Matarumbúðir úr pappa hafa minnsta kolefnissporið

Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Fyrstu Svansmerktu drykkjarumbúðirnar

Umbúðafyrirtækið Tetra Pak í Svíþjóð varð á dögunum fyrst allra fyrirtækja til að fá vottun Norræna svansins fyrir drykkjarumbúðir. Ef allir Norðurlandabúar myndu velja þessar tilteknu drykkjarumbúðir (Tetra Rex® Plant-based) í stað umbúða sem nú eru notaðar í sama tilgangi, myndi losun koldíoxíðs minnka um 30.000 tonn á ári. Meðal krafna sem Svanurinn gerir til drykkjarumbúða er að þær samanstandi af a.m.k. 90% endurnýjanlegu efni (fernur) eða a.m.k. 80% endurunnu efni (gler,ál) eða a.m.k. 80% endurunnu/endurnýjanlegu efni (plast). Auk þess eru gerðar strangar kröfur um efnanotkun o.fl.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 23. janúar).

Lasermerki í stað límmiða á ávexti og grænmeti

3072-160Sænska matvörukeðjan ICA setti nýverið í gang tilraun til að merkja staka ávexti og grænmeti í verslunum sínum með lasertækni í stað límmiða. Tæknin virkar þannig að lasergeisli eyðir litarefni í hýði ávaxtarins eða grænmetisins og þannig verður til varanleg merking án þess að það hafi önnur áhrif á vöruna. Hægt er að spara mikið af umbúðum með því að selja ávexti og grænmeti í lausu, en þá þarf að merkja hvern ávöxt um sig til að uppfylla kröfur, m.a. um rekjanleika lífrænnar vöru. Límmiðarnir sem þessi nýja tækni getur leyst af hólmi eru ekki stórir en með þessari aðferð sparast engu að síður mikið af plasti, lími og bleki þegar á heildina er litið. Að sögn talsmanns ICA sparast t.d. 200 km af 30 cm breiðri plastræmu á ári við það eitt að merkja öll lífrænt vottuð avókadó í verslunum keðjunnar á þennan hátt. Aðilar á matvörumarkaði í Hollandi og Bretlandi eru einnig að þreifa sig áfram með þessa notkun lasertækninnar, sem nefnd hefur verið „natural branding“.
(Sjá frétt The Guardian 16. janúar).

Umbúðalaus verslun opnuð í Kaupmannahöfn

crate-895939-960-720Fyrsta umbúðalausa verslunin á Norðurlöndunum verður opnuð í Kaupmannahöfn á næstu vikum, en búðin er fjármögnuð með hópfjármögnun (e. crowdfunding). Hingað til hefur yfirleitt aðeins verið hægt að kaupa þurrvöru svo sem grjón, kornmeti o.þ.h. án umbúða, en nýja verslunin mun einnig selja vörur á borð við hunang, vín, sápu og matarolíu án umbúða. Viðskiptavinir taka þá margnotaumbúðir með sér að heiman eða taka þátt í skilagjaldskerfi búðarinnar þar sem þeir geta keypt flösku og skilað henni fyrir hreina flösku við næstu heimsókn. Árlega falla til um 156 kg af umbúðaúrgangi á hvern íbúa innan ESB og er markmið verslunarinnar að lækka þessa tölu. Um leið er gert ráð fyrir að matarsóun minnki með hentugri stærðareiningum, auk þess sem hægt verður að lækka kílóverð lífrænna vara með því að selja þær í stærri einingum.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Ýmsar leiðir færar til að draga úr matarsóun

LífræntDKBetri umbúðahönnun, litakóðar fyrir réttar geymsluaðferðir og nýting „ljótra“ matvæla í stóreldhúsum eru meðal þeirra aðgerða sem stungið er upp á í þremur nýjum skýrslum Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) um matarsóun. Í skýrslunum er lögð áhersla á að matarsóun á sér stað á öllum stigum lífsferils matvöru og því henti mismunandi aðgerðir mismunandi aðilum (framleiðendum, heildsölum, veitingahúsum, heimilum o.s.frv.). Í sérstakri skýrslu um umbúðir er bent á hvernig umbúðir fyrir brauð, grænmeti og ávexti geta haft áhrif á matarsóun og kynntar 23 hugmyndir að hentugri umbúðum. Í annarri skýrslu eru kynntar niðurstöður rannsóknar á hagkvæmni þess að nota „ljót“ matvæli í veitingahúsum og stóreldhúsum. Síðasta skýrslan inniheldur niðurstöður rannsóknar á litakóðum fyrir geymsluaðferðir en samkvæmt þeim geta litakóðar auðveldað neytendum að velja réttar geymsluaðferðir og draga þannig úr sóun.
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 11. apríl).

