Tíu verstu plastbófarnir

Með hjálp 10.000 sjálfboðaliða í 42 löndum hafa samtökin Greenpeace og Break Free from Plastic safnað plastrusli og skrásett nöfn fyrirtækjanna sem framleiddu plastið – og nú hafa þessar upplýsingar verið birtar í formi lista yfir 10 stórtækustu plastruslsframleiðendurna. Coca Cola trónir á toppi listans, en rusl þaðan var nánast alls staðar í einu af þremur efstu sætunum. Pepsi lenti í öðru sæti listans og Nestlé í því þriðja. Greenpeace hefur í framhaldi af þessu sett í gang átakið #IsThisYours, þar sem fólk er hvatt til að setja myndir af rusli inn á samfélagsmiðla, merktar framleiðandanum og átakinu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).

Spilakassar sem ganga á tómum kókflöskum

26215Spilakassar sem taka við tómum kókflöskum voru nýlega settir upp í Dakka, höfuðborg Bangladesh, sem hluti af kynningarverkefni Coca Cola. Settir voru upp sex spilakassar, öðru nafni hamingjukassar, og á þeim sex dögum sem kassarnir voru virkir söfnuðust þúsundir plastflaskna á sama tíma og gangandi vegfarendur skemmtu sér í tölvuleiknum Pong. Aðalmarkmið verkefnisins var þó ekki að safna flöskum, heldur að auka umhverfisvitund íbúa Bangladesh, undirstrika mikilvægi endurvinnslu og senda þau skilaboð að endurvinnsla gæti verið skemmtileg.
(Sjá frétt EDIE í gær).

Coca Cola styrkir Norðurheimskautsverkefni WWF

Coca ColaCoca-Cola ætlar að styrkja alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin WWF um 3 milljónir evra (rúml. hálfan milljarð ísl. kr.) á næstu þremur árum. Féð verður notað til að hrinda af stað átaki um alla Evrópu til að vekja athygli á alvarlegum áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi á Norðurheimskautssvæðinu. Athyglinni verður sérstaklega beint að ísbjörnum, en ör bráðnun heimskautaíssins neyðir birnina til að verja sífellt lengri tíma á landi, sjálfum sér og mannfólkinu til armæðu og tjóns. Þess er og að vænta að auglýsingar og umbúðir Coca Cola verði nýttar til að fræða neytendur um þá ógn sem bráðnun heimskautaíssins raunverulega er.
(Sjá frétt PlanetArk 18. janúar).