Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu

Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Bestu burðarpokarnir eru þeir sem maður notar oftast

b6b7f6dee9d3b68b_800x800arUmhverfisvænstu burðarpokarnir eru þeir sem eru notaðir oftast, að því er fram kemur í nýrri úttekt Neytendafélags Stokkhólms (KfS). Þetta gildir um alla poka, hvort sem þeir eru gerðir úr plasti eða öðrum efnum. Bómullarpokar eru þannig ekki endilega bestir, enda er framleiðsla á bómull mjög frek á auðlindir. Slíkan poka þarf að nota mörghundruð sinnum til að hann komi betur út en lífplastpoki úr sykurreyr sem notaður er einu sinni. KfS mælir helst með pokum úr endurunnu pólýester, svo sem úr gosflöskum eða fatnaði. Slíkan poka þarf að nota 10-40 sinnum til að hann jafnist á við sykurreyrpokann. Þessir pokar eru efnislitlir og því auðvelt að brjóta þá saman og geyma í vasa eða veski. Þar með aukast líkurnar á að þeir séu notaðir aftur og aftur. Árlega nota Svíar um 1,3 milljarða burðarpoka úr plasti og um 60 milljónir poka úr öðrum efnum.
(Sjá fréttatilkynningu KfS 26. janúar).

Mikill umhverfislegur sparnaður hjá Adidas!

adidas_160Á dögunum birti Adidas sjálfbærniskýrslu sína fyrir árið 2014. Þar kemur fram að á síðustu 6 árum hefur fyrirtækið náð að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, úrgangsmyndun og vatnsnotkun um rúmlega 20%. Fyrirtækið hefur ráðist í ýmis verkefni til að minnka vistspor sitt. Sem dæmi má nefna að á næstu árum verður allri notkun plastpoka í verslunum fyrirtækisins hætt. Þá er fyrirtækið farið að nýta plastrusl úr hafinu sem hráefni í endurunnið plastefni sem nýtist m.a. við framleiðslu á skóm. Dregið hefur verið úr losun gróðurhúsalofttegunda með bættri orkunýtingu og kolefnisjöfnun en verðlag og aðgengi að endurnýjanlegri orku standa enn í vegi fyrir frekari úrbótum. Vatnssparnaðurinn byggist einkum á tveimur atriðum, annars vegar svonefndri DryDye tækni við litun bómullar og hins vegar aukinni áherslu á notkun lífrænnar bómullar, sem er nú um 30% af allri bómull sem fyrirtækið notar.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Burt með klósettrúlluna!

toilet_paper_160Einn stærsti pappírsframleiðandi vestanhafs, Scott Products, hætti nýlega að nota pappahólka í klósettpappírsrúllur. Með þessu vill framleiðandinn draga úr myndun úrgangs, en árlega lenda um 17 milljarðar slíkra hólka í ruslinu vestra. Mest af þessu fer í urðun. Hólkarnir eru ekki nauðsynlegir þegar allt kemur til alls og bæði framleiðandinn og neytendinn hafa því mikinn hag af því að losna við þá. Fyrirtækið hvetur aðra framleiðendur að gera slíkt hið sama, enda eru klósettrúlluhólkar tiltölulega stór hluti þess úrgangs sem til fellur á heimilum.
(Sjá frétt ENN í dag).

Um 8 milljón tonn af plasti í hafið árlega

marinedebris_160Um 8 milljón tonn af plastúrgangi enda í hafinu á ári hverju samkvæmt nýrri rannsókn National Centre of Ecological Analysis and Synthesis (NCEAS), en hingað til hefum mönnum gengið illa að áætla hversu mikið magn væri þarna um að ræða. Í rannsókninni voru skoðaðar úrgangstölur frá 192 löndum og reiknað út frá þeim að 4,8-12,7 milljónir tonna af plasti hefðu borist á haf út árið 2010. Miðgildið var 8 milljón tonn. Plastrusl er orðið stórt vandamál fyrir vistkerfi sjávar, þar sem það getur kæft eða kyrkt sjávardýr, auk þess sem plastið getur ferjað eiturefni inn í fæðukeðjuna. Plastið í sjónum á m.a. uppruna sinn að rekja til illa rekinna opinna urðunarstaða og rangrar meðhöndlunar almennings á plastúrgangi. Aukin áhersla á úrgangsforvarnir og betri úrgangsstjórnun eru því lykilatriði í viðleitninni til að draga úr þessum vanda.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Þeir sem flokka eru hamingjusamari

