Skosk stjórnvöld kynntu á dögunum þá ákvörðun sína að banna framleiðslu og sölu á eyrnapinnum úr plasti. Gríðarlegt magn af þessu varningi berst enn til sjávar með fráveituvatni, þrátt fyrir margar upplýsingaherferðir til að kenna fólki að henda ekki eyrnapinnum í salernisskálar að notkun lokinni. Plastið í pinnunum brotnar seint eða aldrei niður í hafinu og pinnarnir geta verið banabiti fiska og annarra sjávardýra sem gleypa þá. Margar stærri verslunarkeðjur eru hættar að selja plasteyrnapinna, enda er nóg til að pinnum úr umhverfisvænni efnum.Talið er að þessi eina aðgerð geti minnkað plastmengun frá Skotlandi um helming.
(Sjá frétt The Guardian 11. janúar).
Greinasafn fyrir merki: Skotland
E. coli nýtt til að binda kolefni
Vísindamenn við háskólann í Dundee í Skotlandi hafa komist að því að hinn algengi saurgerill E. coli getur breytt koltvísýringi úr andrúmsloftinu í maurasýru. Við súrefnissnauðar aðstæður myndar bakterían svonefnt FHL-ensím sem gerir þetta efnahvarf mögulegt. Þetta ferli gengur afar hægt fyrir sig við venjulegar aðstæður en sé bakterían sett í blöndu af koltvísýringi og vetni við 10 loftþyngda þrýsting hvarfast allur tiltækur koltvísýringur í maurasýru á skömmum tíma. Þessi uppgötvun kann að opna nýjar leiðir í kolefnisbindingu, enda er maurasýra vökvi sem auðvelt er að geyma og er auk þess nýtanlegur á ýmsan hátt.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Dundee 8. janúar).
Skotar stefna að 66% samdrætti í losun fyrir árið 2032
Ríkisstjórn Skotlands kynnti á dögunum áform sín um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 66% fyrir árið 2032 frá því sem var 1990. Með þessu telja stjórnvöld að Skotland festi sig í sessi meðal fremstu þjóða heims í þessum efnum. Til að ná markmiðinu er ætlunin að gera orkugeirann óháðan kolefni, ná 80% hlutfalli í húshitun með kolefnissnauðum orkugjöfum, koma hlutfalli nýskráðra visthæfra fólksbíla og flutningabíla upp í 40%, endurheimta 250.000 hektara af votlendi og stækka skóga um a.m.k. 15.000 hektara á ári. Umhverfisverndarfólk fagnar þessum áformum en gagnrýnir að framkvæmdaáætlanir vanti, að gert sé ráð fyrir að kolefnisbinding sé hluti af lausninni þótt óvissa sé um árangur hennar og að ekki sé kveðið skýrt á um bann við bergbroti (e. fracking).
(Sjá frétt BBC 19. janúar).
RBS dregur verulega úr „svörtum fjárfestingum“
Á síðasta ári dró Royal Bank of Scotland úr fjárfestingum í olíu- og gasvinnslufyrirtækjum um 70% og tvöfaldaði á sama tíma lán til uppbyggingar í endurnýjanlegri orku. Bankinn hefur hingað til verið ein helsta uppspretta fjármagns til leitar og vinnslu jarðefnaeldsneytis en félagasamtök sem berjast gegn loftslagsbreytingum hafa beitt miklum þrýstingi til að knýja fram breyttar áherslur. Þessi stefnubreyting bankans hefur einkum áhrif á fyrirtæki í Norður-Ameríku og Asíu en bankinn mun m.a. hætta öllum viðskiptum við fyrirtæki í Kanada sem vinna olíu úr olíusandi. Sú þróun að bankar og aðrar stofnanir dragi úr svörtum fjárfestingum tengist vissulega einnig lækkandi olíuverði og þ.a.l. verri stöðu fyrirtækja í olíu- og gasvinnslu. Óvíst er hvernig þessir aðilar munu bregðist við ef markaðurinn styrkist á næstu misserum.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).
