Gert er ráð fyrir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kynni í þessari viku 10 aðgerðir sem ætlað er að styðja við loftslagsmarkmið þarlendra stjórnvalda. Ein þessara aðgerða verður væntanlega bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt nýrri skýrslu hugveitunnar New Automotive gæti þetta bann minnkað losun frá umferð úr núverandi 68 milljónum tonna koldíoxíðígilda niður í 46 milljónir tonna árið 2030, sem er eftir sem áður langt frá þeim 32,8 milljónum tonna sem stefnt er að.Til þess að hafa tilætluð áhrif þyrfti bannið að taka gildi árið 2026, eða þá að grípa þyrfti til annarra aðgerða til að minnka notkun bíla af þessu tagi. Bann 2030 myndi þýða að í mörg ár eftir það verði stór floti bensín- og dísilbíla á götunum.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Greinasafn fyrir merki: dísilolía
Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030
Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).
Cambridge fyrst með varúðarmerkingar á bensíndælum
Borgarstjórnin í Cambridge í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur samþykkt að setja varúðarmerkingar á allar bensín- og dísildælur í borginni í þeim tilgangi að minna á að brennsla á jarðeldsneyti hefur áhrif á loftslag, umhverfi og heilsu. Með þessu verður Cambridge fyrsta borgin í heiminum þar sem skylt verður að setja upp slíkar merkingar. Varaborgarstjórinn Jan Devereux lagði fyrst fram tillögu um slíkar merkingar árið 2016, en sú tillaga náði ekki fram að ganga. Nú hafa áherslur í borgarstjórninni hins vegar breyst og því var tillagan samþykkt á dögunum. Merkingarnar, sem eru í raun sambærilegar við merkingar á tóbaksumbúðum, verða væntanlega settar upp á næstu mánuðum.
(Sjá frétt Gröna bilister 11. febrúar).
Úreldingarstyrkir fyrir gamla dísilbíla
Dönsk stjórnvöld hafa lagt 26 milljónir danskra króna (rúmlega 480 millj. ísl. kr.) í svonefndan „Dísilsjóð“ til að stuðla að úreldingu dísilbíla sem skráðir voru fyrir 1. janúar 2006. Féð verður notað til að hækka skilagjald á umræddum bílum tímabundið úr 2.200 DKK (40.700 ISK) í 5.000 DKK (92.500 ISK). Þetta hækkaða skilagjald dugar til úreldingar á rúmlega 9.000 bílum og verður í boði á tímabilinu 24. febrúar til 31. mars nk. Greitt verður út á meðan peningarnir endast samkvæmt meginreglunni „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. febrúar).
Venjulegur dísilbíll mengar meira en trukkur
Nýir dísildrifnir fólksbílar losa um tífalt meira af köfnunarefnisoxíðum (NOx) út í andrúmsloftið fyrir hvern lítra eldsneytis en nýir flutningabílar og rútur, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðaráðsins um hreina flutninga (International Council on Clean Transportation (ICCT)). Þetta skýrist af því að beitt er mun strangari aðferðum við mælingar á mengun frá stórum ökutækjum en fólksbílum. Mengun frá fólksbílum er mæld í frumgerðum á rannsóknarstofu en við mælingar á trukkum eru notuð færanleg mælitæki við raunverulegar aðstæður. Trukkar sem prófaðir voru í Þýskalandi og Finnlandi reyndust losa um 210 mg af NOx á kílómetra, en losun frá nýjum fólksbílum var um 500 mg/km. Þetta jafngildir tíföldum mun á hvern lítra þegar tekið hefur verið tillit til eldsneytisnotkunar bílanna. Þessar niðurstöður sýna að bílaframleiðendur ráða yfir tækninni sem þarf til að draga úr mengun en hafa látið hjá líða að nota hana. Áform eru uppi um að herða reglur um mengunarmælingar á fólksbílum í framhaldi af „dieselgate“-hneykslinu þar sem Volkswagen var í aðalhlutverki.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Meira en 1.000 mengunarsíulausir díselbílar í Bretlandi
Frá því á árinu 2014 hafa bifreiðaskoðunarstöðvar í Bretlandi fundið meira en 1.000 díselbíla sem ekki eru með lögbundnar mengunarsíur. Síðan 2009 hafa mengunarsíur verið lögbundnar í nýjum díselbílum til að draga úr svifryksmengun í útblæstri. Síurnar eiga það hins vegar til að stíflast með tilheyrandi vandræðum og því hafa margir bíleigendur brugðið á það ráð að borga verkstæðum fyrir að fjarlægja síurnar. Sum verkstæði bjóða einnig upp á þá þjónustu að fjarlægja hluta af síunni þannig hún verði óvirk og stíflist ekki. Þessi breyting sést ekki við hefðbundna bifreiðaskoðun og telur Samgöngustofa Bretlands líklegt að tugir eða hundruð þúsunda bíla aki nú um með gagnslausar síur. Samkvæmt breskri löggjöf er ekki ólöglegt að fjarlægja síur en akstur síulausra bíla er ólöglegur. Áætlað er að árlega deyi um 29.000 manns í Bretlandi fyrir aldur fram úr sjúkdómum sem rekja má til svifryksmengunar. Þarlend yfirvöld hafa því miklar áhyggjur af áhrifum ólöghlýðni bíleigenda á lýðheilsu.
(Sjá frétt the Guardian 17. apríl).
Dísilreykur gæti truflað býflugur
Efni í dísilreyk geta torveldað býflugum að greina blómalykt og þannig haft neikvæð áhrif á frævun plantna og þar með á fæðuöryggi jarðarbúa, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við háskólann í Southampton. Svo virðist sem köfnunarefnisoxíð (NOx) í reyknum eyði tileknum lyktarefnum þannig að þau verði ekki lengur merkjanleg. Áhrifin eru því væntanlega ekki bundin við dísilreyk, heldur má gera ráð fyrir að sama gildi um reyk frá annarri brennslu. Rannsóknin sem um ræðir var gerð á tilraunastofu, þannig að eftir er að sýna fram á að hið sama gildi úti í náttúrunni.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).