Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum

Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu

Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Enginn latteskattur

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).

Má búast við latteskatti?

Kaffihúsakeðjan Starbucks í London ætlar að gera tilraun með að rukka viðskiptavini um 5 pens aukalega (um 7 ísl. kr.) fyrir hvern kaffiskammt sem seldur er í einnota málum. Með þessu vill Starbucks draga úr sóun, en árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffibolla í ruslið. Ef þessum bollum væri öllum raðað enda við enda myndu þeir ná fimm og hálfan hring í kringum jörðina. Fimmpensagjaldið verður fyrst um sinn bara lagt á til reynslu í 20-25 kaffihúsum í þrjá mánuði, frá og með febrúar. Ágóðinn verður notaður til rannsókna á því hvernig gjaldið hefur áhrif á viðhorf og hegðun viðskiptavina. Ákvörðun Starbucks var kynnt sama dag og umhverfisúttektarnefnd breska þingsins beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að taka upp 25 pensa „latteskatt“ með það að markmiði að árið 2023 verði allir einnota kaffibollar farnir að skila sér í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Sun 5. janúar).

Eru kaffidrifnir strætisvagnar framtíðin?

Olía sem unnin er úr kaffikorgi er nú notuð á nokkra strætisvagna í London. Á hverjum degi eru drukknir um 55 milljón bollar af kaffi í Bretlandi og samtals falla þar til um 200.000 tonn af kaffikorgi á ári. Fyrirtækið Bio-bean safnar korgi og vinnur úr honum olíu sem síðan er blandað í venjulega dísilolíu í hlutföllunum 20/80 (B20-lífdísill). Engar breytingar þarf að gera á olíuverki strætisvagnanna til að þeir geti nýtt þetta eldsneyti. Lífdísill úr notaðri matarolíu og tólg hefur um nokkurt skeið verið notaður með þessum hætti í almenningsfarartækjum í London, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem kaffikorgur kemur að notum sem orkugjafi á þeim vettvangi.
(Sjá frétt BBC 19. nóvember).

Bátur úr endurunnu plasti sjósettur í London

Á dögunum sjósettu umhverfissamtökin Hubbub bát sem er að 99 hundraðshlutum gerður úr endurunnu plasti. Báturinn, sem nefndur hefur verið Poly-Mer, verður notaður til að safna plastrusli af hafnarsvæðum Lundúna og vekja fólk í leiðinni til vitundar um mikilvægi þess að umgangast plast af ábyrgð og varúð þannig að það lendi ekki í sjónum. Poly-Mer er fyrsti báturinn í heiminum sem smíðaður er úr plastúrgangi.
(Sjá frétt á heimasíðu Recycling & Waste World 2. nóvember).

Endurvinnslustöð fyrir bleyjur og dömubindi rís í London

28992Bandaríska fyrirtækið Knowaste áformar að reisa sjö endurvinnslustöðvar fyrir rakadrægar hreinlætisvörur í Bretlandi á næstu fimm árum og hefur þegar sótt um leyfi fyrir fyrstu stöðinni sem áformað er að hefji rekstur í London snemma árs 2017. Með „rakadrægum hreinlætisvörum“ (e. Absorbent Hygiene Products (AHP)) er átt við vörur á borð við einnota bleyjur, buxnainnlegg og dömubindi. Árlega urða Bretar um milljón tonn af slíkum úrgangi, eða sem samsvarar 4-7% af öllum óflokkuðum heimilisúrgangi. Knowaste beitir nýrri tækni við endurvinnsluna, þar sem úrgangurinn er tættur, sótthreinsaður, þurrkaður og aðskilinn í plast, trefjar og aðskotaefni. Plastið nýtist sem hráefni í framleiðslu á nýjum plastvörum og úr trefjunum má m.a. framleiða undirburð fyrir gæludýr. Stöðin í London á að geta tekið við 36.000 tonnum af úrgangi á ári og er reiknað með að nýtingarhlutfallið verði rúmlega 97%. Stofnkostnaður stöðvarinnar verður um 14 milljónir sterlingspunda (tæplega 2,8 milljarðar ísl. kr.).
(Sjá frétt EDIE í dag).

