Ný heimasíða um PVC

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) hefur opnað nýja heimasíðu með upplýsingum fyrir almenning um PVC-plast í byggingarvörum til eigin nota. Markmiðið er m.a. að hjálpa fólki að finna sambærilegar vörur án PVC, þar sem það er á annað borð mögulegt. PVC finnst enn í ýmsum vörum, allt frá skóm og hlífðarfatnaði yfir í leikföng, húsgögn, vínyldúka og raflagnir. Byggingarvörur eru þó stærsti einstaki vöruflokkurinn í þessu sambandi. PVC-plast er bæði endingargott og ódýrt, en því geta hins vegar fylgt ýmis vandamál fyrir heilsuna og umhverfið, m.a. vegna íblöndunarefna sem notuð hafa verið til að gefa plastinu ákjósanlega eiginleika. Mörg þessara efna hafa nú verið bönnuð, en PVC getur þó innihaldið mýkingarefni á borð við þalöt, sem talin eru geta raskað hormónastarfsemi líkamans. Auk þess er PVC vandmeðfarið í framleiðslu, endurvinnslu og förgun.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 2. nóvember).

Auglýsingaskilti í „endurnýjun lífdaga“

full_29379Auglýsingaskilti úr plasti sem sett voru upp við Þúsaldarvöllinn í Cardiff á meðan heimsmeistarakeppnin í ruðningi fór þar fram í haust, hafa nú gengið í „endurnýjun lífdaga“ fyrir tilstilli umbúðafyrirtækisins DS Smith. Sá hluti skiltanna sem framleiddur hafði verið úr pólýprópýlenplasti (PP) var malaður og breytt í hráefni fyrir nýjar PP-vörur. Með þessu móti var unnt að endurvinna 98% af heildarþyngd PP-skiltanna. Þegar til átti að taka kom hins vegar í ljós að stór hluti skiltanna var úr annars konar plasti sem ekki var hægt að endurvinna, svo sem úr PVC eða úr blöndu af fleiri fjölliðum. Þar sem skilti sem þessi eru efnismikil er ljóst að miklu skiptir úr hvers konar plasti þau eru gerð.
(Sjá frétt EDIE 24. nóvember).

Coop ræðst gegn skaðlegum efnum

Solcreme_og_tandpas_964894y (160x107)Dagvörurisinn Coop í Danmörku hefur hafið sérstakt átak til að ryðja úr vegi skaðlegum efnum úr eigin vörum fyrirtækisins og úr vörum annarra framleiðenda sem seldar eru í verslunum keðjunnar. Á næstu þremur árum munu tólf tilteknir efnaflokkar verða gerðir útlægir úr öllum vörum sem Coop framleiðir og vörur annarra framleiðenda sem ekki fylgja þessu fordæmi verða fjarlægðar úr búðarhillum. Nú þegar hefur örbylgjupoppi, blautklútum og skólavörum úr PVC verið úthýst og nú síðast bættist tannkremið Colgate Total í þann hóp þar sem það inniheldur tríklósan. Efnin sem um ræðir eru öll lögleg, en það sem er löglegt er ekki endilega öruggt, eins og talsmaður Coop orðar það.
(Sjá frétt Politiken 7. september).

Jákvæð þróun í raftækjaframleiðslu

ewaste_160Raftækjaframleiðendur sýna aukinn vilja til að minnka umhverfis- og samfélagsáhrif framleiðslu og notkunar raftækja samkvæmt nýrri skýrslu Greenpeace sem ber heitið Green Gadgets: Designing the Future. Þannig hafa mörg fyrirtæki heitið að draga úr eða hætta notkun skaðlegra PVC-efna og brómaðra eldvarnarefna (BFR). Þessi efni brotna ekki niður og hafa því neikvæð umhverfis- og heilsuáhrif við meðhöndlun raftækjaúrgangs, en eitraður raftækjaúrgangur er talinn muni nema um 65 milljónum tonna árið 2017. Þrátt fyrir aukna umhverfisáherslur í raftækjaframleiðslu telur Greenpeace að fyrirtækin geti gert betur með því að beita sér fyrir banni á notkun slíkra efna, leggja áherslu á sjálfbæra stjórnun birgjakeðja og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í framleiðslunni.
(Sjá frétt Greenpeace 3. september).