2020 er búið

Árið 2020 er liðið í aldanna skaut og umhverfisfróðleikssíðan 2020.is verður ekki uppfærð framar að óbreyttu. Síðan var sett á laggirnar síðsumars 2012. Heiti hennar vísar til ártalsins 2020 og „mikilvægis þess að einstaklingar, fyrirtæki og stjórnvöld nái að snúa þróun umhverfismála til betri vegar fyrir þann tíma“, eins og það var orðað þegar síðunni var fylgt úr hlaði. Vafi leikur á hvort það hafi gengið eftir. Hugsanlega verður síðan einhvern tímann endurvakin í einhverri mynd, en ákvarðanir um það bíða betri tíma. Hvað sem öðru líður verður fróðleikurinn sem þegar finnst á síðunni aðgengilegur enn um sinn.

Vísbendingar um tengsl loftmengunar við Alzheimer, Parkinson og MND

Vísindamenn við Háskólann í Lancaster hafa sýnt fram á tengsl loftmengunar við hrörnunarsjúkdómana Alzheimer, Parkinson og MND. Málmríkar nanóagnir frá umferð og merki um forstig sjúkdómanna fundust í heilum ungmenna frá Mexíkóborg sem búið höfðu við mikla loftmengun, en hvorki agnirnar né sjúkdómsmerkin fundust í heilum ungmenna frá minna menguðum svæðum. Rannsóknin náði til samtals 186 ungmenna á aldrinum 11 mánaða til 27 ára, sem öll höfðu látist af orsökum sem ekki tengdust efni rannsóknarinnar. Merki um forstig sjúkdómanna fundust á öllu aldursbilinu.
(Sjá frétt Science Daily 6. október).

Langt hlé

Hítarvatn 2017Eins og sjá má hefur vefsíðan 2020.is legið óhreyfð um nokkurt skeið. Þessu veldur annríki ritstjóra við launuð störf. Ekki eru horfur á að úr rætist fyrr en með haustinu (2018). Lesendur eru beðnir velvirðingar á þessu ástandi.

Jólakveðja

hvittrebjVefsíðan 2020.is óskar lesendum sínum gleðilegra jóla, þakkar þeim samfylgdina á árinu og óskar þeim og afkomendum þeirra friðar og farsældar. Eins og lesendur hafa tekið eftir hefur nær engin virkni verið á síðunni síðustu tvo mánuði. Þetta stafar af annríki ritstjóra við önnur verk, sem hafa forgang þegar á reynir. Þetta ástand mun vara í það minnsta út janúar. Beðist er velvirðingar á þeim tómleika sem þetta kann að valda.

Hættan á kjarnorkuslysum vanmetin

nuclear-dangerLíkurnar á kjarnorkuslysum á borð við þau sem urðu í Chernobyl í Úkraínu 1986 og í Fukushima í Japan 2011 eru vanmetnar að því er fram kemur í greinum sérfræðinga um áhættumat sem birtust nýlega í tímaritunum Energy Research & Social Science og Risk Analysis. Vissulega er tíðni kjarnorkuslysa á niðurleið en slysið sem verða eru þeim mun stærri. Höfundar greinanna telja meira en 50% líkur á að slys af svipaðri stærð og í Chernobyl og Fukushima verði einu sinni til tvisvar á öld og meira en 50% líkur á að slys á borð við það sem varð á Þriggjamílnaey í Bandaríkjunum 1979 verði á 10-20 ára fresti. Auk heldur sé aðferðum sem notaðar eru til að meta alvarleika og kostnað af kjarnorkuslysum áfátt. Þess má geta að heildartjón vegna slyssins í Chernobyl er nú metið á 259 milljarða dollara eða sem samsvarar tæplega 30 þúsund milljörðum ísl. kr.
(Sjá frétt Science Daily 19. september).