Aukin samnýting bíla í London

car_share_160Á dögunum var kynnt ný áætlun um aukna samnýtingu bílaflotans í London, en þar er stefnt að því að milljón borgarbúar verði orðnir aðilar að samnýtingar- eða samakstursfélögum fyrir árið 2025. Í aðgerðaráætluninni, sem gengur undir nafninu Car Club Action Plan, er lögð áhersla á að deilihagkerfið verði haft í huga við þróun samgangna í borginni, en í dag deila um 145.000 Lundúnabúa bíl með öðrum eða notast við deilibíla. Sem dæmi um aðgerðir samkvæmt áætluninni má nefna bætt aðgengi að samnýtingarbílum með upplýsingatækni og aukinni nálægð við bílamiðstöðvar, fjölgun samnýtingarbílastæða og aukna áherslu á rafbíla innan félaganna. Samkvæmt rannsóknum RAC Foundation notar dæmigerður borgarbúi bílinn sinn aðeins um 4,6 klst á viku sem þýðir að bíllinn stendur ónotaður um 97% vikunnar á sama tíma og þrengsli og mengun í stórborgum eykst ört með stækkandi bílaflota. Með samnýtingu má fækka bílum og nýta hvern þeirra betur.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Tré í þéttbýli bæta geðheilsu

tree_160Þunglyndislyfjum er sjaldnar ávísað í hverfum þar sem mörg tré hafa verið gróðursett við götur. Þetta kemur fram í nýrri breskri rannsókn þar sem skoðuð var fylgni milli geðheilsu og þéttleika trjáa við götur í 33 hverfum Lundúnaborgar. Niðurstöðurnar benda til að hægt sé að bæta lífsgæði og heilsu íbúa með því að viðhalda tengingu við náttúruna. Þegar leiðrétt hafði verið fyrir félagslegri stöðu, atvinnustigi, fjölda reykingarmanna og meðalaldurs kom í ljós að fyrir hvert tré á hvern kílómetra götu fækkaði útgefnum lyfseðlum fyrir þunglyndislyfjum um 1,18 á hverja 1.000 einstaklinga. Höfundar rannsóknarinnar telja niðurstöðurnar sýna fram á mikilvægi markvissrar gróðursetningar trjáa í þéttbýli til að draga úr streitu og bæta geðheilsu íbúa.
(Sjá umfjöllun í fréttabréfi ESB um umhverfisstefnumótun í dag).

Sólarrafhlöður úr rækjuskel

crustacean_160Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa þróað byltingarkennda aðferð til að framleiða sólfangara úr efnum sem finnast í rækju- og krabbaskeljum. Aðferðin byggir á nanótækni þar sem vatnsvarmakolun (e. hydrothermal carbonisation) er beitt til að framleiða kolefnisskammtadepla (e. carbon quantum dots (CQDs)) úr kítíni og kítósan úr skel. Grunneiningar sólfangaranna eru svo búnar til úr sinkoxíðnanóstöngum sem húðaðar eru með deplunum. Þetta er í fyrsta sinn sem lífmassi er notaður til framleiðslu á sólföngurum, en yfirleitt er notast við dýra málma á borð við rúten. Með þessari nýju aðferð er bæði dregið úr umhverfisáhrifum og kostnaði, þar sem uppistaðan í framleiðslunni eru afgangsefni úr annarri framleiðslu. Vonir standa til að í framtíðinni verði hægt að nota þessa tækni við framleiðslu á nær gegnsæjum sólarorkufilmum í glugga, hleðslutæki fyrir smáraftæki o.fl.
(Sjá frétt EDIE 19. febrúar).