Með hjálp 10.000 sjálfboðaliða í 42 löndum hafa samtökin Greenpeace og Break Free from Plastic safnað plastrusli og skrásett nöfn fyrirtækjanna sem framleiddu plastið – og nú hafa þessar upplýsingar verið birtar í formi lista yfir 10 stórtækustu plastruslsframleiðendurna. Coca Cola trónir á toppi listans, en rusl þaðan var nánast alls staðar í einu af þremur efstu sætunum. Pepsi lenti í öðru sæti listans og Nestlé í því þriðja. Greenpeace hefur í framhaldi af þessu sett í gang átakið #IsThisYours, þar sem fólk er hvatt til að setja myndir af rusli inn á samfélagsmiðla, merktar framleiðandanum og átakinu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).
Greinasafn fyrir merki: Greenpeace
Norska ríkið fyrir rétt vegna olíuborana
Á morgun hefjast söguleg réttarhöld í Osló, þar sem tekist verður á um það hvort ný leyfi sem norsk stjórnvöld hafa veitt til olíuvinnslu í Barentshafi standist 112. grein norsku stjórnarskrárinnar um rétt komandi kynslóða til heilsusamlegs og öruggs umhverfis. Dómsmálið, sem er hið fyrsta sinnar tegunar, er höfðað af samtökunum Greenpeace og Nature and Youth. Samtökin halda því fram að með því að leyfa þessa starfsemi stefni norsk stjórnvöld fólki og umhverfi í verulega hættu, auk þess sem leyfisveitingarnar stríði gegn Parísarsamkomulaginu. Meðal þeirra sem komnir eru til Oslóar til að fylgjast með réttarhöldunum eru fulltrúar Fiji, sem er í hópi þeirra eyþjóða sem stafar mest ógn af loftslagsbreytingum. Fiji er einmitt í forsæti loftslagsráðstefnunnar (COP23) sem nú stendur yfir í Bonn.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag).
Hættuleg efni algeng í útivistarvörum
Aðeins fjórar af 40 útivistarvörum sem skoðaðar voru í nýrri rannsókn á vegum Greenpeace reyndust lausar við per- og pólýflúoruð efnasambönd sem geta verið hættuleg fyrir umhverfi og heilsu, en þessi efni eru notuð vegna vatns- og fitufráhrindandi eiginleika sinna. Auk útivistarfatnaðar og skóbúnaðar náði rannsóknin til varnings á borð við bakpoka, tjöld og svefnpoka. Meðal hættulegra efna sem leyndust í vörunum má nefna PFOA og aðrar langar flúoraðar kolefniskeðjur, en einnig kom í ljós að minni flúorkolvetni (PFC) eru notuð í vaxandi mæli. Þessi efni eru þrávirk rétt eins og PFOA, en áhrif þeirra eru minna þekkt. Sum þeirra eru rokgjörn og því líklegri en önnur til að leka úr vörunum.
(Sjá frétt á heimasíðu Greenpeace í dag).
100 milljón hektarar af ósnertum skógi horfnir á 14 árum
Um 104 milljónir hektara af ósnertum skógi, eða sem svarar til þriggja Þýskalanda, (um tífalds flatarmáls Íslands), hafa horfið síðan á árinu 2000 samkvæmt nýrri greiningu sem unnin var af Greenpeace, Háskólanum í Maryland, Transparent World, the World Resources Institute (WRI) og Rússlandsdeild WWF. Við greininguna var notast við gervitunglamyndir og skoðuð þekja í landupplýsingakerfi (GIS) sem skilgreind er sem ósnertur skógur. Um 65% af ósnertum skógi heimsins er að finna í Rússlandi, Kanada og Brasilíu og hafa um 50 milljónir hektara eyðilagst vegna uppbyggingar í þessum löndum. Aðstandendur greiningarinnar segja stjórnvöld þurfa að bregðast flljótt við hnignuninni með því að stækka vernduð landsvæði og bæta réttindi samfélaga sem eru háð afkomu skóga. Auk þess þurfi Sameinuðu þjóðirnar, iðnríki og þróunarstofnanir að styðja við verndun ósnertra skóga í þróunarríkjum. Ósnertir skógar gegna mikilvægu hlutverki í að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, hægja á loftslagsbreytingum og tryggja gæði andrúmslofts og vatns.
(Sjá frétt WRI 4. september).
Jákvæð þróun í raftækjaframleiðslu
Raftækjaframleiðendur sýna aukinn vilja til að minnka umhverfis- og samfélagsáhrif framleiðslu og notkunar raftækja samkvæmt nýrri skýrslu Greenpeace sem ber heitið Green Gadgets: Designing the Future. Þannig hafa mörg fyrirtæki heitið að draga úr eða hætta notkun skaðlegra PVC-efna og brómaðra eldvarnarefna (BFR). Þessi efni brotna ekki niður og hafa því neikvæð umhverfis- og heilsuáhrif við meðhöndlun raftækjaúrgangs, en eitraður raftækjaúrgangur er talinn muni nema um 65 milljónum tonna árið 2017. Þrátt fyrir aukna umhverfisáherslur í raftækjaframleiðslu telur Greenpeace að fyrirtækin geti gert betur með því að beita sér fyrir banni á notkun slíkra efna, leggja áherslu á sjálfbæra stjórnun birgjakeðja og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í framleiðslunni.