Fljótandi vindmyllur við Skotland
Ríkisstjórn Skotlands hefur veitt leyfi fyrir stærsta fljótandi vindorkugarði heims sem olíurisinn Statoil ætlar að setja upp út af austurodda Skotlands við Peterhead. Þarna verður komið fyrir fimm fljótandi 6 MW vindmyllum og er vonast til að þær geti samtals framleitt 135 GWst af raforku á ári, sem nægir u.þ.b. 20 þúsund heimilum. Ætlunin er að hefjast handa við verkefnið á næsta ári. Með þessu vill Statoil sýna fram á að tæknin sé samkeppnishæf, en fljótandi vindorkugarðar eru frábrugðnir hefðbundnum vindorkugörðum í hafi að því leyti að vindmyllurnar standa ekki á botni, heldur fljóta þær í yfirborðinu, eru tengdar saman með rafmagnsköplum og haldið stöðugum með akkerum. Tæknin nýtist þar af leiðandi á mun dýpri hafsvæðum en ella. Rannsóknir benda til að stofnkostnaður stórra verkefna af þessu tagi geti farið niður í 85 sterlingspund/MWst, en meðalkostnaður við botnfasta vindorkugarða er um 112 pund/MWst.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Bergbrot bannað í Skotlandi
Skoska ríkisstjórnin tilkynnti í gær um tímabundið bann við bergbroti til gasvinnslu. Með þessu vill ríkisstjórnin gefa almenningi, frjálsum félagasamtökum og öðrum færi á að koma skoðunum sínum á framfæri, auk þess sem yfirvöld fá tíma til að fara yfir rannsóknir á áhrifum gasvinnslu á umhverfi og samfélag. Engin starfsleyfi fyrir óhefðbundna olíu- og gasvinnslu verða gefin út fyrr en ríkisstjórn Skotlands hefur tekið endanlega ákvörðun um slíka vinnslu, byggða á heildstæðu mati. Með þessu fylgir Skotland í fótspor Frakklands, Írlands, Hollands og New York ríkis, sem öll hafa stöðvað bergbrot til gasvinnslu. Náttúruverndarsamtök og önnur frjáls félagasamtök fagna banninu og er haft eftir talsmanni Vina jarðar (Friends of the Earth) að samtökin hafi fulla trú á að bergbrot verði bannað varanlega eftir að ríkisstjórnin hefur farið yfir þau gögn sem liggja fyrir um áhrif vinnslunnar á umhverfi og lýðheilsu.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Skotar leggja gjald á plastpoka
Skoska þingið hefur samþykkt að sérstakt gjald verði lagt á sölu einnota plastpoka frá og með 20. október næstkomandi. Gjaldið verður a.m.k. 5 bresk pens (um 10 ísl. kr.) á hvern poka og mun peningurinn renna til góðgerðarmála. Yfirvöld vona að gjaldtakan leiði til aukinnar umhverfisvitundar og fái fólk til að nota margnota poka eða nota hvern plastpoka oftar. Samtökin Zero Waste Scotland munu vinna með yfirvöldum og söluaðilum að innleiðingu gjaldsins.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Taktu afgangana með þér heim!
Afgangapokar (e. doggy bags) verða aðgengilegir og sýnilegir á skoskum veitingahúsum í nýju tilraunaverkefni samtakanna Zero Waste Scotland sem miðar að minnkun matarúrgangs á veitingahúsum. Samtökin áætla að ein af hverjum sex máltíðum sem pantaðar eru á veitingahúsum í landinu endi sem úrgangur og vilja með „Good-to-Go“ verkefninu hvetja fólk til að biðja um ílát fyrir matarafganga til að minnka matarúrgang og þau neikvæðu umhverfisáhrif sem slíkur úrgangur hefur í för með sér. Í rannsókn samtakanna kemur fram að um 75% veitingahúsagesta vilji að veitingahús bjóði upp á slík ílát en um 50% kváðust ekki þora að spyrja um þau að máltíð lokinni, enda væri slíkt ekki viðtekin venja í samfélaginu. Tilraunaverkefnið hófst á veitingahúsinu Two Fat Ladies í Glasgow í síðustu viku. Vonast er til að í framhaldinu verði heimtaka matarafganga að viðtekinni venju í Skotlandi.
(Sjá frétt EDIE 24. mars).
Skotar stofna 720 milljarða króna endurvinnslusjóð
Skosk stjórnvöld hafa sett á laggirnar sérstakan lánasjóð með stofnfé upp á 3,8 milljarða sterlingspunda (um 720 milljarða ísl. kr) til að styðja við ný verkefni sem ætlað er að auðvelda fyrirtækjum að þróa tækni og byggja upp aðstöðu fyrir flokkun, viðgerðir og endurvinnslu textílúrgangs, hjólbarða, plasts, glers, matarleifa, raftækjaúrgangs, gifsplatna o.fl. Með þessu vonast stjórnvöld til að úrgangi verði í auknum mæli breytt í verðmætari efni, á sama tíma og dregið er úr losun gróðurhúsalofttegunda.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Fullkomnasta glerendurvinnslustöð Evrópu rís í Skotlandi
Endurvinnslufyrirtækið Viridor hyggst opna nýja endurvinnslustöð fyrir gler í Newhouse í Lanarkskíri í Skotlandi á sumri komanda. Stöðin, sem sögð er verða sú fullkomnasta í Evrópu, mun geta endurunnið 200.000 tonn af gleri árlega. Stofnkostnaður stöðvarinnar verður um 25 milljónir sterlingspunda (tæpir 4,8 milljarðar ísl.kr.). Með tilkomu stöðvarinnar skapast ný störf og skoskir vískýframleiðendur verða minna háðir innflutningi á umbúðum en nú er, auk þess sem litið er á stöðina sem mikilvægan lið í áætlunum Skota um að útrýma úrgangi.
(Sjá frétt EDIE 23. janúar).