Ný heimasíða um PVC

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur opnað nýja heimasíðu með upplýsingum fyrir almenning um PVC-plast í byggingarvörum til eigin nota. Markmiðið er m.a. að hjálpa fólki að finna sambærilegar vörur án PVC, þar sem það er á annað borð mögulegt. PVC finnst enn í ýmsum vörum, allt frá skóm og hlífðarfatnaði yfir í leikföng, húsgögn, vínyldúka og raflagnir. Byggingarvörur eru þó stærsti einstaki vöruflokkurinn í þessu sambandi. PVC-plast er bæði endingargott og ódýrt, en því geta hins vegar fylgt ýmis vandamál fyrir heilsuna og umhverfið, m.a. vegna íblöndunarefna sem notuð hafa verið til að gefa plastinu ákjósanlega eiginleika. Mörg þessara efna hafa nú verið bönnuð, en PVC getur þó innihaldið mýkingarefni á borð við þalöt, sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Auk þess er PVC vandmeðfarið í framleiðslu, endurvinnslu og förgun.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 2. nóvember).

Færðu inn athugasemd