(Sjá frétt Greenpeace 3. september).
Eiturefni í söluvarningi fyrir HM 2014
Varningur frá Nike, Adidas og Puma sem ætlaður er til sölu í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem hefst í Ríó í næsta mánuði, inniheldur ýmis skaðleg efni yfir leyfilegum mörkum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace, A Red Card for Sportswear Brands. Skýrslan byggir á greiningu á 33 vörutegundum sem settar hafa verið á markað í tilefni af keppninni, nánar tiltekið 21 tegund af fótboltaskóm, 7 bolum, fjórum mismunandi markmannshönskum og hinum opinbera fótbolta mótsins. Óháðar rannsóknarstofur í Þýskalandi og Bretlandi fundu meðal annars perflúorkolefni (PFC), nónýlfenóletoxýlat (NPE), þalöt og dímetýlformamíð (DMF) í vörunum, en þessi efni eru talin vera krabbameinsvaldandi, hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi. Allir skór sem skoðaðir voru innihéldu bæði þalöt og DMF og 13 skótegundir af 21 innihéldu PFC yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins í textílvöru. Fyrirtækin þrjú taka öll þátt í DETOX-verkefni Greenpeace sem hefur það að markmiði að hætta notkun á skaðlegum efnum fyrir árið 2020.
(Sjá frétt Fashion Forum í dag).
Amazon og Twitter fá falleinkunn
Amazon og Twitter fá falleinkunn hjá Greenpeace þegar sjálfbærni samfélagsmiðla er skoðuð. Í nýjustu skýrslu samtakanna undir yfirskriftinni Clicking Clean kemur fram að þessi tvö fyrirtæki hafi sýnt litla viðleitni til að gera þjónustuna sjálfbærari. Þannig hafi ekki verið lögð áhersla á hreina orku þegar gagnaverum fyrirtækjanna var valinn staður. Raforkunotkun gagnavera hefur aukist mikið með stóraukinni netnotkun. Því hafa fyrirtæki á borð við Facebook, Google og Apple sett sér það markmið að raforkan sem þau kaupa sé 100% endurnýjanleg og í mörgum tilvikum framleiða fyrirtækin sína eigin raforku með vindmyllum og sólföngurum. Amazon rekur m.a. gagnaver fyrir Netflix, Spotify, Pinterest, Tumblr og Vine, og ætti að mati Greenpeace að setja sér metnaðarfull markmið um endurnýjanlega orku. Samtökin telja að um 40% af orkunni fyrir gagnaver Amazon sé framleidd með kolum, auk þess sem gagnsæi sé ábótavant í starfsemi fyrirtækjanna tveggja.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Dýru barnafötin líka eitruð
Helstu tískurisar heimsins nota hættuleg efni við framleiðslu á barnafötum, ekki síður en aðrir framleiðendur. Þetta kemur fram í skýrslunni A Little Story about a Fashionable Lie sem Greenpeace kynnti á dögunum í tengslum við tískuvikuna sem nú stendur yfir í Mílanó. Í rannsókn Greenpeace fundust leifar af hættulegum efnum í 16 flíkum af 27 sem teknar voru til skoðunar. Meðal þessara efna voru þalöt og perflúoruð efni (PFC), svo og nonýlfenólethoxýlöt (NPE), sem enn eru notuð sem bleikiefni í fataiðnaði þrátt fyrir mikla skaðsemi í umhverfislegu og heilsufarslegu tilliti og þrátt fyrir að notkun þeirra sé bönnuð í fataframleiðslu innan ESB. Rannsókn Greenpeace náði til fataframleiðendanna Dior, Dolce&Gabbana, Giorgio Armani, Hermés, Louis Vuitton, Marc Jacobs, Trussardi og Versace. Trussardi var eina merkið þar sem ekki fundust hættuleg efni.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 17. febrúar).
Hættuleg efni í barnafötum
Hættuleg efni fundust í 76 af 82 barnaflíkum sem skoðaðar voru í nýrri könnun Greenpeace. Styrkur efnanna var yfirleitt undir hættumörkum, en Greenpeace bendir á að eiturefni eigi ekkert erindi í barnaföt, enda nóg til af öðrum skaðminni efnum sem hægt sé að nota í staðinn. Vissulega skolast mikið af þessum efnum úr fötunum í fyrsta þvotti, en þá berast þau út í umhverfið þar sem þau geta skaðað lífríkið.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 14. janúar).
Benetton gengur til liðs við „Detox-hópinn“
Í síðustu viku bættist Benetton í hóp þeirra 12 fataframleiðandenda sem áður höfðu heitið því að fara í afeitrun, þ.e.a.s. að hætta notkun hættulegra efna í framleiðslu sinni. Kveikjan að þessu framtaki fyrirtækjanna er svonefnt „Detox-átak“ Greenpeace, sem hófst árið 2011 og hefur það að markmiði að auka gagnsæi í umhverfismálum tískugeirans. Fyrsta skrefið í átaki Benetton er að opinbera upplýsingar um losun mengandi efna frá 30 helstu birgjum sínum á heimsvísu 2013. Fyrir árslok 2015 ætlar fyrirtækið að hætta notkun perflúorkolefna (PFC), og árið 2020 á öll notkun hættulegra efna að heyra sögunni til.
(Sjá frétt EDIE 17. janúar og umfjöllun 2020.is 17. desember 2012).