Matarumbúðir úr pappa hafa minnsta kolefnissporið

Fernur og aðrar matvælaumbúðir úr pappa hafa lægra kolefnisspor en aðrar umbúðir til sömu nota, þ.m.t. umbúðir úr gleri, áli og plasti. Þetta kemur fram í nýrri ritrýndri lífsferilsgreiningu (LCA) sem Tetra Pak í Eyjaálfu hefur látið gera. Glerumbúðir koma verst út með 5-12 sinnum stærra kolefnisspor en fernurnar. Áldósir sem ekki eru úr endurunnu áli koma álíka illa út og glerið, en dósir úr 70% endurunnu áli eru um tvöfalt „verri“ en fernurnar. Léttar plastflöskur úr 100% endurunnu efni eru nokkurn veginn á pari við fernurnar en flöskur úr nýju plasti hafa a.m.k. tvöfalt stærra kolefnisspor. Greiningin náði til allra helstu umbúða af stærðinni 200 ml – 2 l utan utan um G-mjólk, ferska mjólk, ávaxtasafa, vatn og matvöru sem voru á markaði í Ástralíu og Nýja-Sjálandi 2019-2020.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).

Bandaríkjamenn endurvinna framrúður

framrudur_160Bandaríska fyrirtækið Safelite AutoGlass sem vinnur við að skipta um framrúður í bílum hefur í samstarfi við endurvinnsluaðila þróað aðferð til að endurvinna glerið. Með þessu var komið í veg fyrir að um 23.000 tonn af gleri færu í urðun á síðasta ári. Erfitt hefur reynst að endurvinna framrúðugler, vegna þess að rúðurnar eru lagskiptar. Hver rúða er gerð úr tveimur glerplötum með millilagi af gegnsæu resíni (nánar tiltekið pólývínýlbútýrali (PVB)). Millilagið heldur rúðunni saman ef glerið brotnar en gerir það jafnframt að verkum að erfitt er að ná efnunum í sundur. Hin nýja aðferð felst í að mylja rúðurnar niður og flokka síðan eindirnar í sérstakri vél í gler (90%) og PVB (7%). Glerið er hægt að nota í framleiðslu á glertrefjum til einangrunar og PVB nýtist í framleiðslu á endurunnu plasti.
(Sjá frétt Waste Management World 10. febrúar).

Umbun hækkar endurvinnsluhlutfall

carrotEndurvinnsluhlutfall er hærra í sveitarfélögum sem notast við kerfi sem byggt er á jákvæðum fjárhagslegum hvötum en í sveitarfélögum þar sem endurvinnsla er gerð að skyldu. Þetta kemur fram í nýrri könnun bresku samtakanna Greenredeem, en þau hafa þróað kerfi þar sem neytendur safna endurvinnslupunktum sem þeir geta nýtt til að greiða fyrir vörur og þjónustu hjá einhverjum af 450 samstarfsaðilum samtakanna. Sveitarfélög sem eru í samstarfi við Greenredeem hafa náð allt að 27% endurvinnsluhlutfalli fyrir gler, plast og pappír á meðan sveitarfélög með reglur um endurvinnslu hafa náð um 15%. Greenredeem kerfið hefur jafnframt í för með sér auknar tekjur fyrir fyrirtæki í umræddum sveitarfélögum, auk þess sem margir velja að gefa punktana sína til góðgerðarfélaga á svæðinu. Talsmaður samtakanna bendir á að þörf sé á frumlegum lausnum ef Bretland á að ná 50% endurvinnslumarkmiði sínu fyrir 2020.
(Sjá frétt EDIE 16. október).

Fullkomnasta glerendurvinnslustöð Evrópu rís í Skotlandi

ViridorflöskurEndurvinnslufyrirtækið Viridor hyggst opna nýja endurvinnslustöð fyrir gler í Newhouse í Lanarkskíri í Skotlandi á sumri komanda. Stöðin, sem sögð er verða sú fullkomnasta í Evrópu, mun geta endurunnið 200.000 tonn af gleri árlega. Stofnkostnaður stöðvarinnar verður um 25 milljónir sterlingspunda (tæpir 4,8 milljarðar ísl.kr.). Með tilkomu stöðvarinnar skapast ný störf og skoskir vískýframleiðendur verða minna háðir innflutningi á umbúðum en nú er, auk þess sem litið er á stöðina sem mikilvægan lið í áætlunum Skota um að útrýma úrgangi.
(Sjá frétt EDIE 23. janúar).