil Sands ltd., var sektað um 3 milljónir Kanadadala (um 328 millj. ísl. kr.) fyrir svipað atvik árið 2008 þar sem 1.600 endur drápust eftir að hafa lent á gryfju þar sem lögbundnum fælibúnaði hafði ekki verið komið fyrir.
(Sjá frétt Planet Ark 7. nóvember).