Vísindamenn við Háskólann í Lancaster hafa sýnt fram á tengsl loftmengunar við hrörnunarsjúkdómana Alzheimer, Parkinson og MND. Málmríkar nanóagnir frá umferð og merki um forstig sjúkdómanna fundust í heilum ungmenna frá Mexíkóborg sem búið höfðu við mikla loftmengun, en hvorki agnirnar né sjúkdómsmerkin fundust í heilum ungmenna frá minna menguðum svæðum. Rannsóknin náði til samtals 186 ungmenna á aldrinum 11 mánaða til 27 ára, sem öll höfðu látist af orsökum sem ekki tengdust efni rannsóknarinnar. Merki um forstig sjúkdómanna fundust á öllu aldursbilinu.
(Sjá frétt Science Daily 6. október).
Greinasafn fyrir merki: Nanó
Ný nanótækni breytir koldíoxíði í etýlen
Vísindamenn í Los Angeles hafa þróað sérstaka nanóvíra úr kopar sem nýtast sem hvatar í efnahvarfi sem breytir koldíoxíði í etýlen. Etýlen hefur hingað til verið framleitt úr jarðefnaeldsneyti, en efnið er m.a. notað í framleiðslu á plasti. Notkun nanóvíra úr kopar í þessu skyni er ekki ný uppfinning, en með breyttri lögun og áferð víranna hefur tekist að auka nýtingarhlutfallið úr 10% í 70%, auk þess sem minna myndast af aukaefnum á borð við vetni og metan. Aðferðin kann því að nýtast til að minnka losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið og breyta því í verðmæta vöru.
(Sjá frétt Science Daily 17. september).
Örplast lekur úr tepokum úr gerviefnum
Hópur vísindamanna í Kanada hefur sýnt fram á að tepokar úr gerviefnum gefa frá sér gríðarmikið af örplasti þegar þeir eru settir í sjóðheitt vatn. Talning með rafeindasmásjá leiddi í ljós að frá einum slíkum poka bárust u.þ.b. 14,7 milljarðar örplastagna, þar af um 3,1 milljarður nanóplastagna (minni en 100 nanómetrar (nm) í þvermál. (Til samanburðar er þvermál mannshárs um 75.000 nm)). Þessar tölur er mörgþúsund sinnum hærri en áður hefur sést í matvælum. Í tengslum við þetta voru könnuð áhrif mismunandi styrks þessara sömu plastagna á vatnaflær af tegundinni Daphnia magna. Flærnar lifðu tilraunina af en sýndu tiltekin líffærafræðileg og hegðunarleg frávik. Að sögn vísindamannanna þarf meiri rannsóknir til að draga ályktanir um áhrif þessara plastagna á heilsu manna.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 25. september).
Nanóagnir úr kolefni geta leyst sjaldgæfa málma af hólmi
Hægt er að nota grafen og aðra svipaða kolefnisbúta af nanóstærð í stað sjaldgæfra málma sem nú eru mikið notaðir í farsíma og ýmis önnur raftæki. Þetta er niðurstaða úr úttekt sem Rickard Arvidsson og Björn Sandén við Chalmersháskólann í Gautaborg hafa gert á fyrirliggjandi þekkingu á þessu sviði. Þeir félagar skoðuðu notkun 14 mismunandi málma og telja að hægt sé að nota kolefni í stað 13 þeirra, í það minnsta í mörgum tilvikum. Sjaldgæfir málmar eiga það sameiginlegt að finnast í litlu magni í jarðskorpunni og þess vegna stuðlar vinnsla þeirra að átökum um eignarhald og aðgang að auðlindinni. Þeir eru auk heldur erfiðir í endurvinnslu vegna þess hversu lítið magn af þeim er notað í hvern hlut. Hins vegar er til nóg af kolefni og úr því er hægt að vinna nanóagnir sem eru sterkar og góðir leiðarar, rétt eins og málmarnir. Slík efni mætti m.a.s. vinna úr lífmassa. Að mati Arvidsson og Sandén er stutt í að hægt verði að nota nanókolefni í stað málma á borð við indíum, gallíum, beryllíum og silfur. Gull var eini málmurinn af 14 sem hæpið var talið að skipta út fyrir kolefni.
(Sjá frétt á heimasíðu Chalmers 15. september).
Endurnýjanleg orka við tærnar á okkur!
