Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Greinasafn fyrir merki: niðurbrjótanlegt plast
„Oxo-degradable“ plast verði bannað
Rúmlega 150 samtök og fyrirtæki, þ.á.m. Marcs & Spencer, Unilever og Pepsi, hafa sameinast um áskorun Ellen MacArthur stofnunarinnar til stjórnvalda um heim allan að banna notkun á ildislífbrjótanlegu plasti (e. oxo-degradable plastics), í það minnsta þar til óháðir rannsakendur hafi sýnt fram á að umrætt plast brotni fyllilega niður við ólíkar aðstæður á nógu skömmum tíma til að koma í veg fyrir uppsöfnun plastagna í umhverfinu. Plast af þessu tagi er notað í vaxandi mæli í plastpoka og aðrar umbúðir, en vísbendingar eru uppi um að staðhæfingar um niðurbrot þess eigi ekki við rök að styðjast. Að sögn talsmanns Ellen MacArthur stofnunarinnar er þetta efni hvorki endingargott né nothæft í endurvinnslu eða jarðgerð, og því eigi það ekki heima í hringrásarhagkerfinu. Þess má geta að ildislífbrjótanlegt plast hefur verið bannað í Frakklandi frá árinu 2015.
(Sjá frétt GreenBiz.com 7. nóvember).
Niðurbrjótanlegt plast til vandræða í endurvinnslu
Niðurbrjótanlegt plast sem kemur með öðru plasti til endurvinnslu hefur veruleg neikvæð áhrif á gæði plastfilmu sem unnin er úr efninu. Samanburður sem Samtök plastendurvinnslufyrirtækja í Evrópu (Plastic Recyclers Europe (PRE)) létu gera, sýndi mikinn gæðamun á afurðum sem annars vegar voru unnar úr plasti sem safnað hafði verið til endurvinnslu í Norður-Evrópu og hins vegar úr plasti frá Suður-Evrópu, en í Suður-Evrópu hefur niðurbrjótanlegt plast náð mun meiri útbreiðslu en norðar í álfunni. Plastfilma sem unnin var úr suðurevrópska plastinu var með mun fleiri göt og aðra galla en norðlæga plastið. Gallana má rekja til efna sem bætt er í plastið til að flýta niðurbroti þess, m.a. pólýaktíðs (PLA). Í þessu ljósi telur PRE brýnt að stjórnvöld komi á sérstöku söfnunarkerfi fyrir niðurbrjótanlegt plast, auk kerfa fyrir venjulegt plast og lífplast.
(Sjá frétt á heimasíðu PRE 15. september).