„Oxo-degradable“ plast verði bannað

Rúmlega 150 samtök og fyrirtæki, þ.á.m. Marcs & Spencer, Unilever og Pepsi, hafa sameinast um áskorun Ellen MacArthur stofnunarinnar til stjórnvalda um heim allan að banna notkun á ildislífbrjótanlegu plasti (e. oxo-degradable plastics), í það minnsta þar til óháðir rannsakendur hafi sýnt fram á að umrætt plast brotni fyllilega niður við ólíkar aðstæður á nógu skömmum tíma til að koma í veg fyrir uppsöfnun plastagna í umhverfinu. Plast af þessu tagi er notað í vaxandi mæli í plastpoka og aðrar umbúðir, en vísbendingar eru uppi um að staðhæfingar um niðurbrot þess eigi ekki við rök að styðjast. Að sögn talsmanns Ellen MacArthur stofnunarinnar er þetta efni hvorki endingargott né nothæft í endurvinnslu eða jarðgerð, og því eigi það ekki heima í hringrásarhagkerfinu. Þess má geta að ildislífbrjótanlegt plast hefur verið bannað í Frakklandi frá árinu 2015.
(Sjá frétt GreenBiz.com 7. nóvember).

Vökvað með skólpi á Samsø

Á dönsku eyjunni Samsø er verið að gera tilraun með að nýta fráveituvatn til vökvunar. Venjulega leiðin í þessu er að vinna köfnunarefni og fosfór úr vatninu áður en því er sleppt út í viðtaka og nýta þessi efni síðan í áburðarframleiðslu af einhverju tagi. Nýjungin sem hér um ræðir felst í að nota fráveituvatnið beinlínis sem áburð en fyrst eru þó hreinsuð úr því hættuleg efni. Með þessu sparast orka sem annars fer í fyrsta lagi í að ná næringarefnunum úr vatninu og í öðru lagi í að framleiða áburð úr þeim. Fyrst um sinn verður þetta vatn aðeins notað á tún og önnur svæði sem ekki eru nýtt beint í matvælaframleiðslu, en í framtíðinni standa vonir til að hægt verði að útvíkka notkunina. Hópur sem nefnir sig Minor Change Group stendur að verkefninu með stuðningi Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. ágúst).

Helmingur af öllu gulli í farsímum fer forgörðum

simiUm 50% af öllu því gulli sem til staðar er í farsímum fer forgörðum eftir að hætt er að nota símana. Brýnt er að lengja endingartíma síma og bæta söfnun þeirra að notkun lokinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kortlagningu á verðmætum málmum í farsímum, sem sagt er frá í októberhefti tímaritsins Resources, Conservation and Recycling. Í gulli liggja 80% af þeim verðmætum sem finna má í málminnihaldi farsíma, en þar er einnig nokkuð af öðrum dýrmætum málmum, svo sem kopar, silfri og palladíum. Ef núverandi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir að árið 2050 verði endurnýtingarhlutfall gulls úr farsímum komið niður í 20%. Þessi þróun stangast á við áætlanir ríkja Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi og mun leiða til mun hraðari eyðingar auðlinda en þörf er á, þ.e. ef ekki verður gripið til aðgerða til að draga úr sóuninni.
(Sjá fréttabréf ESB, Science for Environmental Policy, 16. september).

Ósýnileg, útfjólublá strikamerki til að flokka plastúrgang

nextek-prism-containers-1-copy-1024x768Bresk rannsókn á möguleikum þess að nýta flúrmerki á plastvörur til að einfalda flokkun plastúrgangs fékk nýlega 770.000 punda framhaldsstyrk (um 140 milljónir ísl. kr.) frá breskum stjórnvöldum og fleiri aðilum. Verkefnið miðar að því að þróa flúrefni úr málmoxíði og púðri úr gömlum flúrperum, sem hægt er að nota í eins konar „ósýnileg strikamerki“ sem notuð verða á plastvörur. Ef verkefnið heppnast verður hægt að flokka plastfjölliður á einfaldan, ódýran og fljótlegan hátt í flestum flokkunarstöðvum fyrir úrgang og auka þannig verulega efnisendurvinnslu á plasti. Fyrstu tilraunir með merkin gáfu allt að 97% flokkunarhlutfall sem skilaði um 95% hreinleika. Flokkun plasts er nokkuð flókin þar sem mikið er um samsett efni auk þess sem ógerlegt er að greina milli mismunandi fjölliða á einfaldan hátt. Hin nýja tækni er þróuð þannig að hægt verði að bæta henni við innrauða flokkunartækni sem er nú þegar víða notuð í flokkunarstöðvum. Þar með lækkar stofnkostnaðurinn.
Sjá frétt Recycling International í dag).