Vísindamenn við Háskólann í Wisconsin-Madison (UW) hafa þróað ódýrt, endurnýjanlegt og endingargott gólfefni sem getur framleitt raforku úr fótataki þeirra sem um gólfið ganga. Uppistaðan í efninu eru nanótrefjar úr sellulósa sem nóg er af í viðarúrgangi og fleiri aukaafurðum úr jurtaríkinu og byggir raforkuframleiðslan á snertingu sérstaklega meðhöndlaðra trefja við ómeðhöndlaðar trefjar. Hver eining getur verið allt niður í 1 mm að þykkt og er hægt að byggja gólfefnið upp úr mörgum slíkum lögum. Aðferðin hentar einkar vel í stórmörkuðum og á öðrum fjölförnum stöðum, en þar ætti að vera hægt að framleiða umtalsvert magn af raforku með þessum hætti. Næsta verk vísindamannanna er að prófa efnið við raunverulegar aðstæður.
(Sjá frétt á heimasíðu UW í dag).
100 svansmerktar bílaþvottastöðvar í Danmörku
Á dögunum náði fjöldi svansmerktra bílaþvottastöðva í Danmörku hundraðinu, en til að fá vottun Svansins þurfa stöðvarnar að nota mun minna af vatni og skaðlegum efnum en gengur og gerist í atvinnugreininni. Þannig má svansmerkt bílaþvottastöð nota í mesta lagi 70 lítra af fersku vatni í hvern þvott, en reyndar getur vatnsnotkunin farið allt niður í 35-40 lítra. Þessi litla notkun byggir á því að stöðvarnar eru búnar hringrásarkerfi sem hreinsar vatnið þannig að hægt er að endurnota stóran hluta þess. Svansmerktar stöðvar mega ekki nota hreinsiefni með nanóögnum, skaðlegum flúorsamböndum eða efnum sem talin eru upp á lista ESB yfir hugsanlega hormónaraskara. Tiltekinn hluti hreinsiefnanna verður líka að vera svansmerktur. Olíufélagið OK hefur lagt mikla áherslu á að fá Svansvottun á bílaþvottastöðvar sínar í Danmörku, en OK rekur 99 af þeim 100 stöðvum sem komnar eru með vottun. Hvatinn að þessu er ekki aðeins umhverfislegur, heldur segja forsvarsmenn OK að svansmerktu stöðvarnar komi betur út í rekstri.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku 29. janúar).
Sólarrafhlöður úr rækjuskel
Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa þróað byltingarkennda aðferð til að framleiða sólfangara úr efnum sem finnast í rækju- og krabbaskeljum. Aðferðin byggir á nanótækni þar sem vatnsvarmakolun (e. hydrothermal carbonisation) er beitt til að framleiða kolefnisskammtadepla (e. carbon quantum dots (CQDs)) úr kítíni og kítósan úr skel. Grunneiningar sólfangaranna eru svo búnar til úr sinkoxíðnanóstöngum sem húðaðar eru með deplunum. Þetta er í fyrsta sinn sem lífmassi er notaður til framleiðslu á sólföngurum, en yfirleitt er notast við dýra málma á borð við rúten. Með þessari nýju aðferð er bæði dregið úr umhverfisáhrifum og kostnaði, þar sem uppistaðan í framleiðslunni eru afgangsefni úr annarri framleiðslu. Vonir standa til að í framtíðinni verði hægt að nota þessa tækni við framleiðslu á nær gegnsæjum sólarorkufilmum í glugga, hleðslutæki fyrir smáraftæki o.fl.
(Sjá frétt EDIE 19. febrúar).
Minni mengun frá flugeldum
Hægt er að draga verulega úr mengun frá flugeldum með því að nota nanótækni við framleiðslu þeirra. Með því móti er hægt að framkalla jafnmikinn ljósagang og hávaða þótt magn efna sé minnkað um þrjá fjórðu frá því sem nú tíðkast. Áður en slíkir flugeldar verða settir á markað þarf þó að huga nánar að þeirri áhættu sem kann að fylgja notkun nanóagna í þessum iðnaði, sem ekki er þekktur fyrir að setja öryggismál á oddinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Alþjóðasamtaka efnaverkfræðinga IChemE í gær).
Silfur getur safnast upp í lífverum
Silfur, m.a. í nanóformi, er í auknum mæli notað sem bakteríuvörn í ýmsar neytendavörur, svo sem skó, sokka, skurðarbretti og þvottavélar. Nú hafa bandarískir vísindamenn hins vegar komist að því að silfur sem upphaflega var til staðar í nanóformi getur safnast upp í lífverum í hærri styrk en í umhverfi þeirra. Þetta veldur nokkrum áhyggjum, en hingað til hafa menn talið að þegar silfrið bærist út í náttúruna settist það að í jarðvegi og setlögum en hefði ekki tilhneigingu til lífmögnunar.
(Sjá nánar í frétt á forbrugerkemi.dk 3. september sl. og
útdrátt úr grein í Environmental Science and Technology).