Hópur vísindamanna í Kanada hefur sýnt fram á að tepokar úr gerviefnum gefa frá sér gríðarmikið af örplasti þegar þeir eru settir í sjóðheitt vatn. Talning með rafeindasmásjá leiddi í ljós að frá einum slíkum poka bárust u.þ.b. 14,7 milljarðar örplastagna, þar af um 3,1 milljarður nanóplastagna (minni en 100 nanómetrar (nm) í þvermál. (Til samanburðar er þvermál mannshárs um 75.000 nm)). Þessar tölur er mörgþúsund sinnum hærri en áður hefur sést í matvælum. Í tengslum við þetta voru könnuð áhrif mismunandi styrks þessara sömu plastagna á vatnaflær af tegundinni Daphnia magna. Flærnar lifðu tilraunina af en sýndu tiltekin líffærafræðileg og hegðunarleg frávik. Að sögn vísindamannanna þarf meiri rannsóknir til að draga ályktanir um áhrif þessara plastagna á heilsu manna.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 25. september).
Greinasafn fyrir merki: Kanada
Fiskar í menguðu vatni þurfa að vinna meira
Lyfjaleifar og önnur mengunarefni í vatni neyða fiska til að leggja á sig meira erfiði en ella til að komast af, að því er fram kemur í nýrri vísindagrein eftir sérfræðinga við McMaster-háskólann í Ontaríó í Kanada. Jafnvel fullkomnustu skólphreinsistöðvar ná ekki að klófesta leifar af lyfjum á borð við getnaðarvarnarpillur, þunglyndislyf og beta-blokkera áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þessi efni og önnur mengunarefni í vatni gera það að verkum að fiskar leggja á sig u.þ.b. 30% viðbótarvinnu til að losa sig við efnin. Þetta þýðir að minni orka verður afgangs en ella til annarra verka, svo sem til þess að afla næringar, verjast rándýrum og æxlast. Þar með minnka afkomumöguleikar stofnsins, jafnvel þótt efnin drepi ekki fiskana. Þarna er því í raun um falin eitrunaráhrif að ræða. Einn af höfundum rannsóknarinnar líkir þessum áhrifum við það ef fólk þyrfti að ganga í nokkrar klukkustundir á hverjum degi (án þess að fá meiri mat).
(Sjá frétt Science Daily 16. janúar).
Míkróplast úr flísefnum áberandi í sjávarlífverum
Í hvert skipti sem flík úr flísefni er þvegin sleppa um 2.000 míkróagnir út í frárennslið samkvæmt nýrri kanadískri rannsókn á vatnssýnum úr nágrenni borgarinnar Vancouver í Bresku-Kólumbíu. Mikið af þessum ögnum berst í dýrasvif í sjónum og síðan áfram upp fæðukeðjuna. Rannsóknin gefur svipaðar vísbendingar og aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum útivistarfatnaðar (aðallega úr flísefni og Gore-Tex) á lífríki sjávar, en norskar rannsóknir hafa m.a. sýnt fram á svipuð áhrif. Í norsku rannsóknunum kom fram að hægt væri að rekja um 100 milljónir plastagna í firðinum við Longyearbyen á Svalbarða til þvottavéla í öðrum löndum, en plastagnirnar ferðast um hafið með hafstraumum.
(Sjá frétt Canadian Geographic 29. mars).
