Örplast heftir vöxt ánamaðka

Örplast í jarðvegi heftir vöxt ánamaðka og leiðir þannig líklega til minni framleiðni viðkomandi vistkerfis. Þetta kemur fram í rannsókn breskra vísindamanna sem birt verður í tímaritinu Environmental Science & Technology. Í rannsókninni var borinn saman vaxtarhraði ánamaðka sem lifðu í mold sem innihélt örplast (HDPE-agnir) og orma sem lifðu í mold án plastagna. Þar sem örplastið var til staðar léttust maðkarnir að meðaltali um 3,1% á 30 daga tímabili, en hinir maðkarnir þyngdust að meðaltali um 5,1% á sama tíma. Ekki er fullljóst hvernig örplastið hefur þessi áhrif en höfundar rannsóknarinnar telja líklegt að plastið trufli upptöku næringarefna í meltingarvegi og leiði þannig til þyngdartaps. Leiða má að því getum að þetta hafi keðjuverkandi áhrif í vistkerfinu, þar sem maðkarnir gegna mikilvægu hlutverki í niðurbroti lífrænna efna og í loftun jarðvegs.
(Sjá frétt Science Daily 11. september).

Landbætur hægja á hlýnun

Hægt er að hægja á hlýnun loftslags af mannavöldum með einföldum og vel þekktum aðferðum til að auka gæði jarðvegs á landi sem nýtt er til landbúnaðar. Þetta kemur fram í nýrri amerískri rannsókn sem sagt er frá í netútgáfu Science Advances. Með sáningu þekjuplantna, aukinni ræktun belgjurta, beitarstýringu, minni plægingum o.fl. mætti þannig sporna gegn hlýnun sem samsvarar um 0,1°C fram til ársins 2100. Þessi tala virðist e.t.v. ekki há en skiptir þó verulegu máli í heildarsamhenginu. Allar þessar aðferðir eru til þess fallnar að hækka kolefnisinnihald jarðvegsins og um leið verður jarðvegurinn vatnsheldnari, síður viðkvæmur fyrir rofi og frjósamari, sem þýðir að uppskera eykst.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Berkely 29. ágúst).

Afísingarefni spilla jarðvegi og grunnvatni við flugvelli

flugvollur_160Efni á borð við própýlenglýkól og kalíumformat sem notuð eru við afísingu flugvéla og flugbrauta spilla jarðvegi og grunnvatni í nánd við flugvelli. Áhrifanna gætir helst á vorin þegar snjóa leysir en þá berst mikið af efnunum út í jarðveginn. Efnin brotna niður í jarðvegi með hjálp örvera, en örverurnar nota mikið súrefni og því er jarðvegur og vatn í kringum flugvelli mjög súrefnissnautt. Starfsemi í slíkum jarðvegi er lítil og því gerir hann lítið gagn við síun vatns og aðra vistkerfaþjónustu sem jarðvegur veitir alla jafna. Í skýrslu jarðvísindadeildar Friedrich Schiller University Jena um þessi áhrif eru taldar upp leiðir til að draga úr skaðsemi afísingarefnis, svo sem með því að stjórna flæði þess í jarðveg í leysingum, dæla súrefni í jarðveginn og koma efnunum í snertingu við örverur áður en þau sleppa út í náttúruna. Skýrslan er byggð á rannsókn sem gerð var á alþjóða flugvellinum í Osló, sem staðsettur er nærri vatnsbóli borgarbúa.
(Sjá frétt Science Daily í dag).