Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).
Greinasafn fyrir merki: gróður
Landbætur hægja á hlýnun
Hægt er að hægja á hlýnun loftslags af mannavöldum með einföldum og vel þekktum aðferðum til að auka gæði jarðvegs á landi sem nýtt er til landbúnaðar. Þetta kemur fram í nýrri amerískri rannsókn sem sagt er frá í netútgáfu Science Advances. Með sáningu þekjuplantna, aukinni ræktun belgjurta, beitarstýringu, minni plægingum o.fl. mætti þannig sporna gegn hlýnun sem samsvarar um 0,1°C fram til ársins 2100. Þessi tala virðist e.t.v. ekki há en skiptir þó verulegu máli í heildarsamhenginu. Allar þessar aðferðir eru til þess fallnar að hækka kolefnisinnihald jarðvegsins og um leið verður jarðvegurinn vatnsheldnari, síður viðkvæmur fyrir rofi og frjósamari, sem þýðir að uppskera eykst.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Berkely 29. ágúst).
Fleiri greinar, meiri uppskera
Japanskir vísindamenn hafa hugsanlega fundið efni sem nýta mætti til að fjölga greinum plantna og auka þannig uppskeru. Vitað er að plöntugenið D14 á þátt í að takmarka fjölgun greina á plöntum á borð við eplatré. Við prófanir á áhrifum 800 mismunandi sameinda á virkni gensins kom í ljós að 18 þeirra bældu virknina um 70% eða meira. Sameindin DL1 skar sig úr hvað þetta varðar og virtist valda talsvert aukinni greinamyndun bæði hjá tilteknum blómplöntum og hrísgrjónum. Efnið kann því að nýtast til að auka uppskeru. Hafnar eru rannsóknir á því hversu lengi efnið endist í jarðvegi og hvort það hafi eituráhrif á fólk.
(Sjá frétt Science Daily 7. febrúar).
Græn svæði draga úr líkum á langvinnum veikindum
Grænn gróður í nærumhverfi fólks dregur úr líkum á langvinnum sjúkdómum á borð við sykursýki og háan blóðþrýsting ef marka má nýja lýðheilsurannsókn Háskólans í Miami. Í rannsókninni var farið yfir sjúkrasögu 250.000 einstaklinga 65 ára og eldri og niðurstöðurnar bornar saman við greiningu á gróðurfari út frá gervihnattamyndum NASA. Fram kom mikill munur á heilsufari eldri borgara á svæðum þar sem mikið var um gróður, en þar voru líkur á sykursýki 14% lægri en annars staðar, líkur á háþrýstingi 13% lægri og líkur á of hárri blóðfitu 10% lægri. Þessi munur er talinn stafa af meiri útiveru, líkamlegri áreynslu, meiri samskiptum og streitulosun, en gróður getur einnig haft kælandi áhrif og bætt loftgæði. Mestur munur var í tekjulágum hverfum, en þar hafði gróður enn meiri jákvæð áhrif á heilsuna. Niðurstöðurnar styrkja fyrri rannsóknir og eru til þess fallnar að ýta enn frekar undir áherslu á græn svæði í þéttbýlisskipulagi og til þess að hvetja stofnanir og aðra fasteignaeigendur til að gera ráð fyrir gróðri og grænum svæðum við nýbyggingar.
(Sjá frétt Science Daily 21. apríl).