Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Greinasafn fyrir merki: hlaup
Hálfmaraþon í Kaupmannahöfn stuðlar að betri heimi
Heimsmeistaramótið í hálfu maraþonhlaupi, sem fram fer í Kaupmannahöfn laugardaginn 29. mars, er fyrsti íþróttaviðburðurinn sem hlýtur sérstaka viðurkenningu Alþjóða frjálsíþróttasambandsins (IAAF) fyrir framlag sitt til samfélagslegrar ábyrgðar. Viðurkenningin, sem nefnist á ensku Athletics Better World award, verður framvegis veitt þeim mótshöldurum sem þykja skara framúr í áherslum sínum á heilbrigðismál, umhverfismál, félagslegan jöfnuð og frið. Ein ástæða þess að hlaupið í Kaupmannahöfn fær þennan stimpil er sú að þar ákváðu mótshaldarar að gefa almenningi sömu tækifæri til þátttöku og helstu stjörnunum í íþróttinni. Fá dæmi eru um íþróttaviðburði þar sem öllum gefast sömu tækifæri til að glíma við sömu áskoranir á sömu braut og á sama tíma og mestu stjörnur íþróttaheimsins.
(Sjá frétt á heimasíðu IAAF í gær).