affald_160Einstaklingar sem hugsa um náttúruna, draga úr úrgangsmyndun og flokka ruslið sitt lifa hamingjusamara lífi en annað fólk. Þetta kemur fram  í skýrslu sem Rannsóknarstofnun hamingjunnar gaf út á dögunum, en þar eru teknar saman niðurstöður rannsókna frá Kaupmannahafnarháskóla, Hagfræðiháskólanum í London og háskólanum í Harvard. Í skýrslunni er bent á fjórar mögulegar ástæður fyrir þessum tengslum flokkunar og hamingju. Í fyrsta lagi geti sjálfbær lífstíll stuðlað að hamingju, í öðru lagi sé hamingjusamt fólk líklegra til að flokka rusl, í þriðja lagi efli úrgangsforvarnir og flokkun tengingu fólks við náttúruna og nágrannana og í fjórða lagi sé fólk sem hugsar um umhverfið almennt ánægðara og leggi því áherslu á sjálfbærni. Skýrslan, sem ber titilinn Sjálfbær hamingja – Af hverju úrgangsforvarnir geta aukið lífsgæði, hefur fangað athygli umhverfisráðherra Danmerkur sem fagnar því að aukin hamingja geti verið jákvæð aukaverkun aukinnar nýtni og sjálfbærra áherslna.
Sjá frétt Politiken 30. janúar).

Framsækin stefna í úrgangsmálum skapar 750.000 ný störf

Úrgangsþríhyrningurinn 3 160Um 750.000 ný störf myndu skapast fram til ársins 2025 ef Evrópusambandið tæki upp framsækna stefnu í úrgangsmálum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópsku umhverfisskrifstofunnar (EEB). EEB telur að með stefnu sem stuðlar að úrgangsforvörnum og endurvinnslu skapist fjölmörg græn störf, losun koltvísýrings minnki um 415 milljón tonn og landnotkun vegna matvælaframleiðslu minnki um 57 þúsund ferkílómetra fram til ársins 2030. Ekki sé nóg að banna urðun úrgangs, heldur þurfi að leggja áherslu á lausnir sem eru ofar í úrgangsþríhyrningnum. Þessu megi m.a. ná fram með hagrænum hvötum til endurnotkunar og endurvinnslu, auknum gjöldum á einnota vörur, breyttum sorphirðugjöldum og aukinni áherslu á framlengda framleiðendaábyrgð.
(Sjá frétt EEB 7. apríl).

Taktu afgangana með þér heim!

26068_160Afgangapokar (e. doggy bags) verða aðgengilegir og sýnilegir á skoskum veitingahúsum í nýju tilraunaverkefni samtakanna Zero Waste Scotland sem miðar að minnkun matarúrgangs á veitingahúsum. Samtökin áætla að ein af hverjum sex máltíðum sem pantaðar eru á veitingahúsum í landinu endi sem úrgangur og vilja með „Good-to-Go“ verkefninu hvetja fólk til að biðja um ílát fyrir matarafganga til að minnka matarúrgang og þau neikvæðu umhverfisáhrif sem slíkur úrgangur hefur í för með sér. Í rannsókn samtakanna kemur fram að um 75% veitingahúsagesta vilji að veitingahús bjóði upp á slík ílát en um 50% kváðust ekki þora að spyrja um þau að máltíð lokinni, enda væri slíkt ekki viðtekin venja í samfélaginu. Tilraunaverkefnið hófst á veitingahúsinu Two Fat Ladies í Glasgow í síðustu viku. Vonast er til að í framhaldinu verði heimtaka matarafganga að viðtekinni venju í Skotlandi.
(Sjá frétt EDIE 24. mars).

ESB kynnir Rikka Rusl til sögunnar

Rikki RuslFramkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) birti á dögunum stutt myndband sem ætlað er að hvetja fólk til að líta á úrgang sem verðmæti. Myndbandið, sem er hluti af átakinu „Generation Awake“, er sett fram sem stikla (e. trailer) fyrir kvikmynd þar sem ruslatunnan Rikki Rusl (e. Richard Rubbish) rís upp (eða er öllu heldur réttur við) gegn því virðingarleysi sem honum og hans innri gildum hefur verið sýnt. Átakinu „Generation Awake“ var upphaflega hleypt af stokkunum árið 2011, en því er einkum ætlað að höfða til fólks á aldrinum 25-40 ára og fá það til að tileinka sér leiðir til að nota auðlindir á skynsamlegan hátt í stað þess að leyfa þeim að verða að úrgangi.
(Sjá frétt EDIE 7. febrúar).