Fuglar geta dregið úr varnarefnanotkun

Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).

Krákur þjálfaðar til að tína upp sígarettustubba

Hollenskt sprotafyrirtæki hefur þróað búnað og þjálfunarkerfi til að kenna krákum að tína upp sígarettustubba. Árlega henda jarðarbúar frá sér samtals um 4.500 milljörðum stubba og allir innihalda þeir eiturefni sem eru skaðleg umhverfi og heilsu. Stubba er einkum að finna í þéttbýli og því hentar best að þjálfa dýr til verksins, sem eru vön borgarlífinu. Upphaflega átti að nota dúfur en þær þóttu ekki nógu námsfúsar. Ætlunin er að kenna krákunum að skila stubbunum í þar til gerðan krákubar þar sem sjálfvirkur búnaður skammtar mat eftir að hafa gengið úr skugga um að stubburinn sé raunverulega stubbur en ekki einhver annar úrgangur.
(Sjá frétt IFL Science 13. október).