Sjö flíkur í ruslið frá hverjum Breta

Hver einasti íbúi Bretlands mun senda 7 flíkur í urðun í vor í framhaldi af árlegri tiltekt í þarlendum fataskápum, að því er fram kemur í könnun sem gerð var með stuðningi Sainsbury’s verslunarkeðjunnar. Samtals munu 680 milljón stykki yfirgefa breska fataskápa þetta vorið, þ.e. 19 stykki á mann, og þar af fara væntanlega 235 milljón stykki í ruslatunnuna og þaðan í urðun. Öll þessi föt væri hægt að endurnota eða endurvinna en helsta ástæða þess að þeim er hent engu að síður er að fólk gerir sér ekki grein fyrir að jafnvel ónýt föt nýtist hjálparstofnunum til fjáröflunar. Þegar fólk var spurt um ástæður þess að það hendi fötum í ruslið í stað þess að gefa þau til hjálparsamtaka, svöruðu 49% að þau vissu ekki að ónýt föt kæmu þessum samtökum að gagni, 16% sögðust ekki hafa tíma til að fara með fötin á þar til gerða móttökustaði og 6% vissu ekki að hægt væri að endurvinna textílvörur.
(Sjá frétt The Guardian 6. apríl).

Breskir stórmarkaðir minnka matarsóum um 20.000 tonn á einu ári

foodwastepieMatarsóun í breskum stórmörkuðum hefur minnkað um 20.000 tonn á einu ári að því er fram kemur í nýrri skýrslu sem WRAP tók saman fyrir bresku smásölusamtökin BRC. Þarna er um að ræða 10% samdrátt á einu ári, úr 200.000 tonnum í 180.000 tonn. Dagvöruverslanir bera aðeins ábyrgð á rúmlega 1% af matarsóuninni í Bretlandi en þær eru í lykilaðstöðu til að hafa áhrif á sóun í aðfangakeðjunni, bæði meðal birgja og inni á heimilum. Sem dæmi um aðgerðir sem verslanirnar hafa gripið til má nefna að Tesco breytti verklagi í eigin bakaríum þannig að nú eru brauð bökuð oftar og færri í einu, Asda endurhannaði dagsetningar á matvælum til að sporna gegn misskilningi um endingartíma, Sainsbury’s þróaði aðferð til að nota matarúrgang til orkuframleiðslu og Marks & Spencer kom á kerfi til að dreifa afgöngum frá 150 stærstu verslunum keðjunnar til hjálparsamtaka um land allt.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Matvöruverslanir hitaðar með ísskápum

heatpump_160Búnaður til að nýta afgangshita frá bakhlið ísskápa hefur verið settur upp í 30 matvöruverslunum Sainsbury’s í Bretlandi, og í nánustu framtíð er stefnt að sams konar breytingum á a.m.k. 70 verslunum til viðbótar. Yfir sumartímann er hiti frá ísskápunum leiddur niður í einangruð jarðvegshólf undir verslununum og þegar kólnar í veðri eru varmadælur nýttar til að skila hitanum til baka inn í húsnæðið. Í hverri verslun eru fjölmörg kæli- og frystitæki og því geta varmadælurnar annað allri nauðsynlegri húshitun í verslununum, en það samsvarar um þriðjungi af allri orkuþörf þeirra. Verkefnið er eitt af mörgum umhverfisverkefnum Sainsbury’s keðjunnar sem öll taka mið af hinu þreföldu núlli, þ.e. að ekkert kolefni sé losað frá starfseminni út í andrúmsloftið, að starfsemin hafi engin neikvæð áhrif á vatnsgæði og að enginn úrgangur sé sendur til urðunar.
(Sjá frétt EDIE 16. febrúar).

Hvað verður um öll graskerin?

pumpkinUm 18.000 tonn af graskerjum voru urðuð í Bretlandi eftir hrekkjavökuna í fyrra, en matvælaúrgangur sem þessi hefur í för með sér mikla losun gróðurhúsalofttegunda á urðunarstöðum. Um 1 milljón graskerja seldist í verslunum Sainsbury’s á síðasta ári. Talið er að um 99% þeirra hafi fyrst og fremst verið ætluð í skreytingar og að um 64% hafi farið beint í ruslið eftir „notkun“. Þetta árið bauð Sainsbury’s keðjan viðskiptavinum sínum að skila graskerjum aftur í verslanir að hrekkjavöku lokinni, þannig að hægt yrði að nýta þau í orkuvinnslu og draga um leið úr því magni sem fer í urðun.
(Sjá frétt EDIE 31. október).

Páskaeggjaumbúðir endurunnar

Sainsburys-Easter-Egg-Rec-009Sérstökum endurvinnslutunnum fyrir páskaeggjaumbúðir hefur verið komið fyrir í 50 verslunum bresku keðjunnar Sainsbury’s. Í tunnurnar er hægt að skila harðplasti, mjúkplasti, pappa, álpappír, borðum og hvers kyns umbúðaúrgangi sem notaður er utan um páskaegg. Talið er að um 3.000 tonn af umbúðaúrgangi falli til í Bretlandi á hverju ári í tengslum við sölu á páskaeggjum og öðru páskatengdu súkkulaði. Með átaki sínu vill Sainsbury’s ýta undir aukna endurvinnslu og minnka magn heimilisúrgangs til urðunar.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Úrgangs-, vatns- og kolefnishlutlaus verslun

SainsburysBreska verslunarkeðjan Sainsbury’s opnaði á dögunum nýja verslun í Leicester, sem er sérstök að því leyti að engum úrgangi þaðan er fargað, auk þess sem reksturinn er kolefnishlutlaus og ekkert vatn er notað umfram það sem þegar var til staðar í vatnsveitu svæðisins. Meðal þess sem gert er til að ná þessum árangri má nefna, að í staðinn fyrir gas sem verslunin kaupir úr dreifikerfi svæðisins er sama magni af lífgasi bætt inn í kerfið frá metangasveri keðjunnar, auk þess sem um 70% af venjulegri vatnsþörf er mætt með regnvatni og vatnssparandi aðgerðum en þeim 30% sem á vantar með því að kosta sparnaðaraðgerðir hjá öðrum notendum vatnsveitunnar. Allir matarafgangar sem hæfir eru til manneldis eru gefnir hjálparsamtökum en annað nýtt í fóðurframleiðslu eða í einstaka tilvikum í gasgerð.
(Sjá frétt EDIE í dag).