Kanada skerpir á loftslagskröfum til nýrra verkefna
Í gær kynnti Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, áform um auknar umhverfiskröfur sem gerðar verða til nýrra framkvæmda við olíu- og gaslagnir. Samkvæmt nýju reglunum þurfa verkefnin að fara í gegnum mat á áhrifum á loftslag, bæði vegna verkefnanna sjálfra sem slíkra og vegna vinnslu á olíu eða gasi sem flytja á um leiðslurnar. Með þessu er að sögn Justin Trudeau verið að leggja framkvæmdaaðilum þá skyldu á herðar að sýna fram á að framkvæmdin sé í almannaþágu. Jafnframt er ætlunin að tryggja fleiri stjórnsýslustigum, vísindamönnum og frumbyggjum aukinn aðgang að ákvarðanatöku. Nýju reglurnar munu m.a. gilda við leyfisveitingu vegna fyrirhugaðrar lagningar svonefndrar Energy East leiðslu sem á að flytja 1,1 milljón tunna af hráolíu frá Alberta og Saskatchewan þvert yfir mörg landsvæði til olíuhreinsistöðva og útflutningshafna í austanverðu Kanada. Forsætisráðherrann segir það ekki vera hlutverk sitt að vera klappstýra fyrir verkefni af þessu tagi.
(Sjá frétt Reuters í gær).
Fuglar drepast á olíusöndum Alberta
Yfir 100 fuglshræ hafa fundist við úrgangstjarnir á vinnslusvæðum olíusands í Albertafylki í Kanada samkvæmt skýrslum sem Orkustofnun Alberta (Alberta’s Energy Regulator) hefur fengið í hendurnar. Fuglarnir drápust vegna snertingar við eitrað úrkast sem geymt er í tjörnunum, en ekki liggur fyrir hvort fuglarnir lentu þarna vegna óvenjulegra veðuraðstæðna eða óviðunandi fælibúnaðar, sem skylt er að koma upp við tjarnir af þessu tagi. Eitt af fyrirtækjunum sem er ábyrgt fyrir tjörnunum, Canadian Oil Sands ltd., var sektað um 3 milljónir Kanadadala (um 328 millj. ísl. kr.) fyrir svipað atvik árið 2008 þar sem 1.600 endur drápust eftir að hafa lent á gryfju þar sem lögbundnum fælibúnaði hafði ekki verið komið fyrir.
(Sjá frétt Planet Ark 7. nóvember).
100 milljón hektarar af ósnertum skógi horfnir á 14 árum
Um 104 milljónir hektara af ósnertum skógi, eða sem svarar til þriggja Þýskalanda, (um tífalds flatarmáls Íslands), hafa horfið síðan á árinu 2000 samkvæmt nýrri greiningu sem unnin var af Greenpeace, Háskólanum í Maryland, Transparent World, the World Resources Institute (WRI) og Rússlandsdeild WWF. Við greininguna var notast við gervitunglamyndir og skoðuð þekja í landupplýsingakerfi (GIS) sem skilgreind er sem ósnertur skógur. Um 65% af ósnertum skógi heimsins er að finna í Rússlandi, Kanada og Brasilíu og hafa um 50 milljónir hektara eyðilagst vegna uppbyggingar í þessum löndum. Aðstandendur greiningarinnar segja stjórnvöld þurfa að bregðast flljótt við hnignuninni með því að stækka vernduð landsvæði og bæta réttindi samfélaga sem eru háð afkomu skóga. Auk þess þurfi Sameinuðu þjóðirnar, iðnríki og þróunarstofnanir að styðja við verndun ósnertra skóga í þróunarríkjum. Ósnertir skógar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, hægja á loftslagsbreytingum og tryggja gæði andrúmslofts og vatns.
(Sjá frétt WRI 4. september).
Áform um vinnslu CO2 beint úr andrúmslofti
Kanadíska fyrirtækið Carbon Engineering hefur hafið tilraunir með vinnslu koltvísýrings beint úr andrúmsloftinu, og er stefnt að því að tilraunaverksmiðja til þessara nota verði tilbúin í Calgary fyrir árslok 2014. Enn ríkir mikil óvissa um kostnaðinn við vinnsluna, en talið er að hann verði á bilinu 20-2.000 dollarar á tonnið. Bent hefur verið á að þessi kostnaður gefi vísbendingu um sanngjarnt gjald fyrir að fá að sleppa koltvísýringi út í andrúmsloftið.
(Sjá frétt í New York Times 5. janúar).