Örplast lekur úr tepokum úr gerviefnum

Hópur vísindamanna í Kanada hefur sýnt fram á að tepokar úr gerviefnum gefa frá sér gríðarmikið af örplasti þegar þeir eru settir í sjóðheitt vatn. Talning með rafeindasmásjá leiddi í ljós að frá einum slíkum poka bárust u.þ.b. 14,7 milljarðar örplastagna, þar af um 3,1 milljarður nanóplastagna (minni en 100 nanómetrar (nm) í þvermál. (Til samanburðar er þvermál mannshárs um 75.000 nm)). Þessar tölur er mörgþúsund sinnum hærri en áður hefur sést í matvælum. Í tengslum við þetta voru könnuð áhrif mismunandi styrks þessara sömu plastagna á vatnaflær af tegundinni Daphnia magna. Flærnar lifðu tilraunina af en sýndu tiltekin líffærafræðileg og hegðunarleg frávik. Að sögn vísindamannanna þarf meiri rannsóknir til að draga ályktanir um áhrif þessara plastagna á heilsu manna.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 25. september).

Trufla mengunarefni líkamsklukkuna?

Svo virðist sem mengunarefni í umhverfinu geti truflað líkamsklukkuna, en slík truflun er talin geta stuðlað að krabbameini, sykursýki, offitu, hjartasjúkdómum og þunglyndi. Vísbendingar um þetta komu fram í rannsókn Rensselaer háskólans (Rensselaer Polytechnic Institute) sem sagt er frá í tímaritinu Ecology and Evolution. Í rannsókninni var rýnt í hegðun vatnaflóa af tegundinni Daphnia pulex, en þessar flær eiga auðvelt með að aðlagast saltara vatni. Í ljós kom að eftir því sem saltstyrkur vatnsins hækkar umfram náttúrulegan styrk breytist dagsveifla hegðunarinnar, þar til öll merki um eðlilega dagsveiflu hverfa. Virkni líkamsklukkunnar ræðst af tjáningu svonefndra PERIOD-gena (PER-gena), en líkamsklukka manna og flestra annarra dýra byggir á svipuðu kerfi. Höfundar rannsóknarinnar telja því hugsanlegt að mengunarefni í umhverfinu hafi sambærileg áhrif á líkamsklukku manna.
(Sjá frétt á heimasíðu Rensselaer háskólans í dag).