Örplast í jarðvegi heftir vöxt ánamaðka og leiðir þannig líklega til minni framleiðni viðkomandi vistkerfis. Þetta kemur fram í rannsókn breskra vísindamanna sem birt verður í tímaritinu Environmental Science & Technology. Í rannsókninni var borinn saman vaxtarhraði ánamaðka sem lifðu í mold sem innihélt örplast (HDPE-agnir) og orma sem lifðu í mold án plastagna. Þar sem örplastið var til staðar léttust maðkarnir að meðaltali um 3,1% á 30 daga tímabili, en hinir maðkarnir þyngdust að meðaltali um 5,1% á sama tíma. Ekki er fullljóst hvernig örplastið hefur þessi áhrif en höfundar rannsóknarinnar telja líklegt að plastið trufli upptöku næringarefna í meltingarvegi og leiði þannig til þyngdartaps. Leiða má að því getum að þetta hafi keðjuverkandi áhrif í vistkerfinu, þar sem maðkarnir gegna mikilvægu hlutverki í niðurbroti lífrænna efna og í loftun jarðvegs.
(Sjá frétt Science Daily 11. september).