Gríðarlegt magn af glimmer er notað í skraut og líkamsmálningu í tengslum við kjötkveðjuhátíðir á borð við þær sem fram fara þessa dagana í Ríó og víðar. Glimmer er að mestu leyti gert úr plastefnum og því stuðlar þessi mikla notkun að vaxandi örplastmengun í hafinu. Sumir skipuleggjendur hafa leitast við að draga úr glimmernotkuninni en aðrir frábiðja sér afskipti af þessari ríku hefð. Hægt er að fá glimmer úr efnum sem brotna niður í náttúrunni, svo sem úr sellulósa úr tröllatré (e. Eucalyptus), vaxi og náttúrulegum olíum. Glimmer af þessu tagi er hins vegar margfalt dýrara en örplastglimmer.
(Sjá frétt The Guardian 11. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: glimmer
Vilja banna glimmer
Breskir vísindamenn hafa kallað eftir banni við sölu á glimmer, þar sem það sé oftar en ekki gert úr plasti og hafi því sömu neikvæðu áhrif á umhverfið og annað örplast. Talið er að nú þegar fljóti allt að 51 þúsund milljarðar örplastagna um heimshöfin. Áhrif þessarar mengunar á lífríkið og þar með á heilsu manna eru ekki fullljós, en þau kunna að verða víðtæk og alvarleg þegar fram í sækir. Frá og með næsta ári verður bannað að bæta örplasti í snyrtivörur sem framleiddar eru í Bretlandi en ekki hafa verið settar sérstakar skorður hvað glimmer varðar. Glimmer er reyndar ekki allt framleitt úr plasti, heldur einnig úr áli. Sömuleiðis er hægt að framleiða glimmer úr umhverfisvænni efnum sem brotna auðveldlega niður í náttúrunni.
(Sjá frétt Independent 16. nóvember).