Örplast lekur úr tepokum úr gerviefnum

Hópur vísindamanna í Kanada hefur sýnt fram á að tepokar úr gerviefnum gefa frá sér gríðarmikið af örplasti þegar þeir eru settir í sjóðheitt vatn. Talning með rafeindasmásjá leiddi í ljós að frá einum slíkum poka bárust u.þ.b. 14,7 milljarðar örplastagna, þar af um 3,1 milljarður nanóplastagna (minni en 100 nanómetrar (nm) í þvermál. (Til samanburðar er þvermál mannshárs um 75.000 nm)). Þessar tölur er mörgþúsund sinnum hærri en áður hefur sést í matvælum. Í tengslum við þetta voru könnuð áhrif mismunandi styrks þessara sömu plastagna á vatnaflær af tegundinni Daphnia magna. Flærnar lifðu tilraunina af en sýndu tiltekin líffærafræðileg og hegðunarleg frávik. Að sögn vísindamannanna þarf meiri rannsóknir til að draga ályktanir um áhrif þessara plastagna á heilsu manna.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 25. september).

Mikið ósýnilegt vatn í hversdagsvörum

coffee_tea_160Um fimmfalt meira vatn þarf til að framleiða einn bolla af kaffi en einn bolla af tei samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna Friends of the Earth þar sem sjá má útreikninga á vatns- og landnotkun ýmissa vörutegunda til daglegra nota. Þar kemur fram að um 136 lítra af vatni þurfi til að framleiða einn kaffibolla. Mest af þessu vatni fer í ræktunina og í að fjarlægja hlaupkennt lag utan af baununum. Þá kemur fram að að meðaltali þurfi 13 tonn af vatni og 18 fermetra af landi til að framleiða einn snjallsíma. Samtökin skora á fyrirtæki að stunda ábyrga framleiðslu með því að fylgjast með og draga úr auðlindanotkun og upplýsa neytendur um vistspor framleiðslunnar. Um leið dragi fyrirtækin úr framleiðslukostnaði og auki arðsemi sína.
(Sjá frétt EDIE 12. maí).

Er grænt te allra meina bót?

gront_te_160Varnarefni fundust í öllum tegundum af grænu tei sem sænsku neytendasamtökin Råd&Rön rannsökuðu á dögunum. Rannsóknin náði til 12 tetegunda og 300 varnarefna sem notuð eru í landbúnaði. Tvær tegundir fengu falleinkunn, en þær voru frá fyrirtækjunum Lipton og Garant og innihéldu hvor um sig um 15 varnarefni. Í bragðbættu grænu tei frá Garant fannst m.a. fimmfalt meira af skordýraeitrinu asetamípríð en leyfilegt er samkvæmt reglum ESB og Lipton-teið innihélt sexfalt leyfilegt magn af rotvarnarefninu fenýlfenól. Lífrænt te frá Clippers fékk bestu einkunnina. Grænt te er gjarnan markaðssett sem heilsudrykkur vegna andoxunarefna sem fyrirfinnast í því frá náttúrunnar hendi.
(Sjá frétt Råd&Rön 27. janúar).