Nýtt ensím sem brýtur niður plast á nokkrum dögum

Vísindamenn við háskólann í Portsmouth í Englandi hafa búið til nýtt ensím sem getur brotið niður plastflöskur á nokkrum dögum. Þetta var gert með því að tengja saman tvö ensím úr bakteríu sem japanskir vísindamenn uppgötvuðu árið 2016. Þessi baktería nærðist á plasti og gat brotið það niður á u.þ.b. 6 vikum. Með því að tengja þessi tvö ensím saman fer niðurbrotstími pólýetýlenplasts (PET) hins vegar niður í nokkra daga. Vísindamennirnir í Portsmouth gera sér vonir um að hægt verði að nýta uppgötvun þeirra í endurvinnsluiðnaði innan tveggja ára og benda jafnframt á að þetta sé enn eitt dæmið um mikilvægi þess að vinna með náttúrunni að lausnum á vandamálum samtímans.
(Sjá frétt PlanetArk 7. október).

Bestu burðarpokarnir eru þeir sem maður notar oftast

b6b7f6dee9d3b68b_800x800arUmhverfisvænstu burðarpokarnir eru þeir sem eru notaðir oftast, að því er fram kemur í nýrri úttekt Neytendafélags Stokkhólms (KfS). Þetta gildir um alla poka, hvort sem þeir eru gerðir úr plasti eða öðrum efnum. Bómullarpokar eru þannig ekki endilega bestir, enda er framleiðsla á bómull mjög frek á auðlindir. Slíkan poka þarf að nota mörghundruð sinnum til að hann komi betur út en lífplastpoki úr sykurreyr sem notaður er einu sinni. KfS mælir helst með pokum úr endurunnu pólýester, svo sem úr gosflöskum eða fatnaði. Slíkan poka þarf að nota 10-40 sinnum til að hann jafnist á við sykurreyrpokann. Þessir pokar eru efnislitlir og því auðvelt að brjóta þá saman og geyma í vasa eða veski. Þar með aukast líkurnar á að þeir séu notaðir aftur og aftur. Árlega nota Svíar um 1,3 milljarða burðarpoka úr plasti og um 60 milljónir poka úr öðrum efnum.
(Sjá fréttatilkynningu KfS 26. janúar).

Framleiðsla á lífrænu plasti fjórfaldast!

bioplasticÁætlað er að heimsframleiðsla á lífrænum plastefnum muni fjórfaldast á næstu fjórum árum eða úr 1,6 milljónum tonna í 6,7 milljón tonn, að því er fram kemur í ársskýrslu European Bioplastics. Aukningin verður væntanlega einkum í Asíu, þar sem Tæland, Indland og Kína munu standa fyrir um 75% af heimsframleiðslunni. Lífræn plastefni eru framleidd úr endurnýjanlegum auðlindum á borð við maíssterkju og sykurreyr og geta m.a komið í stað hefðbundins plasts í umbúðum. Þannig mun áhersla ESB á að draga úr plastpokanotkun stuðla mjög að stækkun markaðsins. Einnig hafa miklar tækniframfarir ýtt undir aukna framleiðslu á lífrænu plasti. Lífrænt pólýetýlenplast er lang stærsti hluti heimsframleiðslunnar, enda leggja fyrirtæki á borð við Coca-Cola síaukna áherslu á „grænar“ umbúðir.
(Sjá frétt EDIE 4. desember).