Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Greinasafn fyrir merki: ál
Lítið um hættuleg efni í drykkjarbrúsum
Flestir drykkjarbrúsar á borð við þá sem gjarnan eiga sér vísan stað í skólatöskum barna og unglinga standast þær kröfur sem eðlilegt er að gera til slíkrar vöru um efnainnihald og hugsanlegan leka efna í drykki. Þetta kom fram í nýrri rannsókn á vegum dönsku neytendasamtakanna Tænk, þar sem kannaðar voru 8 tegundir drykkjarbrúsa úr plasti, gleri og málmum. Gerð var sérstök leit að þungmálmum og hormónaraskandi efnum á borð við þalöt og BPA. Allir brúsarnir stóðust prófið í öllum aðalatriðum en úr einum brúsanum lak óverulegt magn af áli út í viðkomandi drykk. Í einu öðru tilviki varð vart við óverulega efnamegnun þegar í hlut áttu súrir drykkir. Allt var þetta þó innan marka.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 20. janúar).
Álrafhlöður næsta bylting í orkugeymslu
Vísindamenn við Háskólann í Stanford hafa þróað hraðhleðslurafhlöðu úr áljónum sem talin er geta orðið fýsilegur valkostur við geymslu á endurnýjanlegri orku í dreifikerfum. Geymsla á umframorku, t.d. frá vindorkuverum, er ein helsta forsenda þess að hægt verði að auka hlut endurnýjanlegrar orku í dreifikerfum í Evrópu. Einn helsti kostur nýju álrafhlöðunnar er endingin, en hægt er að hlaða rafhlöðuna um 7.500 sinnum án þess að geymslugetan minnki. Til samanburðar er hægt að hlaða venjulegar litíumrafhlöður um 1.000 sinnum. Rafhlaðan hefur einnig þann kost að hægt er að hlaða hana mjög hratt og eins getur hún skilað orku hratt inná dreifikerfið. Ál er auk þess mun ódýrara en t.d. litíum. Álrafhlaðan nýtist ekki eingöngu til geymslu í dreifikerfum heldur telja vísindamenn að hún muni verða vinsæll kostur í fartölvum og snjallsímum vegna þess hversu skamman tíma hleðslan tekur.
(Sjá frétt EDIE 7. apríl).