Ný nanótækni breytir koldíoxíði í etýlen

Vísindamenn í Los Angeles hafa þróað sérstaka nanóvíra úr kopar sem nýtast sem hvatar í efnahvarfi sem breytir koldíoxíði í etýlen. Etýlen hefur hingað til verið framleitt úr jarðefnaeldsneyti, en efnið er m.a. notað í framleiðslu á plasti. Notkun nanóvíra úr kopar í þessu skyni er ekki ný uppfinning, en með breyttri lögun og áferð víranna hefur tekist að auka nýtingarhlutfallið úr 10% í 70%, auk þess sem minna myndast af aukaefnum á borð við vetni og metan. Aðferðin kann því að nýtast til að minnka losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið og breyta því í verðmæta vöru.
(Sjá frétt Science Daily 17. september).

Endurnýjanlegt þotueldsneyti í þróun

Vísindamenn við Háskólann í Delaware eru komnir áleiðis í viðleitni sinni til að framleiða samkeppnishæft þotueldsneyti úr lífmassa, nánar tiltekið úr beðmi og tréni úr viðarkurli og maískólfum. Einn helsti vandinn við nýtingu þessa hráefnis er sá hversu kolefniskeðjurnar eru orðnar stuttar og hlaðnar súrefnisfrumeindum þegar búið er að breyta lífmassanum úr föstu efni í fljótandi. Til að búa til nothæft þotueldsneyti, sem m.a. þarf að halda eiginleikum sínum í miklu frosti, þurfa einkum tvenns konar efnaferli að eiga sér stað. Þar er annars vegar átt við afoxun sameindanna og hins vegar samtengingu þeirra. Nýjungin í aðferðum vísindamannanna í Delaware felst einkum í nýjum efnahvötum, svokölluðum „efnageitum“, sem m.a. eru framleiddar úr einföldu grafeni. „Geiturnar“ gera það mögulegt að keyra nauðsynleg efnahvörf við mun lægri þrýstingi og lægra hitastig en áður (um 60°C í stað 350°C), auk þess að skila mjög góðri nýtingu hráefnisins. Efnahvörfin taka auk heldur skemmri tíma en fyrri aðferðir og efnahvatarnir eru endurvinnanlegir.
(Sjá umfjöllun Science Daily 30. október).

Hávaði ógnar friðlýstum svæðum

Hljóð frá athöfnum manna hafa veruleg neikvæð áhrif á lífríki og upplifun gesta á flestum friðlýstum svæðum að því er fram kemur í rannsókn sem sagt var frá í tímaritinu Science í síðustu viku. Rannsóknin, sem er sú fyrsta sinnar tegundar, leiddi í ljós að á 63% friðlýstra svæða í Bandaríkjunum nam hljóðmengun tvöföldu bakgrunnsgildi og á 21% allra svæðanna var hljóðmengun tíföld eða meiri. Á þessum svæðum, sem taka til allt að 90% alls flatarmáls friðaðra svæða, er ekki lengur hægt að heyra náttúruhljóð, nema þá í besta falli í mjög lítilli fjarlægð. Þetta spillir gildi svæðanna til hvíldar og slökunar, auk þess sem framandi hljóð trufla eða styggja dýr og geta leitt til breyttrar tegundasamsetningar. Jafnvel plöntur verða fyrir áhrifum vegna breytinga á lífsháttum skordýra sem bera frjó á milli plantna. Algengast er að hljóðmengun berist frá flugumferð, vegakerfi, iðnaði eða byggð. Aðstandendur rannsóknarinnar telja mikilvægt að vernda hljóðvist á þeim svæðum sem enn eru tiltölulega ósnortin af utanaðkomandi hávaða.
(Sjá frétt Science Daily 4. maí).

Endurnýjanleg orka við tærnar á okkur!

xudong-wang-floor-power-775x517-160Vísindamenn við Háskólann í Wisconsin-Madison (UW) hafa þróað ódýrt, endurnýjanlegt og endingargott gólfefni sem getur framleitt raforku úr fótataki þeirra sem um gólfið ganga. Uppistaðan í efninu eru nanótrefjar úr sellulósa sem nóg er af í viðarúrgangi og fleiri aukaafurðum úr jurtaríkinu og byggir raforkuframleiðslan á snertingu sérstaklega meðhöndlaðra trefja við ómeðhöndlaðar trefjar. Hver eining getur verið allt niður í 1 mm að þykkt og er hægt að byggja gólfefnið upp úr mörgum slíkum lögum. Aðferðin hentar einkar vel í stórmörkuðum og á öðrum fjölförnum stöðum, en þar ætti að vera hægt að framleiða umtalsvert magn af raforku með þessum hætti. Næsta verk vísindamannanna er að prófa efnið við raunverulegar aðstæður.
(Sjá frétt á heimasíðu UW í dag).

Skýrari hugsun í umhverfisvottuðum byggingum

109buildings-160Fólk sem starfar í umhverfisvottuðum byggingum virðist skýrara í kollinum en þeir sem vinna í sambærilegum byggingum sem ekki uppfylla skilyrði umhverfisvottunar. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna í Harvard sem kynnt var á árlegri ráðstefnu Vistbyggðaráðs Bandaríkjanna sem haldin var í Los Angeles á dögunum. Rannsóknin náði til 109 einstaklinga í 10 byggingum í 5 borgum í Bandaríkjunum. Fólkið í umhverfisvottuðu byggingunum fékk að meðaltali 26% hærri einkunnir í prófum sem reyna á starfsemi hugans en þeir sem unnu í hinum byggingunum. Fólkið í fyrrnefnda hópnum reyndist hafa mun meiri hæfni til að bregðast við áreiti, hélt athyglinni betur, bjó við betri heilsu og svaf betur á næturnar, svo eitthvað sé nefnt. Umhverfisvottun bygginga virðist sem sagt ekki bara koma umhverfinu að gagni, heldur stuðlar hún jafnframt að meiri framleiðni og betri líðan.
(Sjá frétt United Technologies 5. október).

Fjöldi eiturefna, en ekki bara styrkur þeirra, tengdur við býflugnadauða

161007115919_1_540x360-160Hópur vísindamanna við Háskólann í Maryland hefur sýnt fram á tengsl milli dánartíðni býflugna og fjölda eiturefna sem til staðar eru í búinu. Margar rannsóknir hafa áður bent til þess að tiltekin eiturefni valdi hruni í býflugnastofnum en samverkandi áhrif efnanna hafa ekki áður verið könnuð með þeim hætti sem gert var í þessari rannsókn. Svo virðist sem flugurnar missi hæfileikann til afeitrunar þegar fleiri efni bætast við, jafnvel þótt hvert efni um sig sé í mjög lágum styrk. Sérstaka athygli vakti að tiltekin sveppaeiturefni, sem hingað til hafa verið talin örugg fyrir býflugur, virðast hafa mikið að segja í þessu sambandi.
(Sjá frétt Science Daily 7. október).

Fjöldamálsóknir vegna Roundup undirbúnar vestra

73776Lögfræðistofur víða um Bandaríkin safna nú liði fyrir fjöldamálsóknir gegn efnavörurisanum Monsanto á þeim forsendum að plöntueitrið Roundup sem fyrirtækið framleiðir hafi valdið krabbameini í sækjendum, þ.á.m. non-Hodgkin eitlafrumukrabba (NHL). Ætlunin er að sýna fram á það fyrir dómi að Monsanto hafi ranglega haldið því fram að virka efnið í Roundup (glýfosat) væri skaðlaust, þó að fyrirtækinu hafi þá þegar verið ljóst að það gæti valdið krabbameini. Málaferlin koma í kjölfar yfirlýsingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) í marsmánuði síðastliðnum um að glýfosat væri líklegur krabbameinsvaldur. Roundup er notað um allan heim í landbúnaði og garðrækt og hefur skapað Monsanto tekjur upp á 4,8 milljarða dollara (um 600 milljarða ísl. kr.) á síðustu 12 mánuðum. Um þessar mundir stendur Monsanto einnig frammi fyrir a.m.k. 700 málsóknum vegna ásakana um að PCB sem fyrirtækið framleiddi á sínum tíma hafi valdið non-Hodgkin eitlafrumukrabbameini.
(Sjá frétt PlanetArk 16. október).

BPA í matarumbúðum kostar samfélagið stórfé

BPAAlgjört bann við notkun efnisins bisfenól-A (BPA) í matarumbúðir í Bandaríkjunum gæti komið í veg fyrir 6.236 tilfelli af offitu barna þarlendis á ári hverju og lækkað jafnframt nýgengi kransæðasjúkdóma um 22.350 tilfelli. Um leið myndu sparast um það bil 1,74 milljarðar Bandaríkjadala (rúmlega 200 milljarðar ísl. kr.) í heilbrigðiskerfinu árlega, og er þá sparnaður vegna annarra sjúkdóma ótalinn. Þetta kemur fram í grein sem birtist í tímaritinu Health Affairs í síðasta mánuði. BPA er m.a. notað við framleiðslu á pólýkarbónatplasti og í epoxýhúð innan á niðursuðudósir. Sparnaðurinn sem hlytist við að hætta notkun efnisins í matarumbúðir er að öllum líkindum meiri en sem nemur kostnaðinum við að nýta öruggari og dýri efni.
(Sjá grein í Health Affairs 16. janúar).

Ný tækni í vetnisframleiðslu

SkolpvetnisbunadurHópur vísindamanna undir stjórn Yat Li, aðstoðarprófessors í efnafræði við Háskólann í Santa Cruz í Kaliforníu, hefur þróað búnað sem framleiðir vetni úr fráveituvatni og sólarljósi með hjálp örvera en án utanaðkomandi orku. Hugmyndin byggir á samnýtingu tvenns konar efnarafala, sem báðir geta framleitt vetni einir og sér, en þurfa til þess vægan rafstraum. Búnaður Li og félaga hefur enn sem komið er aðeins verið prófaður í tilraunastofu, en nýtingarmöguleikarnir eru miklir ef takast má að þróa búnaðinn til nota í hreinsistöðvum fyrir fráveituvatn. Með þessu fæst ekki aðeins vetni án mikillar fyrirhafnar eða rekstrarkostnaðar, heldur brotna lífræn mengunarefni í fráveituvatninu niður í leiðinni.
(Sjá frétt Science Daily 10. október).

Sýklalyf stórlega ofnotuð við hálsbólgu

PillurLæknar eru alltof viljugir að ávísa sýklalyfjum við hálsbólgu og bráðri berkjubólgu ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við Harvardháskóla í Bandaríkjunum sem sagt er frá í tímaritinu JAMA Internal Medicine. Þarlendis ávísi læknar sýklalyfjum til 60% þeirra sem leita til þeirra vegna hálsbólgu, og þegar um berkjubólgu er að ræða er hlutfallið 73%. Þetta gerist þrátt fyrir að aðeins 10% hálsbólgutilfella og nær engin berkjubólgutilfelli stafi af bakteríusýkingum. Þessi mikla og gagnslausa sýklalyfjanotkun stuðli að vexti lyfjaónæmra baktería, auk þess sem fólk sé þarna að setja eitthvað inn í líkamann sem hann hafi enga þörf fyrir en stuðli þess í stað að aukaverkunum á borð við ofnæmi, sveppasýkingar og ógleði.
(Sjá frétt Science Daily 4. október).