Dönsk fyrirtæki gætu grætt milljarða á hringrásarhagkerfinu

money-tree_1170x659Aukin áhersla á hringrásarhagkerfi gæti aukið þjóðarframleiðslu í Danmörku um 0,8-1,4%, skapað 7.000-13.000 ný störf og aukið nettóútflutning um 3-6% miðað við árið 2035, að því er fram kemur í nýrri úttekt frá Ellen MacArthur stofnuninni. Áherslur af þessu tagi gætu m.a. aukið tekjur matvælafyrirtækja um samtals 3-6 milljarða danskra króna á ári (56-112 milljarða ísl. kr.). Samhliða þessu myndi notkun nýrra hráefna minnka og kolefnisfótspor Dana sömuleiðis. Hringrásarhagkerfið miðar að því að hámarka verðmæti aðfanga. Þetta er m.a. hægt að gera með aukinni endurnotkun og endurvinnslu, bættri vöruhönnun og áherslu á ný viðskiptalíkön sem byggja á samnýtingu og kaupleigu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 26. nóvember).

Viðgerðir og endurnotkun í brennidepli

73860Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinnur að nýrri áætlun sem ætlað er stuðla að því að hlutir, allt frá raftækjum til bygginga, séu lagfærðir eða endurunnir í stað þess að fleygja þeim og taka nýja í notkun í þeirra stað. Þessu á m.a. að ná fram með því að skylda framleiðendur til að gefa ráð um viðgerðir og niðurrif í notkunarleiðbeiningum í stað þess að tilgreina einungis hvernig staðið skuli að förgun. Sjónum verður sérstaklega beint að nýtingu á plasti, en um helmingur alls þess plasts sem tekið er í notkun endar í urðun eða á hafi úti með tilheyrandi hættu fyrir dýralíf. Vonast er til að þetta ýti undir vöxt hringrásarhagkerfisins á kostnað einnotahagkerfisins sem víða er við lýði. Gert er ráð fyrir að umrædd áætlun líti formlega dagsins ljós í næsta mánuði.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Rusl verður að efnavöru

wastetochemicalsSamtök fyrirtækja um leiðir til að nýta heimilisúrgang til framleiðslu á efnavörum vilja auka samstarf efnafyrirtækja og vísindamanna með það að markmiði að finna leiðir til að nýta úrgang til efnavinnslu og styðja þannig við hringrásarhagkerfið. Verkefnið er upprunnið í Hollandi og þar hyggjast samtökin opna fyrstu úrgangsefnaverksmiðjuna á næstu árum. Verksmiðjan mun væntanlega framleiða vörur á borð við ammoníak og metanól úr úrgangi. Fyrirtækin sjá sér mikinn hag í að nýta úrgang til framleiðslu efnavöru þar sem úrgangur er ódýrt hráefni sem iðulega er til trafala í þéttbýlum löndum á borð við Holland.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Hringrásarhagkerfið gæti skapað 100.000 ný störf í Svíþjóð

circular_economy_160Með stefnumótun í anda hringrásarhagkerfisins (e. circular economy) væri hægt að skapa 100.000 ný störf á sænskum vinnumarkaði og minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 70% fram til ársins 2030. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Rómarklúbbsins (e. The Club of Rome), sem byggð er á raundæmarannsókn sem gerð var í Svíþjóð. Þessum árangri mætti ná með breyttum áherslum yfirvalda í stefnumótun og ráðstöfun fjármuna. Mikilvægustu áhersluflokkarnir eru taldir vera þrír, þ.e.a.s. endurnýjanleg orka, orkunýtni og bætt auðlindanýting. Sérstaklega sé mikilvægt að bæta nýtingu auðlinda, svo sem í námuvinnslu, svo og að lengja líftíma vöru með betri viðgerðarþjónustu, hugbúnaðarþjónustu, þróun endurvinnslutækni o.s.frv. Með aukinni áherslu á viðhald og endingu og með kaupum á þjónustu í stað vöru skapast mun fleiri störf en í frumvinnslu og álag á auðlindir minnkar til muna.
(Sjá frétt the Guardian 15. apríl).

Carlsberg skálar með lífbrjótanlegum bjórflöskum

Bjórframleiðandinn Carlsberg ætlar að þróa og framleiða fyrstu 100% lífbrjótanlegu bjórflöskuna, en samstarfið er hluti af framtaksverkefni Carlsberg um hringrásarhagkerfi. Græntrefjaflaskan verður framleidd úr viðartrefjum af sjálfbærum uppruna og hefur fyrirtækið gert 3ja ára samstarfssamning um þetta verkefni við umbúðafyrirtækið ecoXpac, Nýsköpunarsjóð Danmerkur og Tækniháskóla Danmerkur. Rekja má um 42% af kolefnisspori Carlsberg til umbúða og ætti þetta framtak því að geta dregið verulega úr losun fyrirtækisins. Vonir standa til að verkefnið marki tímamót í umbúðamenningu og verði þannig mikilvægt skref í átt að hringrásarhagkerfi án úrgangs.
(Sjá frétt EDIE 3. febrúar).