Einnota skálar úr laufblöðum

teak_bowlsHópur vísindamanna við tælenska Naresuan háskólann hefur þróað einnota, vatnsþéttar og lífbrjótanlegar matarskálar úr laufblöðum. Laufblöð tekktrjáa reyndust best til þessara nota samkvæmt athugunum hópsins og sterkja var notuð til að gefa skálunum gljáa. Skálunum er ætlað að koma í stað frauðplastumbúða sem m.a. eru notaðar í miklum mæli undir skyndimat á matarhátíðum. Það gefur auga leið að skálarnar brotna auðveldlega niður í náttúrunni og hafa því yfirburði framyfir ill-niðurbrjótanlegar einnota umbúðir. Háskólinn bíður nú eftir einkaleyfi til að hægt verði að hefja markaðssetningu skálanna af fullum krafti.
Sjá frétt Bangkok Post 31. mars).

Pepsi stórgræðir á umhverfisstarfinu

29087 (160x107)Aukin áhersla á umhverfismál hefur sparað gosdrykkjarisanum Pepsi rúmlega 375 milljónir sterlingspunda (rúmlega 72 milljarða ísl. kr.) frá því á árinu 2010. Sem dæmi um árangur má nefna að á árinu 2014 notaði Pepsi 23% minna vatn á hverja framleiðslueiningu en árið 2006 og á sama tíma batnaði orkunýting bílaflota fyrirtækisins um 16%, m.a. vegna fjölgunar ökutækja sem ganga fyrir rafmagni og lífeldsneyti. Þá  minnkaði umbúðanotkun fyrirtækisins um 40.000 tonn á milli áranna 2013 og 2014 og á sama tíma jókst notkun umbúða úr endurunnu efni um 23%. Að sögn Indra Nooyi, forstjóra Pepsi, er sjálfbærni ekki eitthvað sem fyrirtæki styrkja með hluta af hagnaði sínum, heldur stuðlar áhersla á sjálfbærni að auknum hagnaði. Þrátt fyrir þennan mikla árangur liggur Pepsi undir ámæli vegna óábyrgrar notkunar sinnar á pálmaolíu, en ætlunin mun vera að bæta þar úr fyrir árslok.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Vill banna BPA í kassakvittunum

BPA_Sverige_160Ráðgjafi sænska umhverfisráðuneytisins hefur lagt til að bannað verði að nota BPA (Bisfenól-A) í kassakvittanir og að dregið verði í áföngum úr notkun efnisins í umbúðir fyrir matvæli og henni hætt með öllu fyrir 2020. Í skýrslu ráðgjafans kemur fram að einstaklingar sem vinni við afgreiðslustörf séu margir hverjir ungir að árum og því viðkvæmari en ella fyrir hormónaraskandi efnum á borð við BPA, en afgreiðslufólk sé í mikilli snertingu við efnið þar sem það sé að finna í kassakvittunum. Samhliða þessu ætti einnig að banna BPA í öðru prentuðu efni svo sem í aðgöngumiðum af ýmsu tagi. Sænsk lög um BPA þurfi þó að vera í takti við löggjöf ESB, en líklegt þykir að á þessu ári verði tekin ákvörðun á vettvangi sambandsins um skorður við notkun BPA í neytendavörur.
(Sjá frétt Miljö Aktuellt 16. janúar).

Pappírsbönd leysa plastvír af hólmi

MarkSpencerVerslunarkeðjan Marks&Spencer (M&S) hefur tekið í notkun festingar úr pappír í staðinn fyrir plastvír sem hingað til hefur verið mikið notaður til að festa leikföng í umbúðir. Plastvírinn er ekki aðeins úr óendurvinnanlegu efni, heldur er hann líka erkióvinur margra barna þar sem erfitt getur reynst að ná leikföngunum úr umbúðunum. Nýju böndin er gerð úr sérstökum pappírstrefjum frá fyrirtækinu BillerudKorsnäs. Böndin gegna hlutverki sínu vel en samt er auðvelt að slíta þau, auk þess sem þau eru gerð úr 100% FSC-vottuðum pappír sem auðvelt er að endurvinna.
(Sjá frétt EDIE 27. október).

Adidashælar úr matarumbúðum

adidas skorHælstykki í Adidasskóm úr vor- og haustlínunni 2014 verða að hálfu úr endurunnum matarumbúðum úr plasti. Um er að ræða stykki sem sett er í sólann við hælinn til að veita stuðning og er venjulega úr hitadeigu gúmmíi og pólýstýren. Vegna hækkandi verðs þessara hráefna fór birginn Framas að leita að staðgengilsefnum og þá kom í ljós að mikill fjárhagslegur og umhverfislegur sparnaður felst í að nýta endurunnin pólýstýren efni. Framas framleiðir um 110 milljónir slíkra stykkja árlega og gerir ráð fyrir að með þessari nýju aðferð megi koma í veg fyrir urðun á um 1.500 tonnum af pólýstýreni á ári.
(Sjá frétt EDIE í gær).