Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur opnað nýja heimasíðu með upplýsingum fyrir almenning um PVC-plast í byggingarvörum til eigin nota. Markmiðið er m.a. að hjálpa fólki að finna sambærilegar vörur án PVC, þar sem það er á annað borð mögulegt. PVC finnst enn í ýmsum vörum, allt frá skóm og hlífðarfatnaði yfir í leikföng, húsgögn, vínyldúka og raflagnir. Byggingarvörur eru þó stærsti einstaki vöruflokkurinn í þessu sambandi. PVC-plast er bæði endingargott og ódýrt, en því geta hins vegar fylgt ýmis vandamál fyrir heilsuna og umhverfið, m.a. vegna íblöndunarefna sem notuð hafa verið til að gefa plastinu ákjósanlega eiginleika. Mörg þessara efna hafa nú verið bönnuð, en PVC getur þó innihaldið mýkingarefni á borð við þalöt, sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Auk þess er PVC vandmeðfarið í framleiðslu, endurvinnslu og förgun.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 2. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: þalöt
Þalöt enn algeng í plastvörum
Þalöt fundust í helmingi allra vörutegunda úr plasti sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna (Tænk). Í rannsókninni var leitað að þalötum í 58 vörum og reyndust 29 þeirra innihalda slík efni. Í 24 tilvikum var þar um að ræða þalöt sem sett hafa verið á svonefndan kandídatslista Evrópusambandsins, en á þeim lista eru efni sem talin eru sérlega hættuleg en hafa þó ekki verið bönnuð. Í 5 tilvikum var um önnur þalöt að ræða. Þalöt hafa lengi verið notuð sem mýkingarefni í plast, en þau eru talin geta raskað hormónastarfsemi líkamans.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).
Varasöm efni finnast í gólfteppum fyrir barnaherbergi
Þalöt, rokgjörn lífræn efni (VOCs) og pólý- og perflúorefni (PFAS) finnast í mörgum gerðum gólfteppa sem sérstaklega eru ætluð í barnaherbergi. Þetta kom fram í rannsókn sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gekkst nýlega fyrir. Styrkur efnanna reyndist hins vegar minni en svo að börnum sé talin stafa hætta af. Engu að síður ráðleggur Miljøstyrelsen húseigendum að viðra ný gólfteppi í 1-2 daga í bílskúrnum eða úti á svölum áður en þau eru sett inn í barnaherbergi og reyna síðan að lofta vel út í 2-5 mínútur á hverjum degi. Þannig minnkar hættan á að varasöm efni safnist fyrir í inniloftinu, sem getur vel að merkja í mörgum tilvikum verið mengaðra en útiloft. Þá er fólki ráðlagt að kaupa ekki gólfteppi sem sterk lykt er af. Miljøstyrelsen vinnur nú að stærra verkefni þar sem kannað verður nánar hvort efni í gólfteppum geti reynst hættuleg börnum vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum (kokteiláhrifa). Von er á niðurstöðum úr þeirri rannsókn í ársbyrjun 2017.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Varasöm efni í kerrupokum
Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).
Lítið um hættuleg efni í drykkjarbrúsum
Flestir drykkjarbrúsar á borð við þá sem gjarnan eiga sér vísan stað í skólatöskum barna og unglinga standast þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar vöru um efnainnihald og hugsanlegan leka efna í drykki. Þetta kom fram í nýrri rannsókn á vegum dönsku neytendasamtakanna Tænk, þar sem kannaðar voru 8 tegundir drykkjarbrúsa úr plasti, gleri og málmum. Gerð var sérstök leit að þungmálmum og hormónaraskandi efnum á borð við þalöt og BPA. Allir brúsarnir stóðust prófið í öllum aðalatriðum en úr einum brúsanum lak óverulegt magn af áli út í viðkomandi drykk. Í einu öðru tilviki varð vart við óverulega efnamegnun þegar í hlut áttu súrir drykkir. Allt var þetta þó innan marka.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 20. janúar).
Fyrstu Svansmerktu einnotaáhöldin
Svansmerkt einnotaáhöld eru nú fáanleg í fyrsta sinn, en dansk-norska fyrirtækið Greenway fékk á dögunum leyfi til að merkja nokkrar af vörum sínum með Norræna svaninum. Einnotaáhöldin frá Greenway eru búin til úr pálmablöðum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Um er að ræða áhöld á borð við diska, skálar og matarföt, en til að fá vottun Svansins þarf að uppfylla strangar kröfur um efnainnihald og sitthvað fleira. Áhöldin mega t.d. ekki innihalda flúorsambönd eða þalöt og mega ekki vera úr endurunnum hráefnum þar sem efnaleifar kunna að leynast í þeim. Stór hluti hráefnanna þarf hins vegar að vera endurnýjanlegur, auk þess sem gerðar eru strangar kröfur um orkunotkun í framleiðslunni og um að hægt sé að jarðgera áhöldin eða endurvinna þau með öðrum hætti. Með því að fá Svansmerkingu á vörurnar er Greenway að bregðast við vaxandi eftirspurn viðskiptavina, svo sem frá mötuneytum, hótelum og dagvöruverslunum.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Danmörku í dag).
Hættuleg efni í pizzukössum
Pizzukassar geta innihaldið ýmis hættuleg efni að því er fram kemur í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna TÆNK. Í rannsókninni voru skoðaðir þrenns konar kassar og reyndust þeir allir innihalda heilsuspillandi flúorsambönd langt yfir viðmiðunarmörkum. Það sem kom þó meira á óvart var að í öllum kössunum fundust efni á borð við þalöt, BPA og nónýlfenól, sem ýmist eru talin geta verið hormónaraskandi eða krabbameinsvaldandi. Talið er líklegt að þessi efni séu ættuð úr endurunnu hráefni sem notað er við framleiðslu á kössunum. Þessar fréttir koma í kjölfar rannsóknar Tænk fyrr á árinu, sem leiddi í ljós að allir pokar utan um örbylgjupopp innihéldu flúorsambönd. Umræddar rannsóknir taka aðeins til matarumbúða og segja því ekki endilega til um hvort efnin berist í matvæli. Tænk ráðleggur fólki þó að borða ekki pizzur beint úr umbúðunum, geyma þær ekki í umbúðunum yfir nótt, forðast örbylgjupopp, kaupa svansmerktan bökunarpappír og geyma mat aðeins í umbúðum sem eru til þess ætlaðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 14. október).
Coop ræðst gegn skaðlegum efnum
Dagvörurisinn Coop í Danmörku hefur hafið sérstakt átak til að ryðja úr vegi skaðlegum efnum úr eigin vörum fyrirtækisins og úr vörum annarra framleiðenda sem seldar eru í verslunum keðjunnar. Á næstu þremur árum munu tólf tilteknir efnaflokkar verða gerðir útlægir úr öllum vörum sem Coop framleiðir og vörur annarra framleiðenda sem ekki fylgja þessu fordæmi verða fjarlægðar úr búðarhillum. Nú þegar hefur örbylgjupoppi, blautklútum og skólavörum úr PVC verið úthýst og nú síðast bættist tannkremið Colgate Total í þann hóp þar sem það inniheldur tríklósan. Efnin sem um ræðir eru öll lögleg, en það sem er löglegt er ekki endilega öruggt, eins og talsmaður Coop orðar það.
(Sjá frétt Politiken 7. september).
Barnavörur innihalda enn skaðleg efni
Ólöglegt magn skaðlegra efna finnst enn í ýmsum vörum sem markaðsettar eru fyrir börn. Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet (MD)) birti á dögunum niðurstöður rannsóknar á 90 barnavörum og reyndust fjórar þeirra innihalda ólöglegt magn af skaðlegum efnum. Þannig fannst SCCP (keðjustutt klórparaffín) og þalatið DEHP í einni gerð pennaveskis og í barnapeysu, nánar tiltekið í aukahlutum á vörunum svo sem rennilásum og hnöppum. Bæði SCCP og þalöt eru notuð sem mýkingarefni í plast. Umhverfisstofnunin hefur krafist þess að þær fjórar vörur sem ekki stóðust lagakröfur verði teknar af markaði í Noregi. Stofnunin telur eftirlit með barnavörum sérstaklega mikilvægt þar sem börn eigi til að stinga hlutum upp í sig, jafnvel þótt þeir séu ekki sérstaklega til þess ætlaðir.
(Sjá frétt Miljødirektoratet í dag).
Óleyfileg efni í tímaritum fyrir börn
Í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk fundust óæskileg efni í 5 af 18 leikföngum sem fylgdu með tímaritum fyrir börn. Í framhaldi af þessu hafa þrjú tímaritanna verið kærð til yfirvalda fyrir ólöglega efnanotkun. Með umræddum tímaritum fylgdu leikföng á borð við bolta, dúkkur, prumpublöðrur og strokleður og fundust meðal annars þalöt og blý í þessum vörum. Samkvæmt dönskum lögum mega leikföng ekki innihalda meira en 0,1% af þalatinu DEHP sem er hormónaraskandi efni. Tvö leikföng voru yfir mörkum hvað þetta varðar. Þannig innihélt plastútvarp sem fylgdi með tímaritinu Prinzessin Lillifee 15% DEHP, auk þess sem styrkur blýs í leikfanginu var 2.560 mg/kg. Umhverfisstofnun Danmerkur ætlar ekki að verða við beiðni Tænk um að beita sér fyrir því að strokleður sem fylgdi með tímaritinu Wendy verði tekið af markaði þar sem strokleður séu ekki skilgreind sem leikföng í dönskum lögum. Tænk bendir hins vegar á að reglur um leikföng hljóti að eiga að gilda um strokleður sem séu beinlínis markaðsett fyrir börn.
(Sjá frétt Tænk 13. nóvember).