Ný heimasíða um PVC

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur opnað nýja heimasíðu með upplýsingum fyrir almenning um PVC-plast í byggingarvörum til eigin nota. Markmiðið er m.a. að hjálpa fólki að finna sambærilegar vörur án PVC, þar sem það er á annað borð mögulegt. PVC finnst enn í ýmsum vörum, allt frá skóm og hlífðarfatnaði yfir í leikföng, húsgögn, vínyldúka og raflagnir. Byggingarvörur eru þó stærsti einstaki vöruflokkurinn í þessu sambandi. PVC-plast er bæði endingargott og ódýrt, en því geta hins vegar fylgt ýmis vandamál fyrir heilsuna og umhverfið, m.a. vegna íblöndunarefna sem notuð hafa verið til að gefa plastinu ákjósanlega eiginleika. Mörg þessara efna hafa nú verið bönnuð, en PVC getur þó innihaldið mýkingarefni á borð við þalöt, sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Auk þess er PVC vandmeðfarið í framleiðslu, endurvinnslu og förgun.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 2. nóvember).

Hættuleg efni algeng í snyrtivörum fyrir börn

Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).

Svansmerkt smínk loks fáanlegt

Danski snyrtivöruframleiðandinn Miild setti í gær á markað fyrstu Svansmerktu förðunarvörunar í heiminum. Um er að ræða vörur á borð við púður og augnskugga, en samtals inniheldur Svansmerkta vörulínan 18 vörutegundir í 6 vöruflokkum. Til að fá Svaninn þurfa snyrtivörur að uppfylla strangar kröfur. Þær mega t.d. ekki innihalda paraben eða önnur efni sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans og ekki heldur rotvarnarefni sem flokkuð eru sem ofnæmisvaldar. Þá eru gerðar strangar kröfur um ilmefnainnihald og málma á borð við blý, kvikasilfur og nikkel. Vörurnar þurfa einnig að standast ákveðið próf hvað varðar niðurbrot í náttúrunni, uppsöfnun í lífverum og eituráhrif á vatnalífverur. Þá eru gerðar kröfur um efnainnihald í umbúðum o.m.fl. Mikil eftirspurn hefur verið eftir umhverfismerktum förðunarvörum í Danmörku, enda er ofnæmi fyrir efnum í snyrtivörum algengt vandamál. Svansmerktu förðunarvörurnar verða komnar í danskar búðir í byrjun maí en þær fást nú þegar í vefverslun Miild.
(Sjá fréttatilkynningu Svansins í Danmörku í gær).

Þalöt enn algeng í plastvörum

test-kemi-i-plastik-produkter-160x85Þalöt fundust í helmingi allra vörutegunda úr plasti sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn dönsku neytendasamtakanna (Tænk). Í rannsókninni var leitað að þalötum í 58 vörum og reyndust 29 þeirra innihalda slík efni. Í 24 tilvikum var þar um að ræða þalöt sem sett hafa verið á svonefndan kandídatslista Evrópusambandsins, en á þeim lista eru efni sem talin eru sérlega hættuleg en hafa þó ekki verið bönnuð. Í 5 tilvikum var um önnur þalöt að ræða. Þalöt hafa lengi verið notuð sem mýkingarefni í plast, en þau eru talin geta raskað hormónastarfsemi líkamans.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).

Óleyfileg efni í E.l.f.-snyrtivörum

elf-160x80Dönsku neytendasamtökin (Tænk) hafa sent kæru til Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen) vegna óleyfilegra efna sem fundust í 18 tegundum af E.l.f.-snyrtivörum í athugun samtakanna. Efnin sem um ræðir eru ísóbútýlparaben, metýlísóþíasólínón (MI) og metýlklóróísóþíasólínón (MCI). Notkun ísóbútýlparabens í snyrtivörur hefur verið bönnuð innan ESB frá 30. júlí 2015, en hætta er talin á að efnið geti raskað hormónastarfsemi líkamans. Frá árinu 2016 hefur verið óheimilt að nota MI og MCI í vörur sem ætlað er að liggja á húð, en þessi efni eru kunnir ofnæmisvaldar. Innflytjandi umrædds varnings segist hafa fengið ranga sendingu frá framleiðandanum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 26. janúar).

ESB bannar tvo hormónaraskandi illgresiseyða

5238Evrópusambandið hefur bannað notkun illgresiseyða sem innihalda efnin amítról og ísóprótúrón þar sem þau eru talin geta orsakað skjaldkirtilskrabbamein, ófrjósemi og fæðingargalla. Bannið tekur gildi 30. september nk. Þetta er í fyrsta sinn sem sambandið bannar notkun illgresiseyða sem taldir eru hormónaraskandi, en dönsk stjórnvöld o.fl. hafa þrýst á að fleiri slík efni verði tekin úr umferð. Talsmaður grasrótarsamtakanna Pesticide Action Network segist fagna niðurstöðunni en leggur um leið áherslu á að nú þegar liggi fyrir hjá ESB fjölmargar tillögur um bann eða takmörkun á notkun hormónaraskandi efna í varnarefnum og að sambandið hafi jafnan frestað ákvarðanatöku þar um. Amítról er mikið notað í 10 löndum ESB og illgresiseyðar sem innihalda ísóprótúrón eru seldir í 22 ríkjum enda þótt fyrir liggi niðurstöður Matvælaöryggisstofnunar Evrópu um skaðsemi efnisins.
(Sjá frétt the Guardian 19. apríl).

Hormónaraskandi efni í vítamíni fyrir börn

vitaminHormónaraskandi efni fannst í þremur tegundum af vítamínum fyrir börn sem könnuð voru í nýlegri rannsókn dönsku neytendasamtakanna Tænk, en samtals voru 12 vörur af þessu tagi teknar til skoðunar. Efnið sem um ræðir nefnist BHT (bútýlhýdroxýtólúen). Vitað er að efnið hefur áhrif á hormónastarfsemi dýra og er því einnig talið hormónaraskandi í fólki. Notkun efnisins sem aukaefnis í matvælum er lögleg en ekki æskileg, en efnið er yfirleitt merkt sem E321 í innihaldslýsingum. Áhrif vítamínsins eins og sér á hormónastarfsemina eru lítil en það getur átt sinn þátt í kokteiláhrifum þar sem fleiri hormónaraskandi efni eru til staðar í daglegu umhverfi barna.
(Sjá frétt Tænk 17. febrúar).

Varasöm efni í kerrupokum

babysoveposer-test (2) (160x77)Fjórar af 10 tegundum kerrupoka og burðarpoka sem skoðaðir voru í nýlegri úttekt dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda efni sem talin eru krabbameinsvaldandi eða hormónaraskandi. Efnin sem um ræðir eru þalöt, flúorsambönd og naftalín, sem tilheyrir flokki PAH-efna. Verst var ástandið í Dania Oxford-kerrupokanum sem innihélt þalatið DEHP langt yfir leyfilegum mörkum. Tænk ráðleggur neytendum að þvo kerrupoka áður en þeir eru teknir í notkun og að velja poka með umhverfismerkjum á borð við Öko-Tex, Umhverfismerki Evrópusambandsins og GOTS.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 9. febrúar).

Varasöm efni í flestum andlitskremum

ansigtscreme-testEngin af 20 tegundum vinsælla andlitskrema í dýrari kantinum sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum reyndist laus við varasöm efni. Umrædd efni eru ekki á bannlista og ekki talin skaðleg í litlu magni, en geta engu að síður verið varasöm vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum, þ.e. svonefndra kokteiláhrifa. Sex tegundir af 20 fengu rauða spjaldið hjá Tænk, þar sem þau innhéldu parabena eða önnur efni sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Hin fjórtán fengu gula spjaldið vegna þess að þau innihéldu ýmist umhverfisskaðleg efni eða ilmefni sem geta aukið hættuna á ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).

Varasöm efni algeng í rakvélablöðum

skrabere-test-web1Ellefu af 27 tegundum rakvélablaða sem teknar voru fyrir í nýlegri könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk reyndust innihalda rotvarnarefnið BHT sem talið er geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Rakvélablöðin sem skoðuð voru áttu það öll sameiginlegt að vera með sérstaka innbyggða smurrák (d. lubrastrip) sem ætlað er að mýkja húðina við rakstur. Efnið sem um ræðir er notað til að koma í veg fyrir að smurrákin oxist. BHT fannst í rakvélablöðum frá BIC og Gillette, en ekki í blöðum frá öðrum framleiðendum. Ólíklegt er að hormónaraskandi efni í vörum af þessu tagi hafi mikil skaðleg áhrif ein og sér, þar sem varan liggur ekki eins lengi á húðinni eins og t.d. húðkrem. Hins vegar getur þetta efni átt þátt í hormónaraskandi kokteiláhrifum þegar saman koma fleiri svipuð efni úr öðrum neytendavörum.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).