Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu

Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Nýr leiðarvísir um örplast frá gervigrasvöllum

Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).

Hægt að minnka plastmengun hafsins um 77% fyrir árið 2025

Með því að fjárfesta í úrbótum í úrgangsmálum fátækari landa væri hægt að minnka verulega það magn af plastúrgangi sem berst í hafið árlega. Árið 2025 gæti magnið verið komið niður í 2,4-6,4 milljónir tonna, sem samsvarar um 77% samdrætti frá því sem nú er. Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nextek sem kynnt var í vikunni. Þar er bent á að enn séu ekki til neinar árangursríkar aðferðir til að hreinsa plast úr hafinu og að því verði að leggja megináherslu á að fyrirbyggja að plastið berist þangað. Skref í þessa átt væri að nota eingöngu endurnýjanlegar umbúðir, enda hafi menn enga afsökun fyrir því að gera það ekki. Þá þurfi ríkari lönd að veita verulegu fé til úrbóta í úrgangsmeðhöndlun í fátækari löndum, en ástandið er einna verst í Kína, Indónesíu, Filippseyjum og Sri Lanka. Þegar skýrslan var kynnt kom fram að plastmengun í hafi væri orðin svo alvarleg að hún þyrfti að vera á dagskrá allra alþjóðlegra funda á borð við fundi G20-ríkjanna, Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
(Sjá frétt Waste Management World í dag).

Mikil glimmernotkun á kjötkveðjuhátíðum veldur áhyggjum

Gríðarlegt magn af glimmer er notað í skraut og líkamsmálningu í tengslum við kjötkveðjuhátíðir á borð við þær sem fram fara þessa dagana í Ríó og víðar. Glimmer er að mestu leyti gert úr plastefnum og því stuðlar þessi mikla notkun að vaxandi örplastmengun í hafinu. Sumir skipuleggjendur hafa leitast við að draga úr glimmernotkuninni en aðrir frábiðja sér afskipti af þessari ríku hefð. Hægt er að fá glimmer úr efnum sem brotna niður í náttúrunni, svo sem úr sellulósa úr tröllatré (e. Eucalyptus), vaxi og náttúrulegum olíum. Glimmer af þessu tagi er hins vegar margfalt dýrara en örplastglimmer.
(Sjá frétt The Guardian 11. febrúar).

Skotar banna eyrnapinna úr plasti

Skosk stjórnvöld kynntu á dögunum þá ákvörðun sína að banna framleiðslu og sölu á eyrnapinnum úr plasti. Gríðarlegt magn af þessu varningi berst enn til sjávar með fráveituvatni, þrátt fyrir margar upplýsingaherferðir til að kenna fólki að henda ekki eyrnapinnum í salernisskálar að notkun lokinni. Plastið í pinnunum brotnar seint eða aldrei niður í hafinu og pinnarnir geta verið banabiti fiska og annarra sjávardýra sem gleypa þá. Margar stærri verslunarkeðjur eru hættar að selja plasteyrnapinna, enda er nóg til að pinnum úr umhverfisvænni efnum.Talið er að þessi eina aðgerð geti minnkað plastmengun frá Skotlandi um helming.
(Sjá frétt The Guardian 11. janúar).

Vilja banna glimmer

Breskir vísindamenn hafa kallað eftir banni við sölu á glimmer, þar sem það sé oftar en ekki gert úr plasti og hafi því sömu neikvæðu áhrif á umhverfið og annað örplast. Talið er að nú þegar fljóti allt að 51 þúsund milljarðar örplastagna um heimshöfin. Áhrif þessarar mengunar á lífríkið og þar með á heilsu manna eru ekki fullljós, en þau kunna að verða víðtæk og alvarleg þegar fram í sækir. Frá og með næsta ári verður bannað að bæta örplasti í snyrtivörur sem framleiddar eru í Bretlandi en ekki hafa verið settar sérstakar skorður hvað glimmer varðar. Glimmer er reyndar ekki allt framleitt úr plasti, heldur einnig úr áli. Sömuleiðis er hægt að framleiða glimmer úr umhverfisvænni efnum sem brotna auðveldlega niður í náttúrunni.
(Sjá frétt Independent 16. nóvember).

Bátur úr endurunnu plasti sjósettur í London

Á dögunum sjósettu umhverfissamtökin Hubbub bát sem er að 99 hundraðshlutum gerður úr endurunnu plasti. Báturinn, sem nefndur hefur verið Poly-Mer, verður notaður til að safna plastrusli af hafnarsvæðum Lundúna og vekja fólk í leiðinni til vitundar um mikilvægi þess að umgangast plast af ábyrgð og varúð þannig að það lendi ekki í sjónum. Poly-Mer er fyrsti báturinn í heiminum sem smíðaður er úr plastúrgangi.
(Sjá frétt á heimasíðu Recycling & Waste World 2. nóvember).

Engum blöðrum sleppt á þjóðhátíð Gíbraltar

blodrurYfirvöld á Gíbraltar hafa ákveðið að hætta að sleppa blöðrum á þjóðhátíðardegi höfðans, en hefð hefur verið fyrir slíku síðastliðin 24 ár. Gíbraltar hefur árum saman státað af einni stærstu blöðruhátíð í heimi, þar sem árlega er sleppt þúsundum hvítra og rauðra blaðra á þjóðhátíðardeginum. Áhrif blaðranna á lífríki sjávar hafa valdið mörgum íbúum áhyggjum og hafa grasrótarhreyfingar beitt sér fyrir því að þessi siður verði aflagður. Með því að hætta blöðrusleppingum vilja yfirvöld draga úr plastmengun í hafinu og neikvæðum áhrifum hennar á lífríki sjávar, um leið og aðgerðin felur í sér áminningu til ríkja heims um mikilvægi verndunar.
(Sjá frétt the Guardian 7. apríl).