Vísindamenn í Los Angeles hafa þróað sérstaka nanóvíra úr kopar sem nýtast sem hvatar í efnahvarfi sem breytir koldíoxíði í etýlen. Etýlen hefur hingað til verið framleitt úr jarðefnaeldsneyti, en efnið er m.a. notað í framleiðslu á plasti. Notkun nanóvíra úr kopar í þessu skyni er ekki ný uppfinning, en með breyttri lögun og áferð víranna hefur tekist að auka nýtingarhlutfallið úr 10% í 70%, auk þess sem minna myndast af aukaefnum á borð við vetni og metan. Aðferðin kann því að nýtast til að minnka losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið og breyta því í verðmæta vöru.
(Sjá frétt Science Daily 17. september).
Greinasafn fyrir merki: kopar
Vel heppnuð hreinsun í Oslóhöfn
Hafsbotninn á hafnarsvæðinu í Osló stenst enn mengunarviðmið rúmum fjórum árum eftir að lokið var við hreinsun botnsins. Hreinsunin fór að mestu fram árið 2011. Þar sem því varð við komið var hreinu malarlagi dreift yfir botninn en þar sem tryggja þurfti tiltekið dýpi og þar sem hætta var á að efsta lagið þyrlaðist upp var botninn plægður og menguð jarðefni urðað á meira dýpi, áður en nýju lagi var dreift yfir. Lífríkið á svæðinu er smátt og smátt að ná sér og við síðustu mælingar reyndist mengun innan marka á 39 af 40 vöktunarstöðum. Á einum stað mældist mengun yfir mörkum, skammt frá útrás fyrir ofanvatn sem ævinlega inniheldur mengunarefni frá umferð. Efnin sem greindust voru m.a. kopar, kvikasilfur, blý, sink, PAH og TBT.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Noregs (Miljødirektoratet) í dag).
Helmingur af öllu gulli í farsímum fer forgörðum
Um 50% af öllu því gulli sem til staðar er í farsímum fer forgörðum eftir að hætt er að nota símana. Brýnt er að lengja endingartíma síma og bæta söfnun þeirra að notkun lokinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kortlagningu á verðmætum málmum í farsímum, sem sagt er frá í októberhefti tímaritsins Resources, Conservation and Recycling. Í gulli liggja 80% af þeim verðmætum sem finna má í málminnihaldi farsíma, en þar er einnig nokkuð af öðrum dýrmætum málmum, svo sem kopar, silfri og palladíum. Ef núverandi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir að árið 2050 verði endurnýtingarhlutfall gulls úr farsímum komið niður í 20%. Þessi þróun stangast á við áætlanir ríkja Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi og mun leiða til mun hraðari eyðingar auðlinda en þörf er á, þ.e. ef ekki verður gripið til aðgerða til að draga úr sóuninni.
(Sjá fréttabréf ESB, Science for Environmental Policy, 16. september).