Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).
Greinasafn fyrir merki: bakteríur
Nýtt ensím sem brýtur niður plast á nokkrum dögum
Vísindamenn við háskólann í Portsmouth í Englandi hafa búið til nýtt ensím sem getur brotið niður plastflöskur á nokkrum dögum. Þetta var gert með því að tengja saman tvö ensím úr bakteríu sem japanskir vísindamenn uppgötvuðu árið 2016. Þessi baktería nærðist á plasti og gat brotið það niður á u.þ.b. 6 vikum. Með því að tengja þessi tvö ensím saman fer niðurbrotstími pólýetýlenplasts (PET) hins vegar niður í nokkra daga. Vísindamennirnir í Portsmouth gera sér vonir um að hægt verði að nýta uppgötvun þeirra í endurvinnsluiðnaði innan tveggja ára og benda jafnframt á að þetta sé enn eitt dæmið um mikilvægi þess að vinna með náttúrunni að lausnum á vandamálum samtímans.
(Sjá frétt PlanetArk 7. október).
Baktería sem brýtur niður PFAS
Vísindamenn við Princeton háskólann í New Jersey hafa fundið bakteríu sem getur brotið niður pólý- og perflúorefni (PFAS). Vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna hafa efnin verið notuð í ýmsan varning (m.a. undir nöfnunum teflon og goretex), en efnin eru mjög þrávirk og safnast upp í lífverum. Umrædd baktería, Acidimicrobiaceae sp. (A6), finnst í votlendi í New Jersey og í fyrri rannsóknum hafði komið í ljós að hún getur brotið ammóníum niður í súrefnissnauðu umhverfi með því að nýta járn úr jarðvegi sem efnahvata. Nú hefur komið í ljós að á sama hátt getur bakterían rofið kolefnis-flúortengi (C-F tengi) í PFAS og þannig sundrað efninu. C-F tengið er það sterkasta sem fyrirfinnst í lífrænni efnafræði og fram að þessu hafa menn ekki vitað um neina lífveru sem gæti rofið það. Þetta vekur vonir um að hægt sé að nota A6 til að brjóta umrædd efni niður í menguðum jarðvegi.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 18. september).
E. coli nýtt til að binda kolefni
Vísindamenn við háskólann í Dundee í Skotlandi hafa komist að því að hinn algengi saurgerill E. coli getur breytt koltvísýringi úr andrúmsloftinu í maurasýru. Við súrefnissnauðar aðstæður myndar bakterían svonefnt FHL-ensím sem gerir þetta efnahvarf mögulegt. Þetta ferli gengur afar hægt fyrir sig við venjulegar aðstæður en sé bakterían sett í blöndu af koltvísýringi og vetni við 10 loftþyngda þrýsting hvarfast allur tiltækur koltvísýringur í maurasýru á skömmum tíma. Þessi uppgötvun kann að opna nýjar leiðir í kolefnisbindingu, enda er maurasýra vökvi sem auðvelt er að geyma og er auk þess nýtanlegur á ýmsan hátt.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Dundee 8. janúar).
Þarmabakteríur sem brjóta niður plast
Tilteknar skordýralirfur geta étið og melt plast en hingað til hefur ekki verið ljóst á hverju þessi hæfileiki byggist. Nú hafa vísindamenn hins vegar sýnt fram á að tilteknar bakteríur í þörmum lifranna virðast gera þetta mögulegt. Samanburður á bakteríuflóru í þörmum hnetuglæðu (Plodia interpunctella) á lirfustigi leiddi í ljós að lirfur sem aldar voru á pólýtýlenplasti höfðu allt aðra og fjölbreyttari þarmaflóru en lirfur sem fengu venjulegt fæði. Í þeim síðarnefndu voru bakteríur af ættkvíslinni Turicibacter í meirihluta, en þessar bakteríur eru mjög algengar í þörmum dýra. Plastæturnar voru hins vegar með mikið af Tepidimonas-, Pseudomonas-, Rhizobiales– og Methylobacteriaceae-bakteríum, en sumar þeirra virðast einmitt eiga þátt í að brjóta niður plastagnir í hafinu.
(Sjá frétt Science News 17. nóvember).
Opna bakteríur nýjar dyr?
Vísindamenn við bandaríska rannsóknarstofnun hafa uppgötvað þann sjaldgæfa eiginleika bakteríunnar Clostridium thermocellum að binda koltvísýring úr andrúmslofti á sama tíma og hún brýtur sellulósa (beðmi) niður í nýtanleg kolvetni. Þessi uppgötvun gæti opnað nýja möguleika í framleiðslu lífeldsneytis úr sellulósa og kolefni andrúmsloftsins.
(Sjá frétt Science Daily í dag)
Súrnun sjávar dregur úr virkni sjávarbaktería
Súrnun sjávar hefur gríðarleg áhrif á virkni sjávarbaktería samkvæmt nýrri rannsókn frá Linnaeus háskólanum í Svíþjóð, en þar kemur fram að til að geta tekist á við lægra sýrustig þurfi bakteríurnar að draga verulega úr annarri virkni. Bakteríur gegna mikilvægu hlutverki í hringrás næringarefna í sjónum þar sem þær brjóta m.a. niður lífræn efni sem eru losuð í sjóinn með skólpi og sem verða til þegar smásæir þörungar deyja. Segja má að bakteríurnar séu skólphreinsistöðvar hafsins og þær stuðla að heilbrigðu vistkerfi. Þar að auki aðstoða bakteríurnar við að leysa úr læðingi köfnunarefni, fosfór og önnur næringarefni sem eru undirstaða fæðukeðjunnar. Talið er að heimshöfin verði um þrefalt súrari um næstu aldamót en þau eru nú, en hingað til hafa rannsóknir á áhrifum súrnunarinnar aðallega snúið að kóralrifum, kalkkenndum þörungum og skelfiski. Bein áhrif á bakteríuflóruna gæti haft ófyrirsjánleg áhrif á alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 12. janúar).