Nýtt plast sem hægt er að endurvinna endalaust

Vísindamenn við Berkeley-háskólann í Kaliforníu hafa þróað „næstu kynslóð“ af plasti sem hægt er að endurvinna aftur og aftur án þess að gæðin minnki. Þetta nýja plast, polýdíketóenamín (PDK) hefur þann eiginleika að hægt er að brjóta það niður í grunnsameindir (einliður (e. monomers)) í sterkri sýrulausn sem rýfur jafnframt efnatengi sem binda íblöndunarefni (litarefni, mýkingarefni o.s.frv.) við plastið. Eftir standa þá hreinar einliður sem hægt er að raða saman í nýtt PDK-plast sem er jafngott og það upphaflega og sem hægt er að gefa ákjósanlega eiginleika með nýjum íblöndunarefnum.
(Sjá frétt Waste Management World 17. september).

Rafknúið rúgbrauð á markað 2022

Bílaframleiðandinn Volkswagen tilkynnti sl. laugardag að rafknúið „rúgbrauð“ verði sett á markað árið 2022, en margir hafa saknað þessa VW-sendiferðabíls sem oft er tengdur 68-kynslóðinni í hugum fólks. Hugmyndabíll af þessu tagi var sýndur á bílasýningunni í Detroit fyrr á þessu ári, en ákvörðun um framleiðslu lá ekki fyrir fyrr en á laugardaginn. Ákvörðunin var kynnt á samkomu í Monterey í Kaliforníu, en þar stóð vagga rúgbrauðsins og hippamenningarinnar að margra mati. Ekki liggja fyrir nákvæmar tækniupplýsingar um nýja rúgbrauðið, en hugmyndabíllinn sem kynntur var í Detroit var með 111 kwst rafhlöðu sem á að duga fyrir rúmlega 400 km akstur.
(Sjá frétt Business Insider í gær).

Kalifornía bannar míkróplast í snyrtivörum

ppcÖldungadeild ríkisþings Kaliforníu samþykkti sl. föstudag með 24 atkvæðum gegn 14 að breyta lögum ríkisins þannig að bannað verði að selja snyrtivörur og húðvörur sem innihalda plastagnir (míkróplast). Fulltrúadeild þingsins afgreiðir málið væntanlega í þessari viku og að því loknu þarf ríkisstjórinn að staðfesta lögin. Gangi þetta eftir tekur bannið gildi 1. janúar 2020. Umhverfisverndarsinnar vonast til að önnur ríki Bandaríkjanna fylgi þessu fordæmi Kaliforníuríkis og sporni þannig við frekari dreifingu míkróplasts út í umhverfið.
(Sjá frétt á heimasíðu Plastic Pollution Coalition 4. september).

Rafrettur ógna heilsu

ecig_160Heilbrigðisyfirvöld í Kaliforníu tilkynntu í fyrradag að þau hefðu skilgreint rafrettur sem heilsufarsógn og að þörf væri á að laga reglur um sölu og notkun rafretta að því sem gildir um venjulegar tóbaksvörur. Í skýrslu Heilbrigðisstofnunar Kaliforníu kemur fram að þrátt fyrir að rafrettur hafi minni neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu en hefðbundnir vindlingar, gefi þær enga að síður frá sér krabbameinsvaldandi efni og ýti undir að Bandaríkjamenn verði háðir nikótíni. Þörf sé á auknum rannsóknum á langtímaáhrifum rafretta á heilsu auk þess sem samræma þurfi reglugerðir um innihaldsmerkingar, viðvaranir, markaðsetningu og sölu. Sérstaka áherslu þurfi að leggja á forvarnir gegn nikótíninntöku barna, en sífellt fleiri börn undir 5 ára aldri fá nikótíneitrun eftir að hafa gleypt rafrettufyllingar (fljótandi nikótín). Slík tilfelli í Kaliforníu voru 7 árið 2012 en 154 árið 2014. Vinsældir rafrettunnar hafa aukist gríðarlega og leitt til mjög breyttrar nikótíneyslu án þess að yfirvöld hafi brugðist við.
(Sjá frétt ABC News 28. janúar).

Enn fjárfestir Google í endurnýjanlegri orku

google_160Google tilkynnti í dag að fyrirtækið muni leggja 145 milljónir bandaríkjadala (um 17 milljarða ísl. kr.) í nýtt 82 MW sólarorkuver í Kaliforníu, en þetta mun vera sautjánda fjárfesting fyrirtækisins í endurnýjanlegri orku frá árinu 2010. Um er að ræða uppsetningu á sólarrafhlöðum á um 300 hektara landsvæði í Kernsýslu þar sem áður var olíu- og gasvinnsla og mun verið geta séð um 10.000 heimilum í Kaliforníu fyrir raforku. Um 35% af allri orkunotkun Google er nú af endurnýjanlegum uppruna.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Rusl á fjörum kostar íbúa stórfé

strendurÍbúar Orange County í Kaliforníu eyða tugum milljóna dollara árlega í að komast hjá því að eyða sumrinu á ströndum þar sem mikið er um rusl, að því er fram kemur í nýrri rannsókn bandarísku sjávar- og andrúmsloftsstofnunarinnar (NOAA). Útgjöldin felast í ferðakostnaði fólks sem fer um langan veg í leit að hreinni ströndum, enda virðist hreinleikinn skipta fólk mestu máli við val á strandsvæðum til útivistar. Ef takast má að minnka úrgangsmagn á ströndum sýslunnar um 25% gæti samanlagður sparnaður íbúa numið allt að 32 milljónum Bandaríkjadala á hverju sumri (um 3,7 milljörðum ísl. kr). Með því að koma í veg fyrir að úrgangur endi í hafinu er því dregið úr kostnaði íbúa á sama tíma og vistkerfi hafs og stranda eru vernduð.
(Sjá frétt ENN 12